Einföldu og markvissu orðin sem eru að hverfa.

Einföld íslensk orð, sem fela í sér skýra hugsun og stuttar skilgreiningar, eru á undanhaldi en í staðinn eru komin loðnar og oft órökréttar málalengingar. 

Í frétt hér á mbl.is segir að eldflaug Norður-Kóreumanna hafi tekið upp á því að "ferðast", - örðrétt: "...og ferðaðist eldflaugin 500 kílómetra..."  

Á íslenku hafa orð eins og sögnin að ferðast, og nafnorðin ferðafólk, ferðalangar, ferðamenn, ferðalög og ferðaþjónusta haft afmarkaða merkingu, varðandi þá hegðun fólks að "ferðast" með því að fara stað úr stað og yfirleitt á einhvers konar farartækjum. 

Og sá sem ferðast gerir það oftast að eigin frumkvæði. Yfirleitt er um sjálfviljugt athæfi að ræða.

Tunga okkar á hins vegar ágæt orð yfir hreyfingar hluta, svo sem sögnina að fara, fljúga, fljóta, berast. . 

"Eldflaugin fór 500 kílómetra.."  er dæmi um það. 

Í stjörnufræðinni stendur að jörðin fari einn hring í kringum sólu á hverju ári. 

Ekki að jörðin ferðist einn hring í kringum sólu. 

Lýsingarorð eins og "svona", "þannig," "hratt", "hægt", "öðruvísi" eru að lenda í útrýmingarhættu. 

Í staðinn þykir fínna að segja að eitthvað sé með þessum eða hinum hætti eða eitthvað sé gert með þessum eða hinum hætti. 

Dæmi: "Þeir gerðu ferðaáætlun með þeim hætti að þeir gætu ferðast með þeim hætti að ferðalagið tæki sem skemmstan tíma." 

Í staðinn að segja til dæmis: 

"Áætlun þeirra miðaði að sem skemmstum ferðatíma." 

Annað dæmi:

"Það á að gera þetta með þeim hætti að það sé betra."

I stað þess að segja: 

"Það á að gera þetta betur."

Sagnirnar að fjölga, vaxa, minnka, virðast vera alltof ómerkilegar til þess að það þyki nógu fínt að nota þær.

 

Í staðinn er í anda nafnorðasýkinnar stagast á orðinu "aukning".

Í stæð þess að segja einfaldlega:

"Ferðamönnum fjölgaði..."

er notuð næstum tvöfalt lengi orðalenging:

"Aukning var á fjölda ferðamanna..." 

Og orðið "mun" á undir högg að sækja. 

Einn af annars ágætum veðurfræðingum í sjónvarpi afrekaði það nýlega að segja sjö sinnum í röð

"kemur til með að.."

í stað þess að segja

"mun" 

eða einfaldlega að nota ekkert óþarft aukaorð.

Dæmi:

"Á sunnudag fer lægðin yfir landið, dýpkar og veldur stormi." 18 atkvæði. 

En í staðinn er sagt:

"Á sunnudag kemur lægðin til með að fara yfir landið og kemur til með að dýpka og kemur til með að valda stormi."  35 atkvæði.

Með tímatöku mátti finna út að veðurpistillinn varð samtals tíu sekúndum lengri en ella með þessum óþörfu málalengingunum.  

 


mbl.is „Vel heppnað“ eldflaugaskot staðfest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það væri gaman að kunna Grænlensku. Þeir eiga víst hundruð orða yfir snjó. Og þar er ábyggilega einhver Grænlenskur Ómar sem bloggar um hvert sé hið eina rétta.

Hábeinn (IP-tala skráð) 22.5.2017 kl. 12:10

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er einmitt að halda fram fjölbreytni og rökvísi íslenskrar tungu í stað þeirrar orðfæðar og órökvísi sem sækir á. 

Ómar Ragnarsson, 22.5.2017 kl. 12:27

3 identicon

'Ferðaðist' er líklegast bein þýðing, því miður, úr enskunni 'traveled.'

Alison (IP-tala skráð) 22.5.2017 kl. 12:31

4 identicon

Vel mælt Ómar og hárrétt.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 22.5.2017 kl. 12:33

5 identicon

Fyrst þú nefndir veðurfræðinga í sjónvarpi þá er orðaþurrðin þar alveg einstök. Núorðið er vindhraða aðeins lýst á þrjá vegu það er: Frekar lítill vindur - strekkingur - stormur.

Sérstaklega fer þessi "strekkingur" í öllum landshlutum allan ársins hring í taugarnar á mér. Þegar það er til miklu betra orð þ.e. stinningskaldi.

Mörgum góðum orðum hefur algjörlega verið slátrað svo sem andvari, gola, stinningsgola, kaldi, allhvass vindur, hvassviðri og stormur. En lengra held ég ekki því nú hefjast epískar orðalýsingar sem myndu slá út gríska harmleiki. Stormur er reyndar eina orðið sem er rétt notað í sjónvarpi.

Þorsteinn Styrmir Jónsson (IP-tala skráð) 22.5.2017 kl. 22:19

6 identicon

Góðar athugasemdir.  Við þurfum að gæta íslenskunar.

Til að leiðrétta misskilning, þá hafa Grænlendingar ekki hundruð orða yfir snjó.  Hið rétta er að þeir eiga mun færri orð yfir snjó en Íslendingar, eða rétt um tíu.  Þessi misskilningur byrjaði, á sínum tíma, hjá erlendum fræðimanni og tóku aðrir það upp eftir honum og juku við töluna.

Jóhannes (IP-tala skráð) 23.5.2017 kl. 03:17

7 identicon

"Það á að gera þetta betur." Þetta skal bætt. Mörgum þykir orðið "það" fletja texta.

Reynir (IP-tala skráð) 23.5.2017 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband