3.5.2017 | 13:46
Fréttatíminn var ágætis blað en nafn Sósíalistaflokksins fælir.
Í vanmegna íslensku fjölmiðlaumhverfi var Fréttatíminn oft ágætis blað, oft með þarfa umfjöllun á mikilvægum sviðum sem aðrir fjölmiðlar vanræktu.
En gjaldþrotið segir allt um það að þetta var samt misheppnuð tilraun fjárhagslega.
Nöfn stjórnmálaflokka segja ekki alltaf allt um stefnu þeirra og störf.
Nafnið Venstre á einum stjórnmálaflokknum í Danmörku hljómar vinstri í eyrum Íslendinga en Venstre er samt hægri flokkur ef eitthvað er.
Framsóknarflokkurinn íslenski hefur barist fyrir stóriðjustefnu síðustu áratugi sem byggist á hugmyndum, sem voru gildar þar til fyrir um hálfri öld þegar þær fór smám saman að verða úreltar og steinrunnar vegna byltingar í tækniefnum og varðandi gildi menntunar fyrir velsæld þjóða.
Að reisa risaálver í Eyjafirði til að "bjarga" Norðurlandi og afneita því að ferðaþjónusta, nýsköpun og frumkvöðlastarf hefðu nokkurt gildi, var hrein afturhaldsstefna.
Nýstofnaður Sósíalistaflokkur er önnur tilraunin undir þessu nafni til að "sameina vinstri menn."
En ef hann ætlar að halda fram sömu stefnu og nafni hans, sem átti beina fulltrúa á Alþingi frá 1937 til 1953 og síðan áfram Alþingismenn úr sínum röðum fram yfir 1970 hefur nafnið eitt fælingarmátt.
Stefna þess flokks, sem birtist í skýlausri vörn fyrir Stalín, Maó og hinn gjaldþrota kommúnisma Sovétríkjanna og annarra kommúnistaríkja, beið skipbrot um víða veröld.
Flokkurinn varð til við samruna Kommúnistaflokksins og vinstri arms Alþýðuflokksins undir forystu Héðins Valdimarssonar 1938, en kommúnistar höfðu tögl og haldir í nýja flokknum og hröktu Héðin úr flokknum fyrir það að Héðinn fordæmdi árás Sovétríkjanna á Finna haustið 1939.
Kommarnir höfðu áfram öll ráð flokksins í hendi sér þar til næsta sameining við hluta Alþýðuflokksins varð 1956 í stofnun kosningabandalags, sem fékk nafnið Alþýðubandalagið.
Þótt Hannibal Valdimarsson fyrrum formaður Alþýðuflokksins, væri í forystu kosningabandalagsins, vörðu kommarnir áfram allt framferði Sovétmanna og annarra kommúnistaríkja fram til 1968, þegar fimm kommúnistaríki réðust inn í Tékkóslóvakíu og kæfðu þar fæðingu "manneskjulegan sósíalisma."
Sum sósíalísk eða félagsleg fyrirbæri eins og ríkisrekstur í mennta- og heilbrigðiskerfi og margs konar þjónustu, hafa reynst vel hér á landi og erlendis.
Hins vegar mistókst sósíalistum þessa tíma alveg að þjóðnýta útgerðarfyrirtækin og þjóðnýta sumar tegundir verslunar, rétt eins og að sumar þjóðnýtingarhugmyndir Verkamannaflokksins í Bretlandi mistókust.
Nú virðist eiga að endurvekja misheppnaðar þjóðnýtingarhugmyndir í nýstofnuðum Sósíalistaflokki og þar með verður það ekki aðeins nafn hins gamla kommaflokks, sem fælir frá flokki, sem ætlar að sameina vinstri menn í "nýju" afli, heldur líka sumar hugmyndir nýja flokksins, sem eru gamlar og langt vinstra megin við þá hugmyndafræði jafnaðarmannaflokkanna á Nörðurlöndum, sem byggir á "blönduðu hagkerfi".
En af öllum gölluðum þjóðfélagskerfum heims er þetta "norræna módel" þó það skásta, sem enn hefur fundist.
Fréttatíminn fer í gjaldþrot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mogginn, en einnig Pressan, ÍNN og aðrir fjölmiðlar Björns Inga aka Binga, sem og Útvarp Saga væru fyrir löngu farin í gjaldþrot, ef ekki væru nær ótakmarkaður stuðningur kleptokratanna á klakanum. Má vera að orð eins og sósíalismi, sósíalisti fæli frá íslenska rednecks, en hver sækist eftir stuðningi nýrasista, cauvinista eða ignorant Heimssýnar kjána? Með öflugustu stjórnmálaflokkum Evrópu í dag eru flokkar sósíalista í Sviss og Þýskalandi.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 3.5.2017 kl. 17:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.