"Landið fýkur burt"?

"Landð fýkur burt" söng Ríó tríó fyrir um aldarfjórðungi. Þá var að baki um 20 ára tímabil, sem skiptist gróflega í tvennt, áratugur eftir 1974 þegar svonefnd þjóðargjöf sem þjóðin gaf sjálfri sér á 1100 afmæli Íslandsbyggðar á Þingvöllum, hafði bókstaflega "fokið burt" í eyðimerkurstormi óðaverðbólgu og einnig vegna þess að sauðfé og hrossum hafði fjölgað svo mikið með tilheyrandi beitarálagi á land, sem var að stórum hluta óbeitarhæft land, að stórsá á því.

Stormarnir, sem sjást svo vel á gervitunglamyndum, eru að stórum hluta til óumflýjanlegir eftir aurflóð jökuláa, sem engin leið er að græða upp, en því miður einnig vegna þess að gróður og jarðvegur fjúka burt af svipuðum ástæðum og lýst var laginu magnaða og í þeim sjónvarpsþáttum og fréttum sem reynt var að gera til að varpa ljósi á hina miklu afneitun varðandi meðferð okkar á landinu. 

Persónulega rann þetta ástand upp fyrir mér í könnunarflugferðum með Sveini Runólfssyni og við það að sjá með eigin augum hvernig rofabörð við sunnanverðan Kjalveg, sem ég notaði til viðmiðunar í akstri um veginn, hurfu hvert af öðru gersamlega á örfáum árum. 

Hlaut ákúrur hagsmunaaðila vegna umfjöllunar um þetta, sem gat raunar birst í húmor hagyrðinga, svo sem þessari um mig: 

Hefur víða á FRÚnni farið, -

filmað bæði hraun og sker, - 

en ætli´hann hafi augum barið 

ofbeitina á höfði sér?

Að sönnu napurt háð, en því miður um stórfelldan napran sannleika hvað snertir meðferðina, sem gróður og jarðvegur lands okkar verður að sæta of víða. 

 


mbl.is Sandstrókar á haf út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Sláandi mynd af landinu og upplýsingar frá þér, Ómar - Er það virkilega, er ekki hægt að koma í veg fyrir þetta eða græða upp þannig að þessi ósköp gerist ekki ?

Már Elíson, 25.4.2017 kl. 10:57

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Skaftárhlaup eru það tíð að erfitt er um vik. Hlýnandi veðurfar hefur dregið úr víða, og þrátt fyrir sandfok af Skeiðarársandi er birkigróður að breiðast þar út í kjölfar þess að Skeiðará hvarf vegna hops jökulsins. 

En stór afréttarsvæði á hinum eldvirka hluta landsins eru óbeitarhæf að mati sérfræðinga, en eftir tólf Alþingiskosningar síðan 1974 hefur aldrei myndast nauðsynlegur meirihluti til þess að færa nytjarnar í svipað horf og Fiskistofa hefur varðandi rányrkju á fisktegundum.   

Ómar Ragnarsson, 25.4.2017 kl. 11:33

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þess má geta að með Kárahnjúkavirkjun myndaðist nýtt uppfokssvæði, sem nemur um 35 ferkílómetrum þegar ísa leysir af Hálslóni í júni, en þá er lónið í lægstu stöðu eftir veturinn og allt að 35 ferkílómetrar þaktir milljónum tonna af finum leir og sandi, sem Kringilsá og Jökla bera í það á hverju sumri. 

Þegar veður er þarna hlýjast og bjartast snemmsumars, í suðlægum hnjúkaþey, hverfur svæðið stundum í þykkan leirstórminn, og þar er varla líft. 

Ómar Ragnarsson, 25.4.2017 kl. 11:38

4 identicon

 Myndin í fréttinni er einmitt gott dæmi hversu mikill uppblástur er af náttúrulegum orsökum af landinu. Algjörlega óháð manninum og sauðkindinni að þessu sinni.  

Eins og segir í fréttinni og sést á myndinni þá er þetta uppblástur af Mýrdalssandi og Meðalfellssandi aðalega. Augljóslega er snjór yfir hálendinu svo ekki er þessi sandstormur þaðan þannig að ekki þarf að eyða púðri að þessu sinni í orsakir uppblásturs eða ástand lands þar. 

Það er kannski merkilegast hvar ekki eru sandstrókar á myndinni, t.d. af Rangárvöllum sem sýnir auðvitað árangur uppgræðslu og hlýnandi veðurfars.

Þessi mynd er semsagt mjög óheppileg í þennan síbyljusöng um uppblástur landsins.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 25.4.2017 kl. 12:18

5 identicon

Mér finnst alveg vanta í fréttina hvað þetta er gott fyrir lífið í sjónum. Fínkorna sandurinn fæðir þörunga sem er síðan fæða stærri lífvera og svo koll af kolli. Það skyldi þó ekki vera að við getum þakkað Eyjafjallajökli hversu stór þorskstofninn er í dag frekar en úreltu kvótakerfi!?

Gunnar Þór Gunnarsson (IP-tala skráð) 25.4.2017 kl. 13:59

6 Smámynd: Sveinn R. Pálsson

Ég gæti trúað að þetta sé rétt hjá Gunnari Þór, fiskistofnarnir njóta góðs af þessu foki og einnig af framburði jökulánna.

Sveinn R. Pálsson, 25.4.2017 kl. 21:42

7 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Það er tæpast tilviljun að úti fyrir suðurströnd Íslands, kjósi fiskurinn að hrygna. Varla er það heldur tilviljun að á þessu svæði er fiskur yfirleitt betur haldinn en annars staðar. Sandfok getur haft jákvæð áhrif á lífríkið, alveg eins og askan frá Eyjafjallajökli hefur haft á gróður undir Eyjafjöllum. Það má ekki gleyma aðlögunarhæfni náttúrunnar. Hún sér um sig og hefur ávallt gert, óháð mannanna verkum, eða annara dýrategunda.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 26.4.2017 kl. 02:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband