1.12.2017 | 08:17
Líklega skásti leikurinn í stöðunni.
Katrín Jakobsdóttir er bráðskörp kjörþokkakona og snjall stjórnmálamaður, sem hefur lengi notið álits og fylgis langt út fyrir raðir flokksins.
Hún sýndi hárrétt stöðumat þegar hún ákvað að fara ekki í framboð til embættis forseta Íslands þótt hún hefði á þeim tímapunkti yfirburða fylgi í skoðanakönnunum.
Hún hefði getað gengt því með sóma, en taldi sig geta gert meira gagn á öðrum vettvangi og hafði liklega rétt fyrir sér.
Hún sýndi líka hárrétt stöðumat þegar hún sóttist eftir og fékk umboð forseta Íslands til stjórnarmyndunar þeirra fjögurra flokka, sem voru í stjórnarandstöðu eftir kosningarnar í fyrra.
Þegar stjórn missir meirihluta sinn og stjórnarandstaðan nær meirihlutastöðu er eðlilegt að reyna að mynda miðju-vinstristjórn.
En þegar Framsóknarmenn töldu eins þingmanns meirihluta of knappan, var ljóst, að það þurfti að minnsta kosti tvo flokka með færri þingmenn en Framsókn til að koma í staðinn.
Miðflokkurinn kom ekki til greina og sex flokka stjórn var augljóslega miklu flóknari kostur en þriggja flokka stjórn.
Útilokað hefði verið að mynda þessa stjórn Katrínar án þess að hún væri í forsæti.
Þetta skildu Bjarni og Sigurður Ingi. Vg er með aðeins 9 þingmenn en Sjallar og Framsókn með 24 í nýjum stjórnarmeirihluta.
Það er oftast rétt að gefa nýrri stjórn tækifæri og frið til þess að sýna hvers hún er megnug.
Vegna hins mikla skoðanamunar á milli ysta hægri og ysta vinstri í íslenskum stjórnmálum er eðlilegt að í býsna mörgum málum sé ákveðið að setja þau í nefndir og gefa út hvítbækur.
Það getur virkað í báðar áttir, annað hvort að fundin sé lausn sem allir sætta sig við, eða að málin frestist og þeim verði í raun pakkað niður, stundum til ógagns og til þess að glata tækifærum.
Þetta á einkum við stjórnarskrármálið, því er nú ver og miður.
En vonandi geta Katrín, sem kalla má "lausnamiðaðan" stjórnmálamann, komið ásamt nýrri ríkisstjórn sem flestum góðum málum á góðan rekspöl.
Gleðst yfir nýrri ríkisstjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Mey skal að morgni lofa en veður að kvöldi."
Þorsteinn Briem, 1.12.2017 kl. 14:16
Ég hef lengi haft uppi þetta orðtak: "Mey skal að morgni lofa en fréttamann að kvöldi."
Ómar Ragnarsson, 1.12.2017 kl. 15:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.