30.3.2017 | 20:41
Rétt ályktað.
Það hefur dregist ansi lengi að olíufélögin komi að málum í innreið rafbíla hér á landi.
Einn af lykilstöðunum sem setja þyrfti upp hraðhleðslustöð er Hrútafjörður vegna legu hans gagnvart þjóðleiðum í fjórar áttir, til Borgarness, Búðardals, Hólmavíkur og Blönduóss.
Áður fyrr voru tvö olíufélög með bensínstöðvar í Hrútafirði, en eftir að Staðarskáli var endurnýjaður og byggður á þeim stað, þar sem hann er nú, varð hann einn eftir á svæðinu.
Þegar hjólað var á rafhjólinu Sörla fyrir eigin vélarafli eingöngu frá Akureyri til Reykjavíkur í hitteðfyrra var komið við og hlaðið í klukkstund í Staðarskála, og var það líklega í fyrsta skipti sem rafknúið farartæki á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur var hlaðið þar og tekið vel á móti þessum óvenjulega viðskiptavini.
Myndin er tekin við það tækifæri.
Næst var hlaðið hjá Olís í Borgarnesi, á Bjarteyjarsandi í Hvalfirði, og í Olís í Mosfellsbæ og alls staðar góðar viðtökur.
Á myndinni frá Borgarnesi má sjá, að á þessu hjóli var hægt að hafa meðferðis allt sem til þurfti við að vera í sambandi á netinu, tölvu, myndavélar, hleðslutæki o. s. frv.
Samt mætti í fljótu bragði ætla að það sé ekki aðlaðandi fyrir fyrirtæki, sem byggir rekstur sinn á notkun jarðefnaeldsneytis, að þjónusta farartæki sem gengur fyrir samkeppnisorkugjafa.
En þetta er ekki svona einfalt. Þegar um bensín eða olíu er að ræða er ekkert sjálfgefið að allir bílar knúnir þeim orkugjöfum stansi til að kaupa eldnsneyti.
En ef boðið er upp á rafhleðslustöð á bensínstöð, sem er þannig í sveit sett, að hún muni laða til sín alla rafbíla, sem eru ferðinni, er þegar búið að ná inn viðskiptavinum, sem kaupa sér veitingar.
Þess vegna er rétt ályktað hjá N1, sem er í lykilaðstöðu, að slá tvær flugur í einu höggi, gulltryggja viðskipti við ákveðinn markhóp og skapa sér jafnframt gott orðspor fyrir víðsýni með því að fara í samvinnu við ON um uppsetningu hleðslustöðva á helstu þjóðleiðum landsins.
Reisa hlöður við hringveginn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
3.3.2017:
"Vegna ársins 2016 styrkti Orkusjóður sex aðila um 66,7 milljónir króna til að setja upp sautján hraðhleðslustöðvar og þrjár minni á eftirtöldum stöðum:
Skjöldólfsstöðum, Bláa lóninu, Landeyjahöfn, Vestmannaeyjum, Egilsstöðum, Höfn, Staðarskála, Fáskrúðsfirði, Djúpavogi, við Jökulsárlón, í Skaftafelli, Kirkjubæjarklaustri, Vík, Hellu, Flúðum, Geysi í Haukadal, Hveragerði, Blönduósi, Varmahlíð og Reykjahlíð.
Vegna ársins í ár hafa tíu aðilar verið styrktir um 66 milljónir króna til að setja upp sextán hraðhleðslustöðvar og tvær minni:
Garðabær, Hafnarfjarðarbær, Isavia, N1, Olíuverslun Íslands, Orka náttúrunnar (ON), Orkubú Vestfjarða, Reykhólahreppur, Skeljungur og Vistorka.
Loks hefur Orkusjóður ákveðið að styrkja tólf aðila til að setja upp níu hraðhleðslutæki og 58 minni.
Þar af er Reykjavíkurborg styrkt til uppsetningar á þrjátíu minni hleðslustaurum víðs vegar um borgina.
Sex hraðstöðvarnar af níu verða settar upp í Reykjavík á vegum Orku náttúrunnar, Olíuverslunar Íslands og Skeljungs.
Á þessu lokaári styrktarverkefna Orkusjóðs verða auk þessa settar upp tólf hleðslustöðvar víða á Austurlandi, ein í Grindavík, þrjár í Mosfellsbæ, á Húsafelli, Reykholti, við Seljalandsfoss, í Norðurfirði á Ströndum, þrjár á Selfossi, ein á Stokkseyri, Eyrarbakka, Raufarhöfn, við Dettifoss, á Laugum, Skagaströnd og Dalvík."
Þorsteinn Briem, 30.3.2017 kl. 21:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.