21.11.2017 | 10:07
Hvaða starfsemi í Gufunesi? Hvað um Hellisheiðarvirkjun?
Reykjavík fékk umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir nokkrum misserum ef ég man rétt.
Borgin lagði fram margvísleg sannfærandi gögn um þetta sem tekin voru góð og gild, enda vafalaust öll pottþétt.
Eða hvað? Hvað um loftgæði? Hvað um sjálfbæra nýtingu? Voru öll gögn send?
Mágkona mín sem á heima í Bolungarvík hefur minnst á það oftar en einu sinni þegar hún kemur í heimsókn að vestan, að þegar hún komi í heimsókn til ættingja og vina fyrir sunnan furði hún sig á þeirri ólykt sem hún finni leggja yfir borgina.
Við hin, sem búum hér að staðaldri, komum af fjöllum. Loftgæði?
Við erum orðin þessu svo vön að við finnum það ekki. En hún býr á stað, þar sem loftgæði eru það góð, að hún finnur strax "fnyk" þegar hún kemur til Reykjavíkur.
Er Ísland ekki auglýst sem land bestu loftgæða á byggðu bóli?
Þó er ekki lengra síðan en í gær að greint var frá því að svifryk hefði farið yfir heilsuverndarmörk í borginni.
Og í dag er kvartað undan fnyk í Grafarvogshverfi.
Hvaða gögn um loftgæði voru send til dómnefndar Norðurlandaráðs? Öll? Takmörkuð og "sérvalin"? Engin?
Í hvaða vindátt berst "fnykurinn" yfir Grafarvogshverfið? Hvaða fyrirtæki eru í Gufunes?
Það var upplýst í upphafi um mengunarvaldinn í Helguvík, kísilmálmverksmiðjuna.
Uppi á Hellisheiði stendur yfir lofsverð niðurdæling á brennisteinsvetni, sem annars berst með vindi yfir Reykjavík í algengustu vindáttinni, austanáttinni.
En er öllu eitrinu dælt niður? Ef ekki, hve miklum hluta þess?
Hvað sýna mælingar á þessari lofttegund í Reykjavík? Hvað um mælingar í austustu hverfum borgarinnar?
Áður en niðurdælingin hófst gat eitrið´farið yfir heilsuverndarmörk við Lækjarbotna og Gunnarshólma.
Hvað segja mælingar nú?
Reikna má með því að meðal gagna sem réðu úrslitum um veiting norrænu verðlaunanna hafi verið nýting jarðvarma til upphitunar í staðinn fyrir brennslu jarðefnaeldsneytis.
En hvað um sjálfbæra þróun, sjálfbæra nýtingu?
Voru sendar upplýsingar um stórfelldustu rányrkju á einum stað á Íslandi, Nesjavalla-Hellisheiðarsvæðinu?
Opnun Þeistareykjavirkjunar hefur óbeint leitt fram hið sanna í því máli, því að í stað þess að reisa þar 300 megavatta virkjun eins og er á Hellisheiði, sem hefði verið hægt að sögn forstjórans, var látið nægja að hún yrði aðeins 90 megavött til þess að geta fylgst með því næstu áratugina hvort nýtingin sé "ágeng" eða ekki.
Það rímar ágætlega við kenningar Guðmundar Pálmasonar, Ólafs Flóvenz og Guðna Axelssonar um viðleitni til öruggrar og sjálfbærrar nýtingar.
Þegar norrænu umhverfisverðlaunin voru veitt nagaði mig efinn um verðleika borgarinnar.
Sá efi var um forsendurnar fyrir veitingunni en mig skorti gögn um þær og var því ekki með "leiðinda nöldur" á gleðistundu.
Þó var vitað um það sem hefur verið rakið hér að ofan að frátöldu hinu nýja máli í Grafarvogshverfi, sem nú bætist við.
Gjörsamlega ólíðandi fnykur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"... loftgæði eru það góð ..."
Mikil gæði en ekki "góð gæði".
Þorsteinn Briem, 21.11.2017 kl. 11:13
Sem sagt, engin fjósalykt og enginn fnykur frá fiskimjölsverksmiðjunum á landsbyggðinni, svo eitthvað sé nefnt.
Það hlýtur að vera skelfilegt að búa í Reykjavík en samt vill rúmlega þriðjungur landsmanna endilega búa þar, til að mynda Ómar Ragnarsson í Grafarvogi, og sumir kvarta hástöfum yfir því að geta ekki keypt þar íbúðarhúsnæði.
Þorsteinn Briem, 21.11.2017 kl. 11:31
Tónlistarmyndbandið "Reykjavíkurljóð" segir allt um þann hug sem ég ber til fæðingarborgar minnar, Steini minn. En vinur er sá er til vamms segir.
Ómar Ragnarsson, 21.11.2017 kl. 12:13
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri 29.9.2017:
"Það er ótrúlega mikið um að vera í Grafarvoginum og hér eru glærurnar sem ég fór yfir á íbúafundinum þar."
Þar kemur meðal annars þetta fram:
Umhverfismál:
"Lyktarmengun er frá þremur fyrirtækjum í Gufunesi.
Unnið er að úrbótum og eitt fyrirtækjanna er að undirbúa flutning af svæðinu."
Þorsteinn Briem, 21.11.2017 kl. 12:16
Takk, Steini. Ég var reyndar á þessum fundi og hlustaði á borgarstjórann, en pistillinn fjallar almennt um loftgæði og sjálfbæran rekstur á vegum borgar sem hefur hlotið umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.
Síðasta ljóðlínan í Reykjavíkurljóði eru "...og þakka´að fá að fæðast, lifa´og deyja í svona borg."
Þess vegna vil ég veg hennar sem mestan.
Ómar Ragnarsson, 21.11.2017 kl. 13:01
Undirritaður hefur búið í nokkrum póstnúmerum í Reykjavík í samtals hálfa öld og loftið er þar yfirleitt mjög gott á flestum stöðum, auk þess sem verið er að auka þar loftgæðin frá því sem verið hefur, sem er að sjálfsögðu aðalatriði málsins.
Ég hef oft bent hér á mengun frá Hellisheiðarvirkjun og unnið hefur verið að því að stórminnka þá mengun.
Þorsteinn Briem, 21.11.2017 kl. 13:34
"Með staðfestingu loftslags- og loftgæðastefnu Reykjavíkur í september 2009 setti borgin sér sín fyrstu heildarmarkmiðin í losun gróðurhúsaloftegunda fyrst sveitarfélaga á Íslandi.
Í júní 2016 var stefnan endurskoðuð og sett fram aðgerðaráætlun til að ná fram kolefnishlutleysi Reykjavíkurborgar árið 2040.
Aðgerðaráætlunin nær til ársins 2020 og verður endurskoðuð á um 5 ára fresti.
Aðgerðirnar skiptast í þrennt, samfélagslegar aðgerðir, aðgerðir til aðlögunar að loftslagsbreytingum og loks aðgerðir í rekstri Reykjavíkurborgar."
Þorsteinn Briem, 21.11.2017 kl. 13:44
Grænn hagvöxtur í Reykjavík - Mars 2015
Þorsteinn Briem, 21.11.2017 kl. 13:50
Reykjavík er hins vegar ekki allt höfuðborgarsvæðið.
12.4.2013:
"Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis gaf út skýrslu í mars síðastliðnum um mælingar á brennisteinsvetni í Kópavogi.
Í niðurstöðu heilbrigðisnefndarinnar segir að vaxandi styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti á höfuðborgarsvæðinu sé áhyggjuefni en langtíma áhrif lágs styrks brennisteinsvetnis á heilsufar hafa lítið verið rannsökuð."
Kópavogur lýsir yfir áhyggjum af loftgæðum
Þorsteinn Briem, 21.11.2017 kl. 14:00
"Á kortinu má sjá staðsetningu loftgæðamælistöðva í Reykjavík og hæsta styrk efna á hverjum tíma.
Liturinn er grænn ef styrkurinn er undir heilsuverndarmörkum.
Til að fá ítarlegri upplýsingar um loftgæði í Reykjavík má velja mælistað á kortinu.
Önnur loftgæðafarstöð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er nú staðsett við Hringbraut 26 og hin við leikskólann Grænuborg, Eiríksgötu 2.
Slóð á loftgæðin er http://testapi.rvk.is/#/stodvar."
Mælingar á loftgæðum í Reykjavík
Þorsteinn Briem, 21.11.2017 kl. 14:23
Sem landsbyggðarbúi finnst mér alltaf helv. pest í Rvík. og sérstaklega af hitaveituvatninu. Misjafnt eftir hverfum þó.
Ef ég man rétt, þá er reyndar H2S lyktarlaust, en eitraður skratti. Eins og CO, bara ekki svo magnað. En hellings magn af S í mörgu formi og mis-lyktandi á það til að liggja yfir borginni þannig að húsfrúrnar þurfa aukavinnu á silfrið, sem bændakvinnur við hliðina á fjóshaug þurfa ekki.
Jón Logi (IP-tala skráð) 21.11.2017 kl. 15:01
"Núna er brennisteinsvetni hreinsað frá fjórum af sex aflvélum Hellisheiðarvirkjunar og unnið er að því að tengja þær tvær sem eftir standa við hreinsikerfið.
Þegar því lýkur verður nánast allt brennisteinsvetni hreinsað frá Hellisheiðarvirkjun og stefnt er að því fyrir árslok 2017."
"Sumarið 2014 hófst rekstur lofthreinsistöðvar við Hellisheiðarvirkjun eftir nokkurra missera tilraunir.
Sumarið 2016 lauk stækkun stöðvarinnar og frá þeim tíma hefur hún hreinsað brennisteinsvetni frá fjórum af sex háþrýstivélum Hellisheiðarvirkjunar."
OR - Brennisteinsvetni
Þorsteinn Briem, 21.11.2017 kl. 15:18
"Það er áhyggjuefni að sveitarfélög séu ekki með skýrari stefnu í loftslagsmálum, segir Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur."
"Í nýrri meistararitgerð í opinberri stjórnsýslu greindi Ólafía Erla Svansdóttir hlutverk og ábyrgð sveitarfélaga í loftslagsmálum.
Hún komst að því að aðeins 14 af 74 sveitarfélögum hafa sett sér umhverfisstefnu og einungis tvö hafa sérstaka loftslagsstefnu þar sem dregin eru fram markmið til að minnka útblástur koltvíoxíðs í andrúmsloftið.
Það eru Reykjavíkurborg og Hornafjörður.
82% sveitarfélaga hafa hvorki sett sér umhverfis- né loftslagsstefnu."
Einungis Reykjavík og Hornafjörður með sérstaka loftslagsstefnu
Þorsteinn Briem, 21.11.2017 kl. 15:49
Þetta er nú vandinn. Iðnaðarfyrirtækin í borginni eru upphaflega send á ystu borgarmörk til þess að hlífa íbúum - en svo einn daginn eru íbúar komnir allt um kring. Myndi segja að skipulagsmálin séu í verra horfi en loftslagsmálin.
Kolbrún Hilmars, 21.11.2017 kl. 16:01
Mér finnst nú aðallega að dísil-fnykurinn hafi stóraukist hér í borginni, sem og svifrykið. Kannski fer að verða spurning hvort það sé ekki beinlínis heilsuspillandi að vera á ferðinni á álagstímum þegar vindur er tiltölulega hægur.
Emil Hannes Valgeirsson, 21.11.2017 kl. 17:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.