2.7.2017 | 19:20
Ævintýraleg aukning hefur orðið á tíðni notkunar orðsins aukning..."
Orðið aukning er ágætis orð í sjálfu sér, en þó ekki svo dýrlegt að það sé ofnotað í þvílíkum mæli að það líkist faraldri.
Orðið er nafnorð og er eitt þeirra nafnorða, sem oftast er notað til að ryðja burtu eðlilegu, skýru, þjálu og einföldu orðalagi.
Í fréttum eins fjölmiðilsins núna rétt áðan hljómaði upphaf fyrstu fréttar svona:
"Ævintýraleg aukning hefur orðið í fjölda komu ferðamanna til landsins..."
í stað þess að segja einfaldlega:
"ferðamönnum hefur fjölgað ævintýralega..." -
fjögur orð í stað tíu.
"...í fjölda komu ferðamanna" er alveg einstaklega stirt orðalag og ekki aðeins það, heldur ruglingslegt að nota "komu" í eintölu um marga ferðamenn.
En í miskunnarlausri ásókn orðsins aukning og nafnorðasýkinnar, talar og skrifar margt fjölmiðlafólk sig inn í vandræðagang og langar málalengingar.
Nafnorðin vöxtur, minnkun, fækkun, fjölgun og sagnorðin að vaxa, minnka, fækka og fjölga verða fyrir barðinu á því sem nú yrði orðað svona:
"Ævintýraleg aukning hefur orðið á tíðni notkunar orðsins aukning..."
Yfirleitt vandar fjölmiðlafólk vel til upphafsorða frétta, þannig það er erfitt að útskýra þetta öðru vísi en svo, að þetta sé eitt af einkennum hnignunar í málnotkun fjölmðlafólks, sem líkist oft faraldri.
P. S.
Og nú rétt áðan heyrði ég sagt á hinni stöðinni að það hefði orðið "aukning í fjölda..." eða jafnvel "...aukning í fjölgun.."
Bókanir undir væntingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.