Mestu breytingar á högum tónlistarmanna í heila öld?

Tónlistarmenn hafa gengið í gegnum ýmsar breytingar á högum í gegnum tíðina, oft vegna nýrrar tækni. 

Langt fram eftir síðustu öld var vínyllinn alls ráðandi í útgáfu tónlistar og fór vegur hans sívaxandi. 

Ég man þá tíð þegar að mestu voru gefnar út tveggja laga plötur, með einu lagi hvorum megin. 

En tvær tegundir breytinga komu síðan til sögunnar á um tíu ára tímabili, annars vegar varðandi breytingar á snúningshraða platnanna sem fóru í gegnum tölurnar 78, 45 og 33 snúninga, en einnig og kannski fyrst og fremst varðandi stækkun platna úr 2ja laga í fjögurra laga og síðan í tilkomu breiðskífunnar á sjöunda áratugnum. 

Allar breytingarnar juku á fjölbreytnina og plötusöluna. Þannig er tveggja laga plata Bítlanna með lögunum Penny lane og Strawberry fields forever yfirleitt taldar tilheyra "plötu aldarinnar" Sergent Peppers hjá Bítlunum, en vegna þess að vinna við hana tók hálft ár og tók allan tíma Bítlanna á því tímabili, svo að þeir komu hvergi fram og gáfu ekkert út á meðan,  var ákveðið vinna gegn hugsanlegum áhrifum þess með því að taka tvö lög af fyrirhuguðum lagalista og gefa þau út á smáskífu til að láta dampinn ekki detta niður. 

Á síðustu tveimur áratugum aldarinnar kom geisladiskurinn til sögunnar og var auðvitað gríðarleg bylting fólgin í honumm, en ef eitthvað var fjölgaði útgefnum plötum gríðarlega og plötusalan þar með. 

Fyrir nokkrum árum varð síðan áhrifarík bylting með tilkomu útgáfu tónlistar og ekki síður niðurhals á netinu. 

Afleiðingarnar eiga sér varla neina hliðstæðu síðan hljómplatan kom til sögunnar. 

Á örfáum misserum hefur salan á markaðnum hrunið gersamleg og þær tekjur, sem íslenskir tónlistarmenn geta haft með því að setja lög sín á Spotify eru yfirleitt í mýflugumynd, sé tónlistin miðuð að mestu fyrir innlendan markað. 

Spotify miðar sitt kerfi við heimsmarkaðinn og hundraða milljarða kaupenda, sem eru á honum, og tölurnar á Íslandi eru svona um það bil einn tíuþúsundasti af allri tónlistarveltunni. 

Allir hér á landi, sem ekki eru með kaupendur að neinu ráði erlendis, hafa sopið seyðið af þessu. 

Það segir sína sögu um stórfelldar breytingar á högum skapandi tónlistarfólks, að Páll Óskar bauð fyrstu kaupendum disks síns að koma í eigin persónu til þeirra með hann, Egill Ólafsson setti sína nýju tónlist á vínyl í takmörkuðu magni og áritar eftir númerum, og Bubbi Morthens gaf út ljóðabók. Léttir á Hrafnseyrar heiði

Sjálfur fór ég í trúbadorferð báða hringina, hringvegginn og Vestfjarðahringin í rykk á rúmum þremur sólarhringum, með hljómflutningstæki á litlu Honda vespuhjóli til að halda kynningar og tónleika á þeim slóðum sem markhópur slíks ferðalagavæns disk var helst á ferð.  

Á myndinni er hjólið, sem ber íslenska heitið "Léttir" með hljómflutningskerfið á bakinu eins og hestur, staddur uppi á Hrafnseyrarheiði með Dýrafjörð í baksýn. 

Íslenskir tónlistarmenn hafa nú verið sendir til baka til upphafsins, ef svo má að orði komast, við að leggja aðaláhersluna á að koma fram á tónleikum eða halda tónleika. 

Fall hljómdisksins má marka af því að í verslunum, sem áður seldu diskaspilara og annað tengt þeim, eru slík tæki ekki seld lengur, þeir hafa horfið úr nýjum tölvum, og það þarf að panta diskaspilara í nýjum bílum. 

 


mbl.is Tekjur tónlistarfólks rannsakaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Skapandi greinar hér á Íslandi veltu 189 milljörðum króna árið 2009, útflutningstekjur þeirra voru þá 24 milljarðar króna og ársverk voru 9.371.

Kortlagning á hagrænum áhrifum skapandi greina - Maí 2011

Þorsteinn Briem, 24.11.2017 kl. 12:44

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

21.1.2013:

Heildarkostnaður ríkis og Reykjavíkurborgar vegna byggingar Hörpu um 18 milljarðar króna eftir yfirtöku að meðtöldum fjármagnskostnaði vegna lána til 35 ára


1.7.2010:

Um 10 milljarða króna kostnaður vegna byggingar Hörpu fyrir yfirtöku ríkis og Reykjavíkurborgar


Heildarkostnaður
vegna byggingar Hörpu er því um 28 milljarðar króna.

Tekjur
vegna Iceland Airwaves og CCP Fanfest eru samanlagt um einn og hálfur milljarður króna í nokkra daga á ári hverju, eða 30 milljarðar króna á 20 árum.

Þorsteinn Briem, 24.11.2017 kl. 12:45

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Spotify miðar sitt kerfi við heimsmarkaðinn og hundraða milljarða kaupenda, sem eru á honum ..."

Sumir oftelja en aðrir vantelja, eins og teljarinn hér á síðunni, sem kominn var í 120 innlit í dag fyrir tíu klukkutímum en nú 112, og hefur margoft dottið út síðastliðnar vikur, Ómar Ragnarsson.

Þorsteinn Briem, 24.11.2017 kl. 12:59

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er ekki uppistaðan í tekjum tónlistar og skemmtikrafta í dægurgeiranum, svartar tekjur? Þú getur e.t.v. staðfest það, Ómar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.11.2017 kl. 14:41

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eins og sést á mínum skattframtölum gef ég upp mínar tekjur á öllum sviðum, en ég get ekki staðfest neitt fyrir aðra. 

Ómar Ragnarsson, 24.11.2017 kl. 17:11

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Glöggur ertu, Steini. Ég tók eftir furðulegum afföllum í tölum teljararins fyrir nokkrum vikum, sem hafa endurtekið sig nokkrum sinnum síðan, og voru dæmi um að í einstökum tilfellum lækkuðu tölurnar "flettingar síðasta sólarhring", "flettingar" og "innlit" um mörg hundruð um kvöldmatarleytið, sem auðvitað er rugl, því að þeir sem hafa "litið inn" hafa varla getað þyrpst út aftur. En fyrir bragðið hafa þessar tölur hvað eftir annað lækkað á síðunni minni. Ég hef haft samband við tæknimenn, sem sinna talningunni á mbl.is og hef fengið þau svör, að þar á bæ hafi verið unnið í að komast fyrir þetta, en að því sé ekki lokið. 

Ómar Ragnarsson, 24.11.2017 kl. 17:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband