24.11.2017 | 00:28
Af hverju ekki framboð til forseta?
Við Íslendingar ættum að bjóða Mike Hughes, "Mad Mike" til Íslands til þess að komast að því á miklu ódýrari hátt en hann ætlar sér, hvort jörðin sé flöt eða hnöttótt.
Hann ætlar að skjóta sjálfum sér í heimasmíðaðri eldflaug til þess að sanna að jörðin sé flöt, en ef við bjóðum honum til Reykjavíkur, tekur þetta aðeins um tíu mínútur fyrir miklu minni peninga.
Hann yrði fyrst settur niður á Eiðisgranda á heiðríkum degi, þar sem hann sæi yfir Faxaflóa efri hluta Snæfellsjökuls við sjóndeildarhringinn, síðan yrði farið með hann í flug beint upp frá Reykjavíkurflugvelli þar sem hann sæi jökulinn líkt og rísa allan úr sæ ásamt lægri fjöllum yst á Snæfellsnesi, sem ekki sjást frá sjávarmáli.
Raunar er synd að Ingólfur Arnarson skyldi aldrei ganga á Esjuna til að sjá svipað og verða með því níu hunduð árum á undan öllum öðrum til að sanna að jörðin væri ekki flöt, úr því að hafið væri það greinilega ekki.
En síðan mætti sleppa þessu og benda Mad Mike á það að láta ekki nægja að bjóða sig fram til embættis ríkisstjóra Kaliforníu heldur fara alla leið og bjóða sig fram þegar tækifæri gefst til embættis forseta Bandaríkjamanna, en hann er að því leyti skoðanabróðir Trumps að Trump telur vísindamenn heims fara með bull og vitleysu varðandi loftslag á jörðinni og að reka þurfi þá alla og ráða "alvöru" vísindamenn í staðinn að loftslag fari ekki hlýnandi heldur kólnandi, jafnvel "hratt kólnandi" eins og sumir skoðanabræður hans sögðu fyrir þremur árum.
Því að bæði Mad Mike og Donald Trump eiga sér fjölmarga skoðanabræður.
Hyggst sanna að jörðin sé flöt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Upp á rönd og alveg flatt,
allt var það nú galið,
vonir miklar við það batt,
vitlaust þó var talið.
Þorsteinn Briem, 24.11.2017 kl. 03:35
Er jörðin slétt? Ég veit ekki hvað spekingar sem trúa því að sannanleg hlýnun jarðar um 0,8°C síðustu 140 árin "sé af mannavöldum" segja um það.
En ef hún væri smækkuð í stærð snókerkúlu þá yrði það sléttasta snókerkúla í heimi!
Þorsteinn Styrmir Jónsson (IP-tala skráð) 24.11.2017 kl. 11:55
Þarna ferðu alveg út í móa 'omar minn með þessari athugasemd:"en hann er að því leyti skoðanabróðir Trumps að Trump telur vísindamenn heims fara með bull og vitleysu varðandi loftslag á jörðinni og að reka þurfi þá alla og ráða "alvöru" vísindamenn í staðinn að loftslag fari ekki hlýnandi heldur kólnandi, jafnvel "hratt kólnandi" eins og sumir skoðanabræður hans sögðu fyrir þremur árum."
Það sem Trump segir er byggt á vísindalegum efasemdum sem geta alveg eins verið sannar eins og hinar staðhæfingarnar.
Halldór Jónsson, 24.11.2017 kl. 12:02
Hérna ágæt samantekt á þessum loftslagsfræðum: https://www.youtube.com/watch?v=-duOB-YINbM
Mofi, 25.11.2017 kl. 20:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.