14.7.2017 | 06:08
Furðulega fjölbreytt veður á hjólaferðalagi í gær.
Á hringferð um Vestfirði, leiðinni frá Hólmavík til Ísafjarðar og síðar í suður frá Ísafirði í gær var veðrið aldeilis furðulega misjafnt.
Kannski verður maður meira var við þetta á vélhjóli en á bíl, en í Ísafjarðardjúpi voru margar tegundir af veðri og blés úr tveimur ólíkum áttum, annars vegar á sunnan en hins vegar lagði hafgolu inn firðina.
Og ýmist rigndi eða að sólin skein í heiði.
Svona hélt þetta áfram alla leiðina, bjart á Ísafirði, rigning í Önundarfirði, þurrt í Dýrafirði en þokusuddi Arnarfjarðarmegin á leiðinni yfir Hrafnseyrarheiði.
Það var rigning og blindþoka á Dynjandisheiði, en stafalogn, sléttur sjór og flugur í loftinu í Vatnsfirði.
Á Hjallahálsi var síðan slydduhraglandi sem kom úr suðvestri en frá Gilsfirði var þveröfug vindátt, norðaustan.
Ennþá virðist þetta sumar ekki ætla að verða mjög ferðamannavænt. Gæti það bæst ofan á hækkun krónunnar sem vandi fyrir ferðaþjónustuna.
Þrumuveður og haglél í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Erlendir ferðamenn á Íslandi skæla sig nú yfirleitt ekki í svefn eins og Mörlendingar vegna fjölbreytts veðurfars.
Hér í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands, rigndi svo mikið á nokkrum mínútum síðdegis í gær að gatan sem ég bý við breyttist í fljót og stúlka dansaði þar berfætt í rigningunni.
En klukkutíma síðar var gatan aftur orðin þurr.
Í mikilli rigningu er tíminn hér í flestum tilfellum notaður vel til þvotta og uppáferða en ekki til að skæla úr sér augun.
Þorsteinn Briem, 14.7.2017 kl. 10:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.