Algerlega óviðundandi ógn. "GAGA".

Vegna hinnar miklu og mögnuðu atburðarásar í kringum Kúbudeiluna 1962 hefur hún ranglega verið talin mesta hættan á gereyðingarstyrjöld, sem steðjað hefur að mannkyninu. 

Hið rétta er, að aldrei hefur hefur mannkynið staðið nær slíku en í september 1983 þegar sovéskur liðsforingi, Stanislav Petrov, tók þá ákvörðun upp á eigin spýtur að hundsa aðvörun um kjarnorkuárás frá Bandaríkjunum og treysta frekar á eigin ágiskun um að um bilun í tölvu- og gervihnattastýrðu aðvörunarkerfi væri að ræða. 

Hann giskaði rétt og fyrir bragðið var ekki gripið til gagnárásar. 

En á móti kom að hann féll í ónáð í mörg ár og var refsað fyrir að fara ekki eftir reglum hersins um ákvarðanatökur. 

Það sem gerði þetta atvik svo hættulegt var að einmitt á þessum tíma ríkti einstaklega mikil tortryggni og úlfúð á milli leiðtoga risaveldanna. 

Ronald Reagan hafði kallað Sovétríkin "heimsveldi hins illa" og efnt til vígbúnaðarkapphlaups. 

Aðeins 25 dögum fyrr höfðu Sovétmann skotið niður Suður-Kóreska farþegaþotu sem hafði flogið inn yfir austurströnd Rússlands og allt var á suðupunkti yfir þessu. 

Enn meiri hætta fólst í því hve viðbragðstíminn til að taka ákvörðun um gagnárás gegn kjarnorkuárás er skelfilega stuttur, í þessu tilfelli aðeins rúmlega kortér.

Allt fram á þennan dag vofir yfir mannkyninu hættan á kjarnorkustríði vegna mistaka og vopnabúrin eru stærri en 1962 og 1983.

Hætta felst einnig í því að tiltölulega lítilfjörleg mistök geti leitt af sér stigmögnun, sem reynist ómögulegt að stöðva.

Kenningin um MAD (Mutual Assured Destruction) eða GAGA (Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra) byggist á því að hvor aðili um sig verði að sýna gagnaðilanum fram á það á óyggjandi hátt að ekki verði hikað við að beita kjarnorkuvopnum ef þörf sé talin á því.

Þessi kenning er fullkomlega galin en forsenda fyrir tilveru kjarnorkuvopnabúranna.

Þess vegna er þetta langstærsta ógnin, sem raunverulega steðjar að mannkyni, þótt svikalogn ríki.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband