Svarið um þolmörk liggur erlendis.

Ætlum við Íslendingar að finna upp hjólið í sambandi við ferðaþjónustuna á sama tíma sem í öðrum löndum hefur þetta hjól verið fundið upp og þróað á grundvelli allt að 140 ára gamallrar reynslu?

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðamála, er krafin um skýrslu til Alþingis um þolmörk í ferðaþjónustu. 

Sumir hafa í opinberum umræðum rætt um að ferðafólk á Íslandi sé orðið svo margt, að þolmörkum sé jafnvel náð. 

Þó er það svo, að fjalllendisþjóðgarðar erlendis, eins og Yellowstone, með vetrarhörkum og stuttu sumri, ráða við 4,3 milljónir ferðamanna á svæði, sem er ellefu sinnum minna en Ísland að flatarmáli. 

Yellowstone var fyrsti þjóðgarður heims, stofnsettur fyrir 140 árum. 9000 ferkílómetrar hans eru nær eingöngu óbyggðir með skógum, fjöllum og nokkrum hverasvæðum og hann liggur að meginhluta á hásléttu, sem er hærra yfir sjávarmáli en Öræfajökull. 

Hægt er að aka inn í garðinn í gegnum fjögur þjónustuhlið, en inni í garðinum á milli þeirra liggur einfalt malbikað vegakerfi, sem myndar stafinn 8. Alls um 500 km langt. Til samanburðar er áætlað að vegir og vegslóðar á Íslandi séu um 20 þúsund kílómetrar hið minnsta. 

Engir aðrir vegir en þessi áttu laga tveir hringir eru í garðinum. Aðeins einn örstuttan malarvegarspotta var þar að finna árið 1999, þegar ég var þar á ferð í fyrra skiptið sem ég ferðaðist þangað. 

Að öðru leyti er aðeins hægt að fara gangandi um garðinn eftir 1600 kílómetrum af göngustígum, þar sem notuð er ítala til að tryggja að göngufólk fái sem mesta náttúruupplifun í friði og kyrrð. 

Að langmestu leyti gista þessar 4,3 milljónir árlegra ferðamanna á þéttbýlisstöðum, sem eru skammt utan við þjóðgarðinn. 

Viðkvæm hverasvæðin fá trygga varðveislu án rasks, jafnvel þar sem umferðin er margfalt meiri en við Geysi í Haukadal eða Hveraröndina við Námaskarð. 

Eftir að hafa komið á hversvæðið við Old Faithful blasir við Íslendingi hvílík þjóðarskömm umgengnin við Geysissvæðið er og hefur verið um margra áratuga skeið. 

Það er tómt mál að tala um að gefa skýrslu um þolmörk í ferðaþjónustu hér á landi af neinu viti nema að fyrst hafi verið farin vönduð og ítarleg kynnisför til erlendra þjóðgarða, þar sem aðstæður eru hvað líkastar þeim, sem hér eru, til að nýta sér margra áratuga reynslu af rekstri þeirra. 

Ef slík rannsóknarferð hefur verið farin, hefur sú frétt farið fram hjá mér. 

Eftir slíkri ítarferð og slíkum vinnubrögðum ætti að vera innt á Alþingi. 

 

 


mbl.is Krefjast skýrslu um þolmörk í ferðaþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það hefur lengi tíðkast að útvaldir pótindátar séu sendir í fylleríisferðir til að afla upplýsinga sem finna má með einfaldri leit á netinu, með póstsendingum og símtölum við fólk. Við gætum einnig leitað til okkar fólks. En við eigum eitthvað af fólki sem hefur stúderað þetta efni lengur en langa helgi og edrú.

"Sigrún Helgadóttir kennari, líf- og umhverfisfræðingur er meðal fyrstu Íslendinganna sem kynntu sér ýtarlega þjóðgarða í Bandaríkjunum. Eftir langa ferð þar og heimsókn í tólf þjóðgarða hóf hún nám í auðlindastjórnun við Edinborgarháskóla. Í náminu lagði hún áherslu á að bera saman þjóðgarða í Bandaríkjunum og Bretlandi sem eru gjörólíkir. Hún skoðaði þá  sérstaklega með tilliti til Þjóðgarða, friðlanda og fólkvanga hér á landi."

Bjarni H. Þorsteinsson vann lokaritgerð til BA gráðu í ferðamálafræði við
Háskólann á Hólum Vorið 2013 um aðgengi að ferðamannastöðum, "...Í ritgerðinni mun ég skýra markmið og tilgang með ritgerðinni og leggja fram rannsóknarspurningu. Síðan verður fræðileg umfjöllun um hugtökin sem fram koma.Tvö þekkt hverasvæði, Geysissvæðið í Haukadal og hverasvæðin í Yellowstone þjóðgarðinum í Bandaríkjunum verða skoðuð útfrá hugtökunum...."

Og jafnvel Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur hefur starfað í Yellowstone við rannsóknir og hefur sennilega tekið eftir mörgu öðru en hverahrúðri.

Þessi upptalning er ekki tæmandi, bara það sem 2 mínútur á Google gaf. Ég hefði líka getað notað gömlu aðferðina, sett bjórkippu í bakpokann og labbað milli háskóla og stofnana í Reykjavík í upplýsingaöflun.

Hábeinn (IP-tala skráð) 3.4.2017 kl. 01:23

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Enn horfa menn framhjá aðalatriði málsins, hvort sem þeir heita Ómar Ragnarsson, eru vinstri grænir eða ferðamálaráðherra.

Yfirleitt er ekki hægt að banna útlendingum að dvelja hér á Íslandi eða Íslendingum að veita þeim hér þjónustu samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, meðal annars um frjálsa för fólks og frjáls þjónustuviðskipti á svæðinu.

Kínverjar sem komnir eru inn á Evrópska efnahagssvæðið, til dæmis til Noregs, geta að sjálfsögðu flogið þaðan hingað til Íslands.

Enginn stjórnmálaflokkur sem á sæti á Alþingi vill segja upp aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og það á einnig við um vinstri græna.

Þorsteinn Briem, 3.4.2017 kl. 01:29

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Um 3,4 milljónir manna heimsóttu Yellowstone-þjóðgarðinn í Bandaríkjunum árið 2012 en garðurinn var stofnaður árið 1872 og ég veit ekki betur en að hann sé í góðu lagi.

Yellowstone National Park


"Hann var það
, Steini, þegar ég kom þangað 2008."

Ómar Ragnarsson
, 20.3.2013

Þorsteinn Briem, 3.4.2017 kl. 01:31

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ísland er eitt strjálbýlasta land í heimi og er þar í 237. sæti:

Röð landa eftir þéttleika byggðar

Hver erlendur ferðamaður dvelur hér á Íslandi í eina viku og því voru hér að meðaltali í fyrra um 25 þúsund erlendir ferðamenn á degi hverjum allt árið á öllu landinu.

Um níu af hverjum tíu Íslendingum ferðast hér innanlands á ári hverju og gista að meðaltali tvær vikur á þessum ferðalögum.

Að meðaltali eru því um ellefu þúsund Íslendingar á ferðalögum hér innanlands á degi hverjum, þannig að erlendir ferðamenn eru hér einungis um tvisvar sinnum fleiri en þeir íslensku.

Þorsteinn Briem, 3.4.2017 kl. 01:40

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Steingrímur Hermannsson heimsótti alla þjóðgarða Bandaríkjanna og öll ríki Bandarkjanna nema Alaska meðan hann dvaldi í Bandaríkjunum. Sem forsætisráðherra gekkst hann fyrir því að séra Heimir Steinsson yrði sendur til Yellowstone þegar hann var gerður að þjóðgarðsverði í Þingvallaþjóðgarði. 

Fyrir löngu hefði átt að vera búið að fela Sigrúnu Helgadóttur og öðrum þeim Íslendingum, sem mestrar þekkingar hafa aflað sér á þjóðgörðum og friðuðum svæðum til þess að fara í nógu langa og ítarlega ferð til að móta einhverja þýðingarmestu stefnu í íslenskum málum sem hugsast getur og snýr að mikilvægasta hlutverki íslenskrar þjóðar: 

Að varðveita, annast um og vernda einstæð náttúrverðmæti landsins til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir og mannkyn allt. 

Þótt ég sjálfur hafi heimsótt 30 þjóðgarða og 18 virkjanasvæði í Norður-Ameríku og Evrópu veit ég, að miklu dýpri og lengri rannsókn þarf til að móta stefnu fyrir Ísland í þessum efnum, og ég veit að aðrir Íslendingar hafa aflað sér miklu meiri þekkingar á þessu sviði. 

En málin eru í sífelldri þróun erlendis, og því er best að byggt sé á því allra nýjasta og besta sem 145 ára erlend reynsla hefur fært í þessum efnum. 

Ómar Ragnarsson, 3.4.2017 kl. 11:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband