10.9.2017 | 15:51
Á undan samtíð sinni. Merkar rannsóknir á endingu háhitavæða.
Nafn Braga Árnasonar er þekkt víða um lönd þótt ekki hafi verið oft minnst á hann hinn síðari ár hér heima.
Nú er hann allur en skilur eftir sig merka sögu um mann, sem var á undan samtíð sinni.
Bragi var í fararbroddi þeirra, sem sá möguleikana á að nota vetni sem orkubera eins og alþjóðlegar og innlendar viðurkenningar bera með sér.
Í þeim sveiflum, sem leikið hafa um vísindaheiminn í þessum efnum, hefur trúin á vetnið reynst misjöfn.
Á tímabili, fyrir nokkrum árum, virtust aðrir möguleikar, svo sem rafbílar og metanknúnir bílar eiga meira gengi að fagna, en Toyota verksmiðjurnar misstu þó aldrei sjónar af möguleikum vetnisins.
Nú eru þeir að vænkast á ný, einum vegna mikillar drægni, og fleiri að koma inn í, en hátt verð á vetnisbílum er þó enn dragbítur.
En Bragi hefur gert fleira. Hann fór á eigin spýtur upp á virkjanasvæðið Nesjavellir-Hellisheiði og stundaði þar afar mikilvægar mælingar á endingu háhitasvæða.
Á þeim tíma hafði ég samband við hann og innti eftir því hvernig gengi, en hann var afar varkár og sagði, að mun meiri rannsóknir þyrfti.
Loks féllst hann þó á að upplýsa þá fyrstu bráðabirgðaniðurstöðu að orka svæðisins myndi endast í 50 ár, en síðan myndi þurfa 100 ár til að jafna sig og ná upp fyrri orku.
Ef þetta er nærri lagi, er það griðarlega mikilvægt fyrir nýtingu háhitasvæðanna, því að það sýnir í grófum dráttum, að ef menn ætla að standa við stór orð um endurnýjanlega orku og sjálfbæra þróun, þarf að taka upp alveg ný vinnubrögð í þessum efnum þar sem horft er yfir landið allt.
Í útvarpsviðtali við Ara Trausta Guðmundsson spáði Bragi því að bein nýting sólarorkunnar yrði framtíðarlausnin í orkuvandamálum jarðarbúa.
Verði sú raunin reynist Bragi enn og aftur á undan samtíð sinni.
Andlát: Bragi Árnason | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
19.3.2012:
"Stefán Arnórsson, prófessor við jarðfræðideild Háskóla Íslands, segir fullyrðingar sem stjórnmálamenn vilji gjarnan ýta undir um að jarðvarmi sé endurnýjanleg auðlind ekki standast og í raun sé rennt blint í sjóinn með stærð sumra svæða sem til standi að nýta, svo sem á Hellisheiði."
"Í þessu togast á þrennt, pólitík, hagsmunir og fagmennska," segir Stefán og kveður allt faglegt mat segja að auðlindin sé ekki endurnýjanleg."
Þorsteinn Briem, 10.9.2017 kl. 16:01
Vetni (H2) er framleitt úr jarðgasi (metangasi) sem er ekki endurnýjanlegt, ekki frekar en jarðolía. Framleiðsla úr vatni er of orkufrek. Ástæðan er hátt “standard enthalpy” vatns (H2O), −285.8 ΔfH.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 10.9.2017 kl. 16:41
Bragi Árnason kenndi mér efnafræði í Verkfræðideild Háskóla Íslands. Hann var snilldarkennari, í einu orði sagt, og náði mjög vel til nemendanna, svo látlaus og yfirlætislaus sem hann var í framkomu. Hann var mikill fræðimaður, og ætli núverandi niðurdráttur í gufuforðabúri Hellisheiðar styðji ekki kenningar um 50 ára endingu ?
Bjarni Jónsson, 10.9.2017 kl. 17:44
edit: H2O −285.8 ΔfH kJ/mol.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 10.9.2017 kl. 21:49
10.6.2013:
"Uppsett afl Hellisheiðarvirkjunar er 303 megavött (MW) og hún framleiddi á fullum afköstum til síðustu áramóta en getur nú mest framleitt 276 megavött.
Vísindamenn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) áætla að afköst virkjunarinnar muni falla um sem jafngildir sex megavöttum á ári að meðaltali."
Þorsteinn Briem, 11.9.2017 kl. 00:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.