24.5.2017 | 14:09
Lítil misvísandi dæmi: Ákvæði um rafknúin reiðhjól og 125cc hjól.
Augljósir kostir fylgja því í flóknu nútímasamfélagi að samræma sem flesta hluti og byggja á bestu fáanlegri kunnáttu og reynslu.
"Reglugerðafargan" ESB er dæmi um slíkt með kostum og göllum, en raunar er ESB ekki eitt um slíkt, heldur er svipað risavaxið fyrirbæri líka til í Bandaríkjunum.
Stundum eru ákvæðin illskiljanleg. Sem dæmi voru ég og margir aðrir flugvélaeigendur afar óheppnir fyrir nokkrum árum að eiga bandarískar flugvélar skráðar í Evrópu og lenda í tvöföldu reglugerðafargani BNA og ESB, sem olli því að flugvélin TF-FRÚ mun ekki fljúga framar á meðan eigandinn ræður engan veginn fjárhagslega við að reka hana og fullnægja reglugerðafarganinu.
Þegar rafknúnu reiðhjóli skolaði á fjörur mínar fyrir þremur árum komst ég að því að til þess að leyfilegt væri að skrá það ekki né tryggja, mátti það samkvæmt evrópskum reglum ekki vera með meira en 250 vatta rafmótor, ekki komast hraðar en 25 kílómetra á klukkustund og ekki vera með handknúinni aflgjöf, heldur einungis tengingu við fótaafl.
Hins vegar mega rafknúin "vespuhjól" vera með 350 vatta mótor og með handknúinni aflgjöf.
Þetta er skrýtið hvað handgjöfina snertir, því að vespuhjólin eru tvöfalt til þrefalt þyngri en rafreiðhjólin.
Í Bandaríkjunum er hins vegar að sjálfsögðu leyfilegt að hafa handgjöf á rafreiðhjólum auk tengingar við fótaafl, pedala (pedelec), og hámarkshraðinn þar fyrir eigin vélarafli er 32 km/klst, sem er miklu þægilegri hraði en 25 km hraði inni í hverfum með 30 km/klst hámarkshraða.
Þegar ég kannaði lauslega reglur í mismunandi Evrópulöndum kom í ljós að í nokkrum þeirra voru reglurnar öðruvísi en samkvæmt ESB-reglugerðinni.
Öfugt dæmi er hins vegar varðandi létta 125cc vespuvélhjólið, sem ég fékk mér til þess að geta notað hvar sem væri á landinu á fullum þjóðvegahraða.
Í öðrum Evrópulöndum eru þessi hjól stundum kölluð "æfingahjól," því að þar er leyfilegt að 16 ára unglingar fái að aka þeim án þess að taka fullt vélhjólapróf.
Ástæðan er einföld: 125 cc takmarkið veldur því að hjólin verða ekki nema í mesta lagi 100-130 kíló að þyngd og ná ekki meira en 100 kílómetra hraða á klukkustund.
Það er grundvallarmunur á slíkum hjólum og vélhjólum af fullri stærð sem geta orðið allt að rúmlega 400 kíló á þyngd og búin allt að 326 hestafla hreyflum!
Eftir reynsluna af því að nota svona hjól nær daglega og hverja einustu viku ársins, og hafa hjólað alls 6700 kílómetra á 10 mánuðum um allt land, skil ég ekki ástæðuna fyrir því að hafa reglurnar öðruvísi hér en í nágrannalöndunum.
Fyrir ungling, sem hefur verið í tvö ár á um það bil 75 kílóa 50cc léttu vespuhjóli með hámarkshraðann 25 km/klst er lítið mál að fara á 125cc hjól þegar hann er orðinn 16 ára.
Og slíkt hjól er líka ágætt millistig og undirbúningur yfir í að fara síðar á stærra hjól ef svo ber undir, - unglingurinn er betur settur en ef stokkið er í einu stökki úr 50 cc hjóli upp í fullvaxið hjól.
Víða má finna svæði erlendis með meiri umferð, rigningu og vetrarkulda en hér er og þess vegna er illskiljanlegt af hverju okkar reglur eru svona.
Neita að innleiða tilskipun ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
og þessar eu-reglugerðir geta verið svo pirrandi, (er það útaf framsetningu í fjölmiðlum, eða vegna skort á gegnsæi og lyðræði...)
enn með umferðareglur, það er soldið fyndið, þegar ég bjó í litlu landi í evropu, gilti fyrir bílaumferð hámarkshraði 60km/h innan bygðar og 90km/h í sveit. svo þegar komið var yfir landamæri (Mosel á), þá heitir það 50km/h innan bygðar og 100km/h í sveit.
með reiðhjól þarf maður að passa sig, sumstaðar eru hjól álitin leikföng og þarmeð bönnuð í allmennri umferð, annarstaðar eru hjól talin lögformleg faratæki, og þá gilda sömu umferðareglur og fyrir bíla, og það bókstaflega, t.d. -hægri umferð, -stop á rauðu ljósi, -ekki hjóla á gangstétt, -ekki beygja inn einstefnugötu, annars verður maður að fara fótgangandi og teyma hjólið eins og hest í beysli. (ásamt sektar miða f/ umferðalagabrot).
ég veit (IP-tala skráð) 24.5.2017 kl. 23:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.