28.10.2017 | 14:01
Tilfinningar skipta líka máli. Við erum ekkert án tilfinninga og minninga.
Í löngum umræðum í sjónvarpssal í gærkvöldi byrjaði umræðan og stóð nánast allan tímann um peninga og aftur peninga, milljarða og milljarðatugi.
Fróðlegt væri að vita hve margar upphæðir voru nefndar, sumar aftur og aftur.
Víst er það rétt, að sagt er að peningar séu afl þeirra hluta sem gera skal, og í neyslusamfélagi nútímans vill það verða að upphafi og endi alls.
Hin hliðin á þessari umræðu og hugsunarhætti er að líta niður á tilfinningar og allt að því fyrirlíta þær og telja þær ekki krónu virði.
Eða þá að meta allt til peninga og tilfinningar sem tengjast þeim, þeirra á meðal græðgi, til hins eina sanna mælikvarða, peninga.
Það var því kærkomin tilbreyting í sjónvarpskappræðunum í gærkvöldi að einn þátttakandinn skyldi sýna djúpar tilfinningar sem fylgja því að vera settur út í horn í þjóðfélaginu eins og annars eða þriðja flokks þegnar, sem eigi engan rétt eða möguleika á því að taka þátt þjóðlífinu eins og aðrir.
Erlendir ferðamenn, sem nú halda uppi mikilli peningalegri auðsæld koma fyrst og fremst til landsins til að upplifa, til að fyllast mikilsverðum tilfinningum.
En þegar langstærstu óafturkræfu umhverfisspjöll Íslansssögunnar voru framkvæmd, var því slegið föstu að öll hin stórkostlegu og einstæðu náttúruverðmæti sem eyðilögðu voru um alla framtíð væru ekki krónu virði.
Á sama tíma er útsýni yfir ósköp venjulegan fjörð, Kollafjörð, metin til milljarða króna ef um er að ræða háar íbúðablokkir við Skúlagötu.
Beygði af í beinni útsendingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar minn. Umhugsunarverður og nauðsynlegur sjónarhóll.
Tilfinningarnar?
Þær eru einstaklingsbundnar. Og verðmætamat og tilfinningar allra eru ólíkar.
Þess vegna er misskilningur svo algengur sem raun ber vitni. Reyndar algengasti skilningurinn, eftir því sem mér hefur verið sagt, af góðu og heiðarlegu fólki.
Í ljóði, sem sagt er vera eftir Hallgrím Pétursson sálmaskáld, er sagt að bestu blómin grói, í hjörtum sem að geta fundið til.
Líklega mjög mikið til í því. Bara spurning hvernig fólk höndlar tilfinningarnar í lífsins ólgu sjó, og nær að nýta þær erfiðu tilfinningareynslur rétt og til góðs.
Þá flækist nú málið heldur betur og eðlilega mjög mikið, fyrir alla ólíka.
Bæði fyrir Jóni og séra Jóni.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 28.10.2017 kl. 19:57
Það má taka undir þetta, en leiðrétta þó í leiðinni að "..í brjóstum sem að geta fundið til..." er í ljóði eftir Jónas Hallgrímsson.
Ómar Ragnarsson, 29.10.2017 kl. 02:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.