26.5.2017 | 23:59
Eitt af vanhæfisheilkennunum, að vera verstur þeim, sem er unnað mest.
Hér á landi hefur lengi ríkt skilningsleysi á hugtakinu vanhæfi. Það er sérstaklega bagalegt vegna þess hve þjóðfélagið er smátt og nálægðin mikil á milli fólks.
Og hagsmunirnir af því að mistúlka eðli vanhæfis eru líka óvenju algengir.
Fjármála- og efnahagsráðherra lýsti þessu einkar vel í ræðu, sem hann fluti, sem formaður Hollvinafélags M.R. við útskrift úr M.R. í dag.
Skólinn hefur verið sveltur langtímum saman á síðustu áratugum og ein orsökin gæti verið sú, að fjármála- og menntamálaráðherrarnir hafa verið of tengdir skólanum frá fyrri tíð og þess vegna talið sig knúna til að láta skólann frekar gjalda tengslanna en njóta, svo að ekki væri hægt að saka þá um hlutdrægni.
Það nægir til að vanhæfni teljist ríkja, að tengslin séu nógu sterk. En þetta hefur skort mjög á að sé viðurkennt hér á landi, heldur haldið á lofti þeim skilningi, að því aðeins hafi vanhæfi verið við lýði, ef greinilega hefur verið misfarið með völd.
Af því leiðir til dæmis að í málum svonefndra "hrægamma", kröfuhafanna í þrotabú föllnu bankanna, var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vanhæfur sem eiginmaður eins af kröfuhöfunum til að hafa afskipti af málum kröfuhafanna.
Fylgismenn hans bentu á að SDG hefði einmitt sótt allra manna harðast að kröfuhöfunum í orði og á borði, en samkvæmt eðlis máls í löggjöf í vanhæfi, skiptir það ekki máli, heldur jafnvel þvert á móti eins og Benedikt Jóhannesson bendir á.
Lög um vanhæfi eiga einmitt að koma í veg fyrir að slíkt ástand myndist og það var líklega ekki að ástæðulausu sem SDG streittist við það lengur en stætt var á þvi, að leyna tengslum sínum og þræta fyrir þau.
Benedikt hættir sem formaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
31.3.2016:
"Eiríkur Elís Þorláksson lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík segir það ekki breyta neinu varðandi meint vanhæfi þó ráðherrann hafi unnið gegn hagsmunum konu sinnar."
"Þá skipti það heldur ekki máli að umræddar eignir séu séreign eiginkonunnar, vanhæfið, sé það til staðar, sé hið sama, enda sé hún það tengd honum að vanhæfisreglur eigi við um hann sem ráðherra."
"Eiríkur Elís segir að umræðan um málið hvað varði vanhæfið hafi verið á verulegum villigötum.
Þannig hafi aðstæður verið bornar saman við það að allir alþingismenn hefðu þá verið vanhæfir í sumum málum tengdum hruninu, til dæmis þegar ákveðið var að gera innistæður í bönkum að forgangskröfum.
Þessu sé gjörólíku saman að jafna við mál forsætisráðherra. Hæfisreglur varðandi alþingismenn séu af allt öðrum toga.
Þannig verði alþingismenn aðeins vanhæfir í málum þar sem um er að ræða fjárveitingar til þeirra sjálfra."
"Eiríkur Elís bendir á að forsætisráðherra væri því ekki vanhæfur til að fjalla um málið sem alþingismaður.
Hins vegar hafi hann gert það sem forsætisráðherra og þar gildi hæfisreglur stjórnsýslunnar sem séu miklu strangari en hæfisreglur alþingismanna og svipi hæfisreglum sem gildi um ráðherra raunar til hæfisreglna dómara."
"Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra eru hjón samsköttuð óháð því hvort annað hjónanna á eignir en hitt ekki. Þau séu sameiginlega ábyrg gagnvart skattayfirvöldum."
Hæfi ræðst ekki af vinnu gegn kröfuhöfum - Eiríkur Elís Þorláksson lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík
Þorsteinn Briem, 27.5.2017 kl. 00:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.