18.6.2017 | 20:38
Svipað fyrirbæri og við Geirangursfjörð í Noregi?
Tsunami er alþjóðlegt heiti á því fyrirbæri þegar eldsumbrot í sjó eða stór jarðskjálfti hrindir af stað flóðbylgju sem getur orðið tugir metra á hæð og valdið ofboðslegu tjóni þegar hún gengur á land. Slíkar flóðbylgjur hafa fallið á síðustu árum, bæði í Suðaustur-Asíu og Japan, og stór flóðbylgja var afleiðing af risagosinu í Krakatá 1883.
En síðan eru líka til örlítið öðruvísi flóðbylgjur sem stafa af berghlaupi, því að fjöll springa í sjó fram vegna innri gliðnunar eða að risastórar skriður falla í hlíðum þeirra fram í sjó.
Rúmlega fjögurra stiga jarðskjálfti á varla einn og sér getað valdið stórri flóðbyglju, svo að leita verður annarrar skýringar á flóðbylgjunni í Grænlandi, sem olli mannskaða.
Þá leitar hugurinn til hins ofurfagra Geirangursfjarðar í Noregi, þar sem hætta vofir yfir vegna fjalls við utanverðan fjörðinn, sem er klofið af jarðsprungu, sem gæti opnast með þeim afleiðingum að hrikalegt berghlaup gæti skapað meira en hundrað metra hárri flóðbylgju sem myndi drekkja mestallri byggð við fjörðinn.
Myndin sýnir botn fjarðarins, sen þegar bylgjan kæmi þar inn, myndi hún verða hærri en ella við að lokast inni í fjarðarbotninum.
Hugsanlegasta skýringin á grænlensku flóðbylgjunni er því að jarðskjálfti hafi framkallað berghlaup eða jafnvel hið gagnstæða, sem þó er mun ósennilegra, að berghlaup hafi valdið jarðskjálftanum.
Rannsaka hvers vegna flóðbylgja skall á þorpinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.