8.9.2017 | 10:45
Svartur húmor: Ákveðin hagræðing í því að eiga stutt eftir.
Ýmsar staðreyndir varðandi líf og dauða geta oröið jarðvegur fyrir svonefndan svartan húmor.
Dæmi um slíkt eru ýmis atriði, sem hafa komið fram þegar ég hef með aðstoð vinar míns verið að kynna mér ýmis lögmál, sem varða réttindi aldraðra.
Eitt af því merkilegra, sem komið hefur upp, er hve mikil "hagræðing" geti verið fólgin í því að fólk sé sem allra elst þegar það þarf að sækja réttindi sín.
Til dæmis það, að eftir því sem aldraður er látinn bíða lengur eftir plássi eða aðgerð, aukast líkurnar á því að hann drepist á biðlistanum, og við það myndast sú hagræðing, að eftirlifandi á biðlistanum færast framar um eitt sæti, og að hinn nýdauði aldraði varð aldrei sú "byrði" á þjóðfélaginu með því að vera lifandi, að ég nú ekki tali um ef hann var flestum í kringum hann eða hana til yndisauka.
Það er nefnilega til gamalt fólk, eins og hún móðuramma mín var, sem var hrókur alls fagnaðar vel fram á tíræðisaldur.
Annað merkilegt atriði, en auðskiljanlegt, er línurit sem sýnir rétt fólks til slysabóta.
Línuritið sýnir, að slysabæturnar fara ekki bara eftir örorkustigi, heldur að langmestu leyti eftir því hvað viðkomandi er gamall þegar slysið á sér stað.
Fyrningarfrestur vegna slysabóta ku vera fjögur ár, þannig að ef málareksturinn vegna slyssins tekur meiri tíma en fjögur ár, eru bótagreiðendur lausir allra mála.
Sem þýðir það að sá möguleiki er fyrir hendi að það myndi borga sig að draga að greiða bæturnar í fjögur ár í þeirri von að bótaþeginn drepist áður en sá tími er liðinn.
Auðvitað tíðkast ekki að nýta sér þennan möguleika en möguleikinn er fræðilega fyrir hendi.
Og varðandi hrakvirðisflokkinn felur stórslasaður maður aldraður maður að þessu leyti í sér hagræði fjarhagslega fyrir þjóðfélagið, jafnvel þótt hann hafi ekki átt neina sök á slysinu.
Ef hann hefði verið talsvert yngri hefði slysið orðið dýrara.
Þegar býsnast er yfir því hve aldraðir séu mikil byrði á þjóðfélaginu vegna þess að það þurfi að borga þeim til baka drjúgan hluta af því fé sem þeir lögðu fyrir fyrr á ævinni í lífeyrissjóð í góðri trú um að það væri eign þeirra, geymd á góðum stað, er huggun fyrir "byrðina" að geta bent á að það felst hagræði í því að vera hæfilega langt komnir á biðlistanum eða slasast seint á ævinni.
Ofnagreindur fróðleikur kann að sýnast kaldsranalegur og óviðeigandi en svona eru nú ýmsar hliðar hins stutta og stopula jarðlífs mannsins,sem stefnir á hærri leiðir eins og skáldið sagði.
99 ára fékk nei við plássi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góður Ómar. Áhugaverð "gerontology."
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.9.2017 kl. 11:42
Þegar föðuramma mín á Baldursgötunni fékk krabbamein flutti ég til hennar rúmlega tvítugur.
En nú hringja menn í Moggann til að skæla úr sér augun yfir því að 99 ára gömul kona fái ekki strax pláss á hjúkrunarheimili.
Það á sem sagt að henda einhverjum öðrum út af hjúkrunarheimilinu í staðinn fyrir þessa konu sem allir sjá að á væntanlega nokkra mánuði eftir ólifaða og þarf ekki svartan húmor til.
Hún fær væntanlega heimahjúkrun þar til hún fer á Landspítalann til að liggja banaleguna eftir nokkra mánuði.
Þorsteinn Briem, 8.9.2017 kl. 12:05
"Félagsleg heimaþjónusta og heimahjúkrun er fyrir alla aldurshópa.
Heimahjúkrun er hjúkrunarþjónusta sem veitt er í heimahúsum, að undangengnu mati, og er ætluð fyrir fólk sem búsett er í Reykjavík og á Seltjarnarnesi.
Markmið heimahjúkrunar er að veita einstaklingshæfða og markvissa hjúkrun.
Heimahjúkrun er veitt án endurgjalds."
Þjónustan heim - Heimahjúkrun
Þorsteinn Briem, 8.9.2017 kl. 12:18
Þetta dæmi sýnir að fjölskyldur aldraða eiga ekki að aðstoða eldriborgara þessa lands! Gamla fólkið okkar á það inni hjá okkur að því sé þjónað, þetta fólk þrælaði sér út til að okkar líf yrði betra!
Helgi Þór Gunnarsson, 8.9.2017 kl. 12:35
Móðurafi minn varð 100 ára gamall og þreif alla tíð sjálfur íbúðina og sameignina í Breiðholtsblokkinni sem hann bjó í síðustu áratugina.
Hann fór aldrei á sjúkrahús fyrr en hann lá banaleguna en nú heimtar fólk alls kyns þjónustu frá ríkinu og sveitarfélögunum og finnst hún sjálfsögð en vælir svo undan sköttunum.
Þorsteinn Briem, 8.9.2017 kl. 12:44
"Reykjavíkurborg á og rekur tvö hjúkrunarheimili, Droplaugarstaði og Seljahlíð."
Þorsteinn Briem, 8.9.2017 kl. 12:51
Fólk á að hafa val,og auðvita er það hagkvæmt fyrir kerfið að fólk sé sem mest heima, en þegar fólk þarf þjónustu þá á kerfið að taka við öldruðum!
Helgi Þór Gunnarsson, 8.9.2017 kl. 12:55
Sæll Ómar.
Það er ein missögn eða misskilningur sem kemur þarna fram
varðandi lífeyrissjóðina og er gegnumgangandi jafnt hjá
stjórnmálmönnum sem öðrum.
Lífeyrissjóði er meira og minna stolið af þeim sem í hann
hafa greitt frá tvítugsaldri.
Til þess að fullorðinn einstaklingur (aldraður) geti orðið
"byrði" á samfélaginu þá þyrfti hann, einn og sami
einstaklingurinn, að lifa það að verða 10 sinnum tíræður!
Í 11. skipti og ekki fyrr er þessi mikla "byrði" til staðar!!
Ég sleppi því að tala um þá sem aldrei hafa greitt
í lífeyrissjóð en uppskera ósjaldan að minnsta kosti jafnmikið
eða meira en þeir sem alla tíð hafa greitt í slíkan sjóð.
Húsari. (IP-tala skráð) 8.9.2017 kl. 15:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.