4.9.2017 | 08:31
Tvennt nýtt og afar hættulegt í stöðunni.
Allar götur frá 1951, þegar Harry S. Truman þáverandi Bandaríkjaforseti rak Douglas MacArthur stríðshetju sína úr embætti yfirhershöfðingja liðs Sameinuðu þjóðanna í Kóreustríðinu, hefur það verið yfirlýst stefna Bandaríkjanna að beita aldrei kjarnorkuvopnum að fyrra bragði.
MacArthur hafði ýjað að því að vegna íhlutunar Kínverja í stríðið kynni að verða nauðsynlegt að grípa til kjarnorkuvopna, en Truman sá, að slíkt gæti hleypt stöðunni upp í það horf að úr yrði allsherjar kjarnorkustríð við Rússa.
Þegar her Sþ rak Norður-Kóreumenn út úr Suður-Kóreu og sótti fram allt til Yalufljóts, gerðu Kínverjar það öllum ljóst, að þeir myndu ekki líða að valdajafnvæginu á Kóreuskaga yrði raskað frá því sem verið hafði fyrir 1950 og sendu hundruð þúsunda kínverskra "sjálfboðaliða" inn í Norður-Kóreu til þess að reka Bandaríkjamenn út úr Norður-Kóreu.
Kínverjar eru miklu öflugri þjóð á alla lund nú en 1951 og hættan er því sú, að þeir muni gera svipað og 1951 ef Vesturveldin ætli að steypa stjórnendum Norður-Kóreu með hervaldi.
Stórhættulegt hernaðarbrölt Norður-Kóreumanna gerir hins vegar hættuna á allsherjarstríði með hræðilegum afleiðingum meiri en nokkru sinni síðan 1951.
Donald Trump er fyrsti Bandaríkjaforsetinn síðan 1945 sem útilokar ekki beitingu kjarnorkuvopna af fyrra bragði og víkur þar með frá stefnu allra Bandaríkjaforseta síðan 1951.
En það þarf tvo til, og leiðtogar Norður-Kóreu bera að sjálfsögðu höfuðábyrgð á því hvernig komið er með því að grípa til æ meira ögrandi vopnaskaks og vígbúnaðaraðgerða með beinum hótunum um að beita kjarnorkuvopnum af fyrra bragði.
Báðir höfuðaðilar réttlæta hina nýju og stórhættulegu stöðu með því að þeir séu að tryggja öryggishagsmuni sína, en staðan er hins vegar orðin mesta ógn við svona öryggishagsmuni, sem orðið hefur síðan svipað tal helstu ráðamanna stórvelda heims leiddi til upphafs Fyrri heimsstyrjaldarinnar.
Tilbúinn að beita kjarnavopnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.