18.12.2017 | 07:33
Bílaprófun: "Rafbíll litla mannsins", Tazzari Zero EM1.
Í nokkur ár var ég bílablaðamaður í hjáverkum hjá dagblaðinu Vísi og prófaði bíla. Tók aftur upp bílaprófunarþráðinn með Bandalagi íslenskra bílablaðamanna (BÍBB) fyrstu árin sem bílar ársins voru valdir.
Hér kemur því eitt stykki bílaprófun eftir nokkurt hlé.
Forsagan er sú að þegar ör-rafbíllinn Renault Twizy kom á markað fyrir um fimm árum, var hann langódýrasti og minnsti fjöldaframleiddi rafbíllinn á markaðnum.
Það minnti mig á gamalt áhugamál, sem birtist í því, að fyrsti bíllinn minn 1959 var þá minnsti, ódýrasti, sparneytnasti og umhverismildasti bíll landsins.
Á ráðstefnu um rafbíla, sem ég tók þátt í 2014 þar sem bæði þáverandi forsætisráðherra og forseti Íslands voru þátttakendur, álpaðist ég til að lýsa því yfir, að líkt og í upphafi, árið 1959, þegar fyrsti bílinn minn var "bíll litla mannsins", minnsti, einfaldasti og umhverfismildasta bíll landsins, stefndi ég að því að komast á "rafbíl litla mannsins", Renault Twizy, eða Renault Títlu eins og ég kallaði hann.
Þetta mistókst. Renault umboðið hafði ekki áhuga og ég hafði ekki efni á þeirri fjárfestingu, sem í boði var.
Þótt Renault Twizy seldist vel í fyrstu, í tugum þúsundum eintaka, fjaraði undan sölunni. Ástæðan var í meginatriðum sú, að hann var óvenulegur í útliti eins og sjá má á myndum af honum, ökumaðurinn einn frammi í og farþeginn aðkrepptur fyrir aftan hann.
Hliðarnar eru opnar og þarf að panta aukalega á hann dyr og hitun í framrúðu. Loftmótstöðustuðullinn er fáránlega hár, 0,68, meira eða tvöfalt hærri en á venjulegum fólksbíl. Hámarkshraðinn er því aðeins 80 km/klst og drægnin við hraðan akstur í borgarumferð í svölu veðri fer að sögn framleiðanda niður í 50 km/klst og líklega enn minna en það við íslenskar raunaðstæður.
Bílablaðamenn erlendir hældu bílnum fyrir einstaka lipurð, aðeins 1,23 á breidd og 2,32 á lengd, og að hann væri sérstaklega skemmtilegur í akstri með alveg nýja akstursupplifun. En þar með var það nokkurn veginn upp talið. Eigin þyngd aðeins rúmlega 550 kíló, einn þriðji af þyngd flestra rafbíla.
Fyrir þremur árum kynnti ég þýska rafbílinn Colibri hér á síðunni, sem er af svipaðri stærð og Twizy, en þó ekki með suma ókosti Títlunnar.
Hann er álíka mjór og Twizy, með lága loftmótstöðu, 120 km/klst hámarkshraða í krafti sjálfskiptingar, og ökumaðurinn og farþeginn fyrir aftan hann sitja ekki ofan á rafhlöðunum, heldur er rafhlöðunum raðað í kringum þá og farið út og inn í bílinn í gegnum vænghurð með því að stíga niður í hann og upp úr honum eins og baðkari. Frábær hugmynd og sú eina sem virkar til að nýta rafaflið til fulls.
En ekkert nýtt hefur frést síðan af Colibri.
Niðurstaða: Það þarf sennilega tvær kynslóðir til að meðtaka bíla með þessu lagi, þar sem flöturinn sem þarf að kljúfa loftið á ferð er sem minnstur og farþeginn situr fyrir aftan ökumann.
Afleiðing: Til þess að hægt sé að ná markaði fyrir fjöldaframleiddan "rafbíl litla mannsins" verður hann að vera með því lagi, að þeir tveir, sem eru um borð, sitji hlið við hlið á þann hátt, að þeir upplifi aksturinn algerlega á sama hátt og þeir væru í bíl, sem væri heilum metra lengri.
Ítalski rafbíllinn Tazzari er einmitt með þessu lagi, ekki ósvipaður Smart, jafn breiður, álíka langur (stuttur) og 14 sm lægri en Smart.
Þetta síðasta er mikilvægt, því að Tazzari liggur afar vel í kröppum beygjum eins og sportbíll á sínum breiðu dekkjum, 175/55-15. (Twizy er með 135/80-12).
Rýmið fyrir tvo í Tazzari er álíka mikið og í Suzuki Jimny og farangursrýmið aftast er álíka stórt (lítið) og í Jimny, rúmlega 100 lítrar.
Viðbrögð flestra, sem setjast inn í þennan bíl eru svipuð: Vaá! Þetta er ótrúlegt, alveg eins og í venjulegum bíl!! Og ekki minnkar undrunin ef bílnum er ekið frísklega og leikið sér með lipurð hans.
Sætin eru ágæt og litirnir og hönnun innarýmis lífleg, en reynsla mín af þeim tveimur atvikum á ökuferli mínum þegar ekið var aftan á kyrrstæðan bíl, sem ég sat í, bendir til þess að höfuðpúðarnir í Tazzari séu full fjarri hnakka þeirra, sem sitja í sætunum.
Æskilegt hefði verið að hafa bílinn með skuthurð og möguleikum til að halla sætunum aftir, en á það er að líta að Tazzari er ætlaður til stuttra ferða um borgir og bæi og þess vegna ekki sama þörf á slíkum þægindum og ella.
Stjórntækin liggja ágætlega við ökumanni, og stýrið skemmtilega snöggt, aðeins 2,7 hringir borð í borð, en ég hefði kosið, að "mælaborðið" væri ekki í miðjunni, eins og það er, heldur væri mælum, hnöppum og ljósum raðað öðruvisi og sem mest fyrir framan stýrið eða á því sjálfu í sjónlínunni beint fram.
Tazzari er einstakur meðal nútíma bíla að því leyti, að ystu hornin að framan sjást mjög vel úr sætunum, og vegna þess hve framendi bílsins er einstaklega stuttur er útsýnið sérstaklega gott.
Enn einstakara er útsýnið aftur úr bílnum, því að afturendinn er aðeins smá sylla fyrir aftan hið stutta tveggja manna farþegarými.
Það virkar dálítið spaugilegt að bíllinn sé búinn bakkmyndavél,- áreiðanlega sá bíll í bílaflotanum þar sem minnst þörf er fyrir slíkt.
Þetta er draumabíll í þrengslum og í leit að ótrúlega litlum stæðum til að smokra sér inn í. Hver ferð á svona bíl er skemmtun. Dæmi má sjá á mynd hér fyrir neðan, tekin við Útvarpshúsið.
Tazzari elskar ósiði Íslendinga við að leggja þannig bílum sínum í stæði, að eyðileggja minnst eitt stæði yfir öðrum. Ökumaður rauðu Toyotunnar átti ekki von á því að til væru svo stuttir bílar, að ef þeir væru tveir á ferð, gætu þeir breytt stæði fyrir einn í stæði fyrir þrjá!
Í þessari bílaprófun hefur bílnum verið ekið rúma 200 kílómetra á einum mánuði, og drægni hans við vetraraðstæðurnar, sem ríkt hafa, hefur verið 80-90 kílómetrar, sem verður að teljast vel viðunandi þegar haft er í huga að meðalakstur einkabíla í innanborgarakstri er rúmlega 30 kílómetrar.
Framleiðandinn gefur upp 140 kílómetra drægni á jafnsléttu á 50 km/klst hraða, en drægnin fellur talsvert við það að hraðinn aukist, brekkunum fjölgi og hröðun og hemlun borgarumferðar verða meiri, enda ekki víst að loftmótstöðustuðullinn sé alveg nógu góður.
Að sumarlagi má búast við drægni í kringum 100-105 kílómetra ef ökumaðurinn er meðvitaður um sparnaðaraðferðirnar. Drægnin eykst um 1 prósent fyrir hvert útihitastig.
Bíllinn er búinn búnaði til að safna og endurheimta raforku þegar inngjöfin er tekin af, til dæmis niður brekkur, og eins og á öllum rafbílum, kennir þess bíll manni alveg nýja og skemmtilega takta, til dæmis við að spara orkuna og laða fram sem mesta drægni.
Það getur ökumaðurinn gert með því að velja sparneytnustu stillinguna af fjórum, en þessi sparnaðarstilling sér til dæmis um að bíllinn fari ekki hraðar en 62 Km/klst, ekki einu sinni niður brekkur!
Það er eins og kvikindið segi við mann: Það tilheyrir ekki sparnaðarstillingu að auka loftmótstöðuna, - nú skaltu safna orku!
Ef maður vill fara hraðar niður brekku, stillir maður á "rain" eða "standard."
Og á jafnsléttu verður að stilla á "standard" eða "rain" eða "pace", en sú síðarnefnda gefur mestan kraft.
Myndin er tekin á ferð, og sést vinstra megin, að orkueyðslan er miðlungsmikil, en litast appelsínugul og síðar rauð ef meira er "gefið inn".
Til hægri sjást tveir grænir kassar, en fjórir, sem voru grænir fyrir ofan á fullhlaðinni rafhlöðu, eru horfnir.
Við vetraraðstæður er þá þriðjungur eftir af drægninni, ca 25-30 kílómetrar, en mælt er gegn því að fara neðar, niður í appelsínugulu kassana, því að þá dvínar orkan og sé of oft gengið nærri rafhlöðunni, getur það dregið úr getu hennar til frambúðar.
Neðst til vinstri sést grænn takki, sem ýtt er á til þess að aka áfram, en hægra megin er takki sem ýtt er á til að bakka.
Þar fyrir neðan eru stillingar á miðstöð og framrúðum og stór, rauður "öryggishnappur" sem verður að kveikja á fyrst áður en farið er af stað.
Hreyfillinn er aðeins 20 hestöfl (15 kw) en það nægir alveg til að halda borgarhraða, koma bílnum í meira en 90 kílómetra hraða ef á þarf að halda og að halda í við umferðina upp flestar brekkur, svo sem Ártúnsbrekkuna.
Þó er því ekki að leyna, að miðað við snaggaralegar hreyfingar, sem bíllinn býður upp á, væri gaman að hafa svona fimm til tíu hrossum meira afl til umráða.
Í mælaborðinu má sjá til hægri stöðuna á rafhlöðunum, en til vinstri orkueyðsluna og spila aksturinn eftir því.
Vegna þess að sprengihreyflar í bílum knúnum ELDSneyti framleiða mikinn hita, kostar notkun miðstöðvar í slíkum bílum litla umframorku.
Öðru máli gegnir um rafhreyfla, þar sem rafstraumurinn framleiðir afar lítinn hita.
Afleiðingin er að orkueyðsla rafbíla eykst mikið við það að hafa miðstöðina á og í Tazzari er miðstöðin léleg að vetrarlagi en alveg viðunandi á öðrum árstímum. Í köldu veðri verður að auka við loftræstingu og hamla gegn móðumyndun á gluggum með því að setja aðeins rifu á hliðarrúðurnar.
Hægt er að fá afar litla bensínknúna miðstöð aukalega í Tazzari, en það er auðvitað í mótsögn við heitið Zero sem þýðir enginn útblástur.
Betur líst mér á þá hugmynd Gísla Sigurgeirssonar að búa til mun sparneytnari miðstöð úr brauðrist með lítilli sambyggðri viftu.
Eiginþyngd Tazzari Zero er uppgefin 540 kíló, en til að spara kostnað, hefur hluti áls í bílnum verið minnkaður frá því sem var í upphafi.
Tazzari-verksmiðjan sérhæfir sig í álsmíði en samt eru önnur efni mun ódýrari.
Zero EM1 er nú sagður vera 660 kíló. Á skoðunarvottorði stendur 78o kiló, sem ekki er víst að sé alveg rétt. En þessi bíll er samt næstum helmingi léttari en léttasti rafbílnum, sem nú er hér á markaði, Volkswagen e-Up, sem er rúmlega 1200 kíló. (BMW e-1 er ekki léttasti bíllinn eins og auglýst er).
Þyngd og loftmótstaða ráða mestu um orkueyðsluna. Rafhlöðurnar í Tazzari eru 15 kílóvattstundir, sem er býsna vel í lagt fyrir ekki stærri bíl. Til samanburðar má nefna að lengi vel voru rafhlöðurnar í Nissan Leaf 24 kwst, og rafhlöðurnar í e-Up! eru aðeins minni en það.
Rafhlöðurnar í Renault Twizy eru hins vegar aðeins um 7 kwst og í Mitsubishi i-MiEV, sem er dottinn út af markaðnum hér, eru þær um 17 kwst. Sá bíll er um 1100 kíló að þyngd en afar straumlínulagaður.
Tazzari er handsmíðaður og þess vegna munar ekki miklu á verði hans og ódýrasta bílnum sem er hér á markaði, Volkswagen e-Up!, sem kostar um þrjár milljónir.
Erlendis er hægt að fá Tazzari í tveimur ódýrari gerðum og er sú ódýrasta miðuð við 45 km hámarkshraða og að unglingar geti ekið honum með minni réttindi en fullt ökupróf.
Hingað til lands hafa eigendur Álftaborgar flutt inn tvo bíla til reynslu, og hef ég nú fengið annan þeirra til umráða með sérstökum leigusamningi.
Ég hafði áður óbeint farið langleiðina í að minnka persónulegt kolefnisspor mitt með fjárfestingu upp á 800 þúsund krónur í rafreiðhjóli og léttu Honda PCX vespuhjóli, og nam minnkun kolefnissporsins um 70 prósent á síðasta ári.
Nú hefur þriggja ára gamalt bjartsýnislegt loforð um "rafbíl litla mannsins" verið efnt í bili.
Ég reikna með minnkun kolefnisspors um 85%, en að 15 prósentin verði að mestu vegna starfs míns í kvikmyndagerð eða þegar við hjónin þurfum að ferðast á lengri leiðum með farangur.
Vespuhjólið hefur þegar tekið við nær öllum venjulegum ferðalögum mín eins út á land.
Tazzari er í Imola á Ítalíu, sem er sögurík borg, en heitið Imola kannski þekktara vegna kappakstursbrautarinnar og í tengslum við Enzio Ferrari og það fólk.
Þetta er í genunum og Tazzari er fjölskyldufyrirtæki, sem dregur nafnið beint af eigendunum. Ítalskt!
Þar á bæ og í Álftaborg hér heima vilja menn fylgjast eins vel með því sem er að gerast í rafbílamálum og kostur er og hér heima eru það feðgar, sem fóru til Imola til þess að ná sér í tvo rafbíla.
Hugmynd Tazzari um rafbíl á sem viðráðanlegustu verði fyrir almenning, sem kom fram 2009 er að mínu viti raunhæf og rétt.
Úr því að það telst "töff" að aka um á tveggja sæta sportbíl, ætti svona bíll að eiga möguleika. Afar skemmtilegur í akstri og uppruninn í borg sportbíla og kappaksturs speglast í afar sportlegri uppsetningu undirvagns og fjöðrunar. Svínliggur í beygjum.
Líkur go-cart í akstri.
Fjöðrunin er fyrir bragðið frekar "grunn" með stuttri mjúkri fjöðrunarvegalengd, en "botnar" síðan ansi fljótt á ósléttum múrsteinagötum Ítalíu, sem ekki finnast hér á landi.
Bíllinn hefur verið árekstraprófaður erlendis vegna aksturs á hraðbrautum og með því að setja á hann örlítið stærri dekk verður veghæðin góð, 17,5 sm, og spyrnan ekki síðri, því að hreyfillinn er að aftan og bíllinn með 50/50 þyngdarhlutfall tómur, en um 40/60 fullhlaðinn. Upp brekkur og í ófærð drífur hann því vel.
Hægt er að fá hraðhleðslubúnað með Tazzeri, en notin miðast hins vegar í meginatriðum við það að hlaða hann yfir nætur við heimili eigendanna, enda sé bíllinn eingöngu notaður í borgarumferð.
Hægt er að stinga honum í samband við hvaða húsinnstungu sem er, en full hleðsla frá lægstu stöðu tekur 14, 9 eða 6 tíma, eftir því hvort öryggin eru 10, 16 eða 25 ampera.
Smæð bílsins að utanmál skapar marga möguleika í þessum efnum.
Lengd: 2,88 m - breidd: 1,56 - hæð: 1,42. Hjólahaf: 1,80.
Nú vantar bara að stórframleiðandi þrói hugmyndina áfram, svo að hægt sé að hrinda virðingarverðri tilraun Renault með Twizy í árangursríka framkvæmd, byggða á hugmynd Tazzari.
Tazzari er í samningaviðræðum við Kínverja um samvinnu, sem gæti skilað enn hagstæðara verði en nú er boðið.
Rafjeppinn IMx getur séð um sig sjálfur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Alltaf þegar ég sé smábíla á ferðinni Ómar ,dettur mér þú í hug.
Ragna Birgisdóttir, 18.12.2017 kl. 09:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.