Trump: Tvöföld virkjun fjölmiðla. Innrás í "helstið".

Síðustu tveir Bandaríkjaforsetar komust meðal annars til valda með því að nýta sér nýtt umhverfi fjölmiðlunar og samfélagsmiðla. 

Fjármögununin og útbreiðslan í kosningabaráttu Baracks Obama 2008 byggðist meðal annars á því að nýta sér nýja samskiptafarvegi til fjáröflunar og boðunar stefnu hans, en þegar kosningabarátta Donalds Trump er skoðuð, sést, að möguleikarnir sem tíst og facebook-færslur bjuggu yfir voru enn ekki nýttir í þeim mæli sem þar var hægt að láta að sér kveða. 

Trump sótti hins vegar fram á svo magnaðan hátt á þessum vettvang í kosningabaráttunni 2016, að það verður líklega síðar talið til einnar af helstu breytingum okkar tíma á sviði samskipta og þjóðfélagsumræðu. 

Þetta var tvöföld virkjun möguleikanna í fjölmiðlaheiminum:  

Annars vegar að gera persónulegt tíst forsetans að áhrifamiklum fjölmiðli út af fyrir sig undir altækri ritstjórn hans sjálfs. 

Þar réði hann einn, en ekki einhverjir ritstjórnarfundir, hvað þótti merkast og hvað ætti að vera á oddinum á hverjum tíma

Það varð að skyldu allra annarra fjölmiðla, ef þeir ætluðu að fylgjast með og verða ekki síðastir með fréttirnar, að vaka yfir því sem Trump sagði.

Trump nýtti sér til hins ítrasta það eðli frétta, sem felst í orðinu "news", þ. e. það sem er nýtt og nýjast, og ekki síður að ummæli hans vektu athygli fyrir það að vera óvenjuleg.

Til þess að frétt sé sem stærst og "seljist" sem best í samkeppnisheimi fjölmiðla, er mikils virði að hún birti ekki aðeins það stærsta sem er í fréttum, heldur ekki síður það nýjasta og óvenjulegasta.

Á öllum fjölmiðlum er í gildi fréttamat sem felst í orðinu "helst".

Orðið "helst" er meira að segja orðið að nafnorði í hvorugkyni.

Það er talað um "helstið", hvernig helstu fréttum er raðað upp. Hugtakið snýst um forgangsröðun frétta. 

Helstið er afar ráðandi atriði, svo mikilvægt, að lýsa má því í setningunni "fyrsta frétt er alltaf fyrsta frétt."

Sem getur verið hættulegt, því að hættan er sú að hin svonefnda fyrsta frétt fari út á ljósvakann án nægilegrar rannsóknar, - bara til þess að hún sé fyrsta frétt en ekki önnur frétt, þriðja eða fjórða.

Þetta nýtti Trump til hins ítrasta, og lét sér í léttu rúmi liggja þótt oft væri farið yfir strikið.

Rannsókn á kosningabaráttunni vestra sýndi, að Trump nældi sér í meira en 60 prósent af allri umfjölluninni um baráttu hans og Hillary Clinton, og hann hafði yfirburði í því að komast inn í helstið og fyrstu fréttina.

Þetta varð að hans kosningabaráttu, ekki hennar. 

Aðferðin var einföld: Nógu mikil iðni við kolanna, en ekki síður að leggja höfuðáhersluna á að segja eitthvað eins rosalegt og svakalegt og hægt færi.

Afbrigði af gamla orðtakinu að slæm auglýsing sé betri en engin.

Einnig afbrigði af því að sá sem ræður vettvangnum og hefur stjórn á atburðarásinni sé kominn í vinningsstöðu. 

Trump tókst að "spila sinn leik" og láta kosningabaráttuna litast af því.

Fjölmiðlun verður ekki söm eftir þetta, og það mun taka blaðamannastéttina mörg ár að bregðast við því breytta umhverfi, sem nútíma samfélagsmiðlun hefur innleitt.  


mbl.is Twitter-skrifin í takt við nútímann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband