24.9.2017 | 13:51
Skárra að opna dyrnar og hreinsa loftið?
Nú eru liðin tæp tvö ár síðan það varð gassprenging inni í miðjum Framsóknarflokknum, sem hafði þá forsætisráðuneytið til umráða.
Forsætisráðherrann, sem rauk þá á dyr fyrir framan heimsbyggðina, sá frá upphafi aldrei neitt athugavert við það sem hann gerði og hafði gert, heldur hefur hamast við það innan Framsóknarflokksins að stunda algera afneitun.
Það stefndi í hamagang og uppgjör þegar skyndilega brustu á kosningar, sem nú sést að hlaut að gerast úr því að það þurfti ekki nema einn þingmann í einhverjum þriggja flokka til þess að finna ástæðu til að sprengja stjórnina.
Og rétt eins og að það var á síðustu metrum fjárlaga, sem stjórnarslit urðu í þriggja flokka stjórn 1979, sést nú á ummælum minnast kosti tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins, að eldar loguðu í lokuðum rýmum allra stjórnarflokkanna.
Kannski var þá skárra að opna dyrnar og hreinsa loftið en að reyna að byrgja eldsmatinn inni.
Hvað Framsóknarflokkinn áhrærir hefur hann verið lamaður vegna innanhússástands í eitt og hálft ár og þetta hafa aðrir flokkar skynjað og því ekki árætt að eiga náið samstarf við hann.
Og það lá í augum uppi að flokkurinn yrði í stórfelldum vandræðum við að bjóða fram í kosningum og taka þátt í stjórnarmyndunarviðræðum með öll þessi innanhússvandræði og hjaðningavíg við val á framboðslista í farteskinu.
Kannski er það það skásta sem getur komið fyrir flokkinn að dyrnar séu opnaðar og loftið hreinsað þannig að nú viti fólk hver stendur hvar.
Sigmundur Davíð hættir í Framsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Opna dyrnar upp á gátt,
engin fer þó fýlan,
enn í Framsókn allt er flátt,
eftir ljót mörg grýlan.
Þorsteinn Briem, 24.9.2017 kl. 14:34
Sigmundur Davíð á ekkert erindi í pólitík. Hann á að leyta sér að vinnu þar sem hann þarf að mæta á réttum tíma, stimpla sig inn. Læra að vinna, læra mannasiði, aga og góða framkomu.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 24.9.2017 kl. 14:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.