30.4.2017 | 16:36
Fyrirsjáanlegt að ákvæðið frá 2013 yrði gagnslaust.
1943 og 1944 lofuðu talsmenn stjórnmálaflokkanna því að vegna þess að stjórnarskrá lýðveldisins var í grunninn sú sama og Danir gerðu fyrir konung sinn 1849 yrði loforðið um stjórnarskrá sem Íslendingar gerðu sjálfir fyrir Ísland á Þjóðfundinum 1851, efnt sem allra fyrst.
1949 átaldi Sveinn Björnsson forseti Alþingi fyrir að heykjast á þessu.
Síðan þá hafa margar stjórnarskrárnefndar á vegum Alþingis reynt að efna þetta loforð en öllum mistekist.
Eina heildstæða frumvarpið að stjórnarskrá kom frá stjórnlagaráði 2011, yfirgnæfandi meirihluti samþykkti hana í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 2012, en enn og aftur hefur Alþingi heykst á því að efna loforðin frá 1851 og 1944.
Hugmyndin 2013 um enn eina stjórnarskrárnefndina á vegum flokkanna á Alþingi var andvana fædd í ljósi 73 ára reynslu af getuleysi Alþingis.
Til fróðleiks má geta þess að Framsóknarflokkurinn gerði það að skilyrði fyrir að verja minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur vantrausti, að gerð yrði ný stjórnarskrá.
Og þá áttu þingmenn Sjálfstæðisflokksins hugmyndina að sérstökum þúsund manna þjóðfundi til að undirbúa verkið.
Ákvæðið um þjóðaratkvæði fallið úr gildi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Talsmenn stjórnmálaflokkanna eru ekki og hafa aldrei verið Alþingi. Og Alþingi er ekki bundið af loforðum talsmanna stjórnmálaflokkanna. Loforð sem einhverjir talsmenn stjórnmálaflokka gefa koma því Alþingi ekkert við. Tilraunir einhverra pólitíkusa til að efna loforð forvera sinna eru ekki á ábyrgð Alþingis og Alþingi ekki skuldbundið til að láta loforðin rætast. Niðurstöður ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu eru heldur ekki bindandi fyrir Alþingi og setja engar kvaðir á Alþingi.
Sem betur fer gat Alþingi auðveldlega hundsað klúðurslegan vanskapnað stjórnlagaráðs þrátt fyrir loforð einhverra pólitíkusa og frægðarvonir höfundanna.
Hábeinn (IP-tala skráð) 30.4.2017 kl. 20:38
Þetta voru alþingismenn, Hábeinn, í forystu fyrir þingflokkana. Þetta voru þeir þingmenn sem stóðu að stofnun lýðveldisisins 1944.
Forseti Íslands, sem skammaði þá fyrir svik, hafði orðið sjálfkjörinn 1948 og þingkjörinn 1944.
Ómar Ragnarsson, 1.5.2017 kl. 14:37
Jafnvel alþingismenn í forystu fyrir þingflokka tala ekki fyrir Alþingi og setja því engar kvaðir. Hafi þeir ekki meirihluta til að efna loforð sín þá er það ekkert sem Alþingi ber að laga. Hafi þeir ekki vilja til að efna loforð sín þá er það milli þeirra og kjósenda en kemur Alþingi ekkert við.
Það kemur ekki á óvart að meðlimur hins villuráfandi stjórnlagaráðs skuli halda það rétt og heimta að Alþingi efni loforð sem pólitíkusar gáfu en Alþingi gaf aldrei.
Hábeinn (IP-tala skráð) 1.5.2017 kl. 17:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.