21.9.2017 | 01:14
Það ættu að vera litlar árekstralíkur í yfirlandsflugi hér á landi.
Í dreifbýlu landi með litla almenna flugumferð miðað við flatarmál ættu líkur á árekstri í lofti milli tveggja flugvéla sem fljúga í sjónflugi að vera minni en í þéttbýlli löndum.
Í alþjóðlegum reglum um sjónflug er ætlast til að flugvélar á vesturleið fljúgi í 2500, 4500, 6500, 8500, 10500 feta hæð, þ.e. að þúsundafjöldinn séu jafnar tölur, en á austur leið í 1500, 3500, 5500, 7500, 9500 o.s.frv.
Þetta er nauðsynlegri regla í löndum, sem eru fjölmenn og þéttbýl en þar sem fáar einkaflugvélar eru á ferð.
Í blindflugi er flogið í heilum þúsund fetum.
En vegna skýjafars og annarra ástæðna, svo sem í klifri eða lækkun geta flugvélar verið í öðrum hæðum en fyrr var getið, og flugvélar sem eru á sömu leið geta lent í því að vera báðar í sömu hæð.
Þá getur verið aukin hætta að því leytinu til á því að þær rekist saman.
Flugmenn gera ýmislegt til að minnka árekstrahættu, svo sem að tilkynna um staðsetningu sína á þeim bylgjum, sem við eiga, og til dæmis að tilkynna sig inn á ákveðin svæði, svo sem Suðurland, þar sem flugvélar neðan 3000 feta eru á sérstakri bylgju fyrir sjónflugsumferð utan stjórnaðra flugstjórnarsviða, 118,1.
Ég minnist þess hve ég var var um mig á þeim árum, sem ég flaug á Skaftinu svonefnda, sem flaug helmingi hægar en flestar einkflugavélar.
Af þessum sökum var erfitt að sjá miklu hraðari flugumferð, sem kom aftan að manni eða á ská.
Í blindflugi sjá flugumferðarstjórar í samvinnu við flugmenn um að halda öruggum aðskilnaði.
Rákust saman í háloftunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar Ragnarsson 11.4.2008:
Lögmál Murphys og Vegagerðin.
"Í anddyri Vegagerðarinnar mætti vera stórt skilti með lögmáli Murphys:
"Ef eitthvað getur farið úrskeiðis mun það gerast fyrr eða síðar."
Af þessu má álykta að ef bíll getur farið yfir á öfugan vegarhelming þá mun það gerast.
Ef bíll getur farið út af vegi og fram af hömrum mun það gerast."
Þorsteinn Briem, 21.9.2017 kl. 06:06
Fyrirsögn pistilsins er með orðinu "litlar". Það þýðir ekki sama og "engar". Lögmál Murphys er sennilega á fáum sviðum eins og i hávegum haft og í flugi.
Annars væri slysatíðni í alþjóðlegu farþegaflugi ekki eins lítil og hún er.
Ómar Ragnarsson, 21.9.2017 kl. 10:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.