24.9.2017 | 21:59
Vitlaust gefið á Íslandi.
Árið 2002 gaf Kjell Magne Bondevik, þáverandi forsætisráðherra Noregs, út þá yfirlýsingu að tími stórra vatnsaflsvirkjana væri liðinn í Noregi. Þá höfðu Norðmenn, tveimur áratugum á undan Íslendingum, notað rammaáætlun um virkjanakosti, en Íslendingar voru nýbyrjaðir á vinnu við sína 2002.
Síðan 2002 hafa því spilin verið gefin þannig í Noregi, að það þurfi ekki hvað snertir stærri virkjanir, að vera með neinn orkunýtingarflokk.
Hér á landi sitjum við hins vegar uppi með það að það er beinlínis lagt fyrir í rammaáætlun að ákveðinni hluti hennar skili af sér drjúgum fjölda stórvirkjana.
Um það gildir ljóðlína Steins Steinarrs: "Það er nefnilega vitlaust gefið."
Nú háir þessi vitlausa gjöf okkur víða um land þar sem sums staðar hefur verið farið um völl svipað og gert hefur verið á Reykjanesskaga, sem hefur farið í ruslflokk Rammaáætlunar.
Vitlausa gjöfin felst einnig í ófullkomnum upplýsingum, svo sem varðandi Teigsskóg.
Gefið er í skyn að hálsarnir í Gufudalssveit séu einstakar hindranir, jafnvel á landsvísu og þar af leiðandi sé ómögulegt að fara þá leið með nýjan og betri veg.
Þó liggur fyrir að annar hálsanna, Ódrjúgsháls, liggur aðeins upp í 160 metra hæð eða álíka hátt og nýjasta hverfið við Vatnsendahæð í Kópavogi og að hægt er að gera nýjan og ágætan veg yfir hálsinn í stað hinnar bröttu krókabeygju, sem alltaf er sýnd í fréttum.
Einnig er það staðreynd að á leiðinni frá Bjarkarlundi til Patreksfjarðar yfir fjóra hálsa er sá vestasti, Kleifaháls, hæstur yfir sjó, 402 metrar, eða um 60 metrum hærri en Hjallaháls.
Þar að auki er Hjallaháls álíka hár og Klettsháls, rúmlega 330 metrar yfir sjó, en þetta samhengi og samanburður sést aldrei nefnt og enginn talar um að Kleifaheiði og Klettsháls séu óviðunandi hindranir.
Geta má þess að áður en vegurinn um Klettsháls var lagaður, var hann oftar ófær eða erfiður yfirferðar en vegurinn um Hjallaháls.
Nú er í ráði að gera betri veg yfir Dynjandisheiði, sem liggur upp í 500 metra hæð yfir sjó.
Málum er alltaf stillt þannig upp að annað hvort þurfum við að sitja uppi með 60 til 70 ára gamlar troðningaveglínur eða að fá hraðbraut í gegnum Teigsskóg.
Það er lágmarkskrafa að réttar upplýsingar liggi fyrir þegar ákvarðanir eru teknar í svona málum. En það hentar ekki þeim sem hafa frá upphafi keyrt það mál áfram án þess að ljá máls á neinni bitastæðrii umræðu.
Vill eldisreglu í fiskeldið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ólafur Arnalds prófessor - Teigsskógur og vegalagning:
"Skipulag vegalagningar um Gufudalssveit er orðið langt og sorglegt drama.
Ljóst var fyrir 11 árum síðan, þegar Skipulagsstofnun hafnaði vegastæði um Teigsskóg, að leggja þyrfti veginn með öðrum hætti.
Hefði sú vinna farið strax í gang keyrðu Vestfirðingar fínan malbikaðan veg um Gufudalssveit núþegar, bara á öðrum stað.
Það er afskaplega leiður ávani ýmissa stjórnvalda, í þessu tilfelli Vegagerðarinnar, að hunsa álit annarra stjórnsýslueininga á sviði umhverfismála.
Reynt var að láta ráðherra snúa við úrskurðinum, sem hún gerði (Jónína Bjartmarz) en Héraðsdómur ógilti úrskurð ráðherra (2008).
Enn var þumbast við en árið 2009 staðfesti Hæstiréttur "Héraðsdóminn". Ögmundur Jónasson komst síðar að sömu niðurstöðu sem ráðherra vegamála.
Þessi vegalagning um Teigsskóg virðist hins vegar hafa beinlínis orðið að þráhyggju hjá Vegagerðinni eða einhverjum þar innanhúss.
Og nú á enn að hunsa álit Skipulagsstofnunar og annarra ríkisstofnana sem fara með umhverfismál af hálfu ríkisins.
Veglína Vegagerðarinnar um Teigsskóg er umhverfislegt stórslys.
Jafnframt er beitt óvönduð vinnubrögðum, að mínu mati, til að viðhalda þráhyggjunni, gert lítið úr svæðinu við Teigsskóg (málið snýst alls ekki bara um skóginn), m.a. með vafasömum myndbirtingum.
Lítið er gert úr öðrum möguleikum en þegar rýnt er í þær röksemdir standast þau ekki mál.
Þá er fullkomlega gengið fram hjá byggðarsjónarmiðum sem lúta að því að treysta þéttbýlið á Reykhólum."
Þorsteinn Briem, 24.9.2017 kl. 22:33
31.3.2017:
"Endurbætur á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit, frá Bjarkarlundi að Skálanesi, hafa staðið til um margra ára skeið en gamall malarvegur er kominn til ára sinna.
Í vikunni skilaði Skipulagsstofnun áliti á umhverfismati Vegagerðarinnar fyrir veginum.
Í umhverfismatinu voru teknar fyrir fimm leiðir og lagði Vegagerðin til leið sem er kölluð Þ-H.
Skipulagsstofnun lagði hins vegar til í áliti sínu að farin yrði önnur leið sem er talin valda minni umhverfisáhrifum, D2.
Þrátt fyrir álit Skipulagsstofnunar hyggst Vegagerðin halda sínu striki."
Hvert er gjaldið fyrir Vestfjarðaveg?
Þorsteinn Briem, 24.9.2017 kl. 22:50
Ég fór á fund, þar sem mastersritgerð um viðbrögð stofnana við mati á umhverfisáhrifum voru kynnt. Ég átti von á að Landsvirkjun myndi ekki koma vel út úr því en önnur stofnun kom langverst út: Vegagerðin, sem færði matið skipulega niður, þannig að lítil áhrif voru strokuð út, veruleg áhrif gerð óveruleg o.s.frv.
Í Gálgahraunsmálinu birtist þessi þráhyggja glögglega.
Ómar Ragnarsson, 24.9.2017 kl. 23:45
það er nú svolítill munur ´fjölda virkjana hér og í noreigi. það hefði nú verið falleg sjón í dag hefði títanfélagið haft nægt fjármagn í að fullgera allar þær virkjanir sem það ráðgerði. þá mætti setja á virkjanastop fyrir mér. var ómar ekki að lofsíngja heimarafstöð hjá ætíngja fyrir allnokkru, en vill ekki að nágrannin byggi eina slíka
kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 26.9.2017 kl. 06:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.