25.11.2017 | 02:10
Mætti halda að þetta sé mesti hátíðisdagur ársins.
Í hádeginu í dag var heitið "Black Friday" og einstaka sinnum "Svartur föstudagur" nefnt mörgum sinnum á hverri mínútu í hverri auglýsingunni á fætur annarri.
Söngurinn var kyrjaður í allan dag.
Það er náttúrulega brandari að landtaka innflytjenda við Plymouth Rock á austurströnd Bandaríkjanna á sautjándu öld skuli vera að hefja Black Friday til himinhæða sem hátíðisdag hér á landi.
Black Friday er nefnilega til orðinn vegna þessa atburðar í sögu Bandaríkjanna sem minnst er með frídeginum Thanksgiving Day, sem er jafnan síðasti fimmtudagur í nóvember.
Þakkarhátíðin, - afsakið Thanksgiving Day, - er líka svipað fyrirbrigði í Bandaríkjunum og Kanada og töðugjöld voru hér á landi, þakkardagur fyrir uppskeru sumarsins.
Af því að Þakkarhátíðin, - afsakið Thanksgiving Day, er frídagur vestra, hefur verslun verið lífleg daginn eftir hann og sömuleiðis á næsta mánudegi helgina á eftir.
Naskur kaupahéðinn sá sér leik á borði að gera þennan mánudag að sérstökum netverslunardegi, sem hefur ekki síður sótt í sig veðrið en Black Friday undir heitinu Cyber Monday.
Cyber þykir einkar hentugt nafn af því engir skilja það til fulls. Þó hefur verið minnst á rafrænan mánudag, en auðvitað er ekki eins fínt og Cyber Friday.
Miðað við ofangreinda hröðu þróun má spá í framhaldið á frekari innrás þess að hafa amerískar aðstæður og atburði úr sögu Bandaríkjanna í hávegum hér á landi.
Fyrst þessir tveir dagar ásamt Single Day eru að verða einhverjir mestu tyllidagar hér á landi er úr samhengi að Thanksgiving Day, sem var upphafið á þessu öllu, skuli ekki fylgja með hinum bandarísku dögunum hér á landi og hlýtur hann að verða að fá að fljóta með og vera gerður að almennum frídegi á Íslandi.
Í staðinn mætti leggja sumardaginn fyrsta niður, sem hefur alltaf verið lélegur dagur fyrir verslun og kaupahéðna.
Þá verða fjórir hátíðisdagar seinni part nóvember með nafni á ensku farnir að keppa við jólin og páskana og náðarhöggið hlýtur að verða að eini nafngreindi íslenski dagurinn í nóvember, Dagur íslenskrar tungu, húki ekki þarna ekki einmana eins og álfur út úr hól, heldur fái að krýna sigur bandarískra aðstæðna á Íslandi með því að verða að Day of English Language.
Til samræmis við þetta gæti næsta skref orðið, að fyrst hið merka ameríska örnefni Plymouth Rock er undirstaðan undir þessu öllu, mætti hugsa sér að þetta náttúrufyrirbæri í Bandaríkjunum fái verðskuldaða viðurkenningu hér á landi með því að gera 16. september að Day of American Nature.
Í fréttum í dag var sagt: "Black Friday er kominn til að vera." Það hefði verið ósamræmi í því að segja: Black Friday hefur fest sig í sessi, því að orðin "er kominn til að vera" er hrá þýðing úr ensku: "...is here to stay."
Hefur fest sig í sessi - og - er kominn til að vera - eru hvort tveggja sjö atkvæði, en amerískt skal það vera í bak og fyrir.
Stanslaust Þorláksmessurennsli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ætli Bandaríkjamenn séu jafn æstir og viðkvæmir þegar þeir þurfa að kalla jógúrtlíki skyr? Og Singles day er Kínverskur. Pesach, eða páskar eins og við berum það fram, er einnig erlend hátíð með erlent nafn. Elstu heimildir um orðið jól eru úr gotnesku. Og hvernig er það með mánuðina, hefur einhver þeirra Íslenskt nafn?
Íslenskan er ekki eins og gamaldags bóndi sem ekki þolir samkeppni og þarf einangrun, aðstoð og aumingjastyrk til að tóra. Heldur lifandi nútímalegt mál sem heldur sínum einkennum, þróast og þolir tískusveiflur og slangur. Styrkist og eflist við stöðuga samkeppni og samanburð.
Er lítið álit þitt á lífsvilja og þrautsegju Íslenskunnar eitthvað sem gerir henni gott? Eru geðvonskuleg skrif þín um Íslensku eitthvað sem hvetur menn til góðra verka eða er "fuck you" það fyrsta sem mönnum dettur í hug við lesturinn? Svari hver fyrir sig.
Hábeinn (IP-tala skráð) 25.11.2017 kl. 03:47
Ég krefst þess núna, skörungur kvað,
að kynja við réttum hlutinn!
Hún þrumaði úr pontu, með þéttskrifað blað,
- þó karlarnir mændu á skutinn....
Þjóðólfur á Sitjanda (IP-tala skráð) 25.11.2017 kl. 07:48
Allt sem þú ert að nefna, dagur einhleypra, jól, páskar og mánaðanöfn hefur skírskotun til sameiginlegra atriða í sameiginlegum aðstæðum, menningu og trú einstaklinga og þjóða.
En Thanksgiving Day, Black Friday og Cyber Monday miðast allir við amerískan viðburð sem snerti Ameríkumenn eina.
Þegar þessi ensku heiti eru tekin hrá beint upp og meira að segja skrifuð með enskri stafsetningu bendir það til uppgjafar þeirra sem virðist skitsama um móðurmál okkar.
Að túlka viðleitni mína og fleiri til andófs til varnar Íslenskunni í anda Fjölnismanna sem "lítið álit á íslenskri tungu" er gott dæmi um þína eigin útúrsnúninga og stanslausu geðvonsku út í allt sem ég geri og segi.
Ómar Ragnarsson, 25.11.2017 kl. 13:33
Ein athugasemd við fimm síðustu færslur segir þú "..stanslausu geðvonsku út í allt sem ég geri og segi. ". Annaðhvort er hér um ofsóknaræði að ræða eða þú ert svo málvilltur og ruglaður að þú ert hættur að skilja merkingu einföldustu orða. Að sletta með erlendum orðum skaðar minna en að nota Íslensku orðin sem til eru vitlaust. Þau missa þá merkingu sína og verða eins og hvert annað rusl. Í anda Fjölnismanna ætla ég að biðja þig um að hætta að misþyrma Íslenskunni.
Hábeinn (IP-tala skráð) 25.11.2017 kl. 18:24
Heyr, heyr Ómar - Góður, tímabær og þarfur pistill hjá þér, og gott að sjá hvernig þú svarar þessum eltihrelli og persónulegum öfundar-og hatursmanni þínum (heigull, sem þorir eðlilega ekki að koma fram undir nafni). - Þetta er orðið afar athygliverð hnignuð þessarar voluðu þjóðar á þessum sviðum, og reyndar fleirum, og einning má greina verulega hnignun mannsandans og gáfnafars á samhengislausum pistli þessa kjána ("hábeinn/s"). - Hann er sjálfur sér verstur, og venjulegt meðalgreint fólk sér að þarna er kjáni á ferðinni. - Eyddu út þessari IP-tölu og áfram í sífellu þegar hann endurnýjar sig. - P.S. Taktu steina breim í leiðinni. Hann er ekki betri þó þú reynir að umbera ógeðsskrifin út í þig frá honum.
Már Elíson, 25.11.2017 kl. 18:33
Tek heilshugar undir með Ómari hvað íslenskuna varðar, skynja líka hálfgerða uppgjöf (og því miður oft á tíðum hreina íslenskuvankunnáttu) meðal sumra ákafra auglýsenda gagnvart enskunni. Ég held að aðrar Evrópuþjóðir, t.d. Þjóðverjar og Frakkar, hlúi enn vel að sínum tungumálum og mundu ekki líða að heyra né sjá hvað sem væri í tengslum við móðurmálið á sínum aðalljósvakamiðlum. Það má alveg gera lágmarkskröfur, eins og voru jú gerðar hér áður fyrr (fyrir innrás „facebook“) og Ómar bendir réttilega á.
Alfreð K, 26.11.2017 kl. 03:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.