"Túrbínutrixið" í endurnýjun lífdaga á upprunaslóðum.

"Túrbínutrixið" frá dögum Laxárdeilunnar í kringum 1970 byggðist á því að ákveða einhliða einhver hrikalegustu umhverfisspjöll Íslandssögunnar og keyra málið svo langt, að menn stæðu frammi fyrir gerðum hlut, jafnvel þótt framkvæmdir væru ekki hafnar við að sökkva Laxárdal og leiða Skjálfandafljót norðaustur í Kráká þaðan sem það myndi flæða um suðurenda Mývatns niður í Laxá. 

Kjarninn var að kaupa strax svo risavaxnar túrbínur í hina nýju stóru Laxárvirkjun að ekki yrði aftur snúið.  Þótt eftir væri að semja við landeigendur og ganga frá flestum hnútum vegna virkjanaáformanna, myndu jarðir verða teknar eignarnámi eftir geðþótta virkjanafrömuðanna. 

Þeim, sem þetta gerðu var viss vorkunn miðað við hina skefjalausu stóriðjustefnu nútímans. Raforka Laxárvirkjunar nægði vart lengur fyrir vaxandi orkuþörf á Akureyri fyrir heimili og fyrirtæki þar, og vegna ístruflana á veturna var oft rafmagnslaust dögum saman. 

Andófsmenn gegn hinum hrikalegu fyrirætlunum sneru hins vegar dæminu við, þegar saka átti þá um að hafa valdi stórtjóni ef menn sætu uppi með gagnslausar túrbínur. 

Sigurðr Gizurarson verjandi þeirra sýndi fram á að það væru túrbínukaupendurnir sjálfir, sem hefðu með óbilgirni sinni og siðleysi skapað það ástand sem ríkti. 

Nú hefur túrbínutrixið verið notað rækilega við smíði nýs stórs hótel skammt frá bökkum Mývatns. 

Vegna klúðurs við það að meta áhrif þessara framkvæmda var drifið í að reisa hótelið, þannig að menn stæðu frammi fyrir gerðum hlut. 

Framkvæmastjóri Íslandshótela hælist um sigurreifur sem von er, því að hann stefnir að því að láta nýja túrbínutrixið svínvirka. 

Og það á réttum stað, við vatnið og vatnasviðið sem menn vildu verja og vernda 1970, en þurfti dínamit til. 

Eftir þrjú ár verður hálf öld síðan umhverfis- og náttúruverndarfólk á þessum slóðum vann frækilegan sigur. 

Þess vegna er það dapurlegt hvernig öllum brögðum er beitt á mörgum stöðum við hið dýrmæta stöðuvatn til að fara eins greypilega á svig við allar varúðarreglur og hugsanlegt er.   


mbl.is Reksturinn ekki í uppnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni G. P. Hjarðar

er hótelið ekki tryggt upp í topp?

Bjarni G. P. Hjarðar, 6.7.2017 kl. 23:40

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Aðalatriðið er að því virðist fara fjarri að Mývatn njóti þeirrar tryggingar sem því ber. 

Ómar Ragnarsson, 6.7.2017 kl. 23:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband