Að gera Bandaríkin aftur mest og verst?

Með afnámi aðhalds í umhverfismálum eða stórminnkun þess hyggst nýr forseti Bandaríkjanna snúa við á þeirri braut, sem þó hefur verið farin vestra síðan í hálfa öld í átt frá rányrkju og sóun auðlinda með mestu loftmengun í heimi.

Þótt þessi viðleitni hafi verið allt of hægfara hefur þó djarfað fyrir viðleitni. 

Nú þegar hefur Trump dregið úr eða aflétt margs konar hömlum á framferði fyrirtækja, sem hafa stundað rányrkju, eitrað umhverfi sitt og valdið stórfelldum náttúruspjöllum. 

Á morgun hyggst hann bæta í og hefja sókn til baka í átt til þess ástands, sem ríkti fyrir hálfri öld þegar "Bandaríkin voru stærst og mest."

Hollt er að rifja upp hvernig ástandið var þar 1967.  

Bandaríkin voru langstærsta iðnaðarveldi heims, og til dæmis mest allra í bílaframleiðslu, framleiddu meira en helminginn af heimsframleiðslunni.

Ameríski kagginn og pallbíllinn voru þjóðartákn, bílarnir þar voru langstærstir, aflmestir og eyðslufrekastir. Bandarískar borgir voru að drukkna í útblástursmengun, sem byrgði fyrir sólu og olli sviða í augum, en hún var tákn um mikilleik neyslusamfélagsins, sem var afrekstur ameríska draumsins um frelsi, fé og frama. 

Bandaríkin héldu áfram út öldina að viðhalda þeim mikilleika að 5% jarðarbúa sköpuðu minnst 25% af loftmenguninni. 

Á meðan frumbyggjar Ameríku voru einir í álfunni, sáu þeir til þess að viðhalda sjálfbærri þróun á sinn hátt, með því að gera kröfur að landinu væri skilað til komandi kynslóða í betra ásigkomulagi en þegar tekið var við því, - að auðlindum væri viðhaldið þannig að ekki væri gengið á þær.

Gott dæmi um annan hugsunarhátt hvíta mannsins var, að hann fór langt með að útrýma amerísku vísundunum á nokkrum áratugum á 19. öld.

Alls voru drepnir 50 milljónir vísunda, mest sem sport en einnig til að rýra afkomumöguleika frumbyggjanna.   

Þótt Trump telji að til þess að gera "America great again" sé hægt að komast hjá því að fást við lang stærsta og óhjákvæmilegasta viðfangsefni jarðarbúa á þessari öld, að koma skikki á mál málanna, umhverfismálin, og í nafni þess að efla veldi bandarískra fyrirtækja verði að snúa hjólinu til baka til að endurheimta mikilleik þeirra, verður eini árangurinn af þessu brölti, þegar fram í sækir, að gera enn erfiðara fyrir þjóðir heims að ráða fram úr þeim risavanda sem rányrkja á auðlindum jarðar skapar. 

Í stað þess að Bandaríkin verði mikilfengleg, eins og þau gætu orðið með því að vera í forystu um umgengni mannkyns við jörðina og auðlindir hennar, ætlar Trump að setja þau í forystu við að rífa niður viðleitni annarra þjóða til að fást við mesta vanda komandi kynslóða. 

Mun honum takast að gera Bandaríkin aftur mest og verst í stað þess að stefna að því að þau verði mest og best?


mbl.is Afnemur reglugerðir Obama í umhverfismálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heimskan er eins og eilífðin, hún takmarkast hvorki af tíma né rúmi.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 27.3.2017 kl. 10:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband