"Lauf" fyrir lauflétt?

Fyrir tveimur rakst ég fyrir tilviljun á pínulítið hjólaverkstæði við Ingólfsstræti, þar sem smíðuð voru svo lauflétt reiðhjól, að undravert var. Reiðhjólið Tru Grit

Þyngd reiðhjóla, jafnvel þótt rafknúin séu, skiptir miklu máli fyrir það hve létt það veitist áð hjóla á þeim. 

Allar uppfinningar sem snerta þetta, geta orðið mikil tekjulind, því að vaxandi markaður er á þessu sviði samgangna víða um lönd.

Hjólið á Ingólfsstrætinu var aðeins örfá kíló með notkun á koltrefjum. 

Nafnið True Grit tengir svona hjól við John Wayne (Jón væna), sem lék í frægri kvikmynd með þessu nafni. Reiðhjól á Vatnajökli

Og hér set ég inn mynd af reiðhjólum á breiðum dekkjum, sem notuð voru til að hjóla yfir sjálfan Vatnajökul og eru stödd langt uppi á jöklinum á myndinni. 

Létting hjólanna hefur líka mikið að segja varðandi rafknúin reiðhjól.  

Til þess að nota megi rafknúin reiðhjól á hjóla- og gangstígum má rafmótorinn aðeins vera 250 wött, eða sem svarar 0,35 hestöflum. 

Þá munar um hver fimm kílóin, að ekki sé talað um tíu kíló, þótt það sé aðeins 5-10 prósent af samanlagðri þyngt manns og hjóls. 

Mig minnir að þarna á þessu litla verkstæði hafi ég séð frábæran framgaffal, svo miklu léttari og einfaldari en ég hafði áður séð. 

Því einfaldari sem reiðhjól eru, því léttari geta þau orðið. 

Og ég hef undrast að samanbrjótanleg hjól skuli ekki vera fleiri hér á landi. 

Ég nefni sem dæmi, að eins og er, verð ég að hlaða litla Tazzari rafbílinn, sem ég er á, úti í bæ af því að enn er ekki komin aðstaða til þess þar sem ég á heima, þótt búið sé að samþykkja lausn á því. Náttfari við Engimýri

Maður sem á bara meðalstóran rafbíl getur haft samanbrjótanlegt rafhjól með sér til að fara með bílinn til að skilja hann einhvers staðar eftir, og farið síðan leiðar sinnar á hjólinu. 

Og síðan sækja bílinn á hjólinu og skutla því um borð. 

En smekkur fólks og tegund notanna af þeim er mjög misjafn og persónubundinn. 

Ég hef verið mjög ánægður með mitt hjól vegna þess að það er með góða möguleika fyrir bögglabera og töskur og fyrir þriðju töskuna á stýrinu. elmoto_te2_tiefeinsteiger-812x580

Auk þess hægt að bæta við tveimur viðbótar rafhlöðum, svo að í boði geta verið 0,93 kwst í stað 3,13 kwst. 

Gallinn er hins vegar sá að þessi viðbót vegur um sex kíló, og hjólið strípað vegur 28 kíló. 

En það kom sér vel í umferðarslysi í hitteðfyrra þar sem hjólið þoldi harkalega ákeyrslu bíls undra vel, nógu vel til þess að það væri hægt að gera við það. Sörli. Bakkasel.

þegar hjólað var á rafknúnu reiðhjóli frá Akureyri til Reykjavíkur í hitteðfyrra kom í ljós að þetta hjól mitt, sem ég kallaði Náttfara, var heldur þungt, og mótorinn í gjörðinni var aðeins með einn gír, svo að reynsluferðin frá Akureyri endaði ofarlega í Bakkaselsbrekkunni.   

Það varð því að reyna önnur ráð og spara þyngdina, finna sem léttast og nettast venjulegt reiðhjól og með möguleika fyrir sérstaklega ásettan gíraðan mótor til að komast upp bröttustu brekkurnar, því að forsendan fyrir því að sanna hve lítil orkueyðslan væri, var að fótaaflið yrði ekkert notað og 250 wöttin dygðu ein. 

Einnig að koma sjö rafhlöðum sem vógu 21 kíló og skiluðu hjólinu 159 kílómetra á einni hleðslu. 

Útkoman varð nett og létt 21 kílóa venjulegt "gamaldags reiðhjól, "Sörli" sem leysti dæmið, og neðsta myndinr er af, efst í Bakkaselsbrekkunni. 

Ég hef áður minnst á það að breyta ætti reglunum um þessi hjól lítillega og leyfa 350 watta mótor á þeim eins og er á tvöfalt þyngri vespurafhjólum, sem nota má án trygginga og skoðana á hjólastígum og gangstígum/stéttum. 

Sem dæmi um vel heppnað rafhjól með reiðhjólalagi nefni ég Elmoto t-2 "Tief einsteiger", sem þýðir, að það þarf ekki að klofa yfir stellið til að komast á bak, heldur lýsir þýska nafnið því, að hægt er að "stíga neðarlega inn í það eins og á vespulaga hjólum.

Næstneðsta myndin er af slíku hjóli. Það er að vísu einu þrepi ofar en Náttfari og Söli, nær 45 km/klst hraða, er með átta sinnum aflmeiri mótor og þarf skráningu og tryggingu.  

Þrátt fyrir allar framfarir er gamla reiðhjólastellið (grindin) þar form sem er léttast, ekki síst þegar kostir vespulagsins er notað. 

Kostirnir við vespulögunina sést, ef vel er að gætt, á myndinni af Elmoto hjólinu: Hlíf til að bægja vatnsaustri og vindi frá fótunum og möguleikinn til að setja farangurstöskur á bögglaberann og jafnvel á stýrið sjálft.  

 


mbl.is Íslensk hjól í bandarískar búðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þessi hjólreiðabragur (frá í nótt og í morgun) var nú saminn til að fylla upp í hér, (ekki við næstu grein eldri).

Ég berst á fáki fráum

fram um veg,

mót hraðabungum háum

hendist ég,

en enga kyssi kinn

á konu, væni minn,

því það er bannað þennan mánuðinn.

 

 

Og fljótt, í 5. gíri,

á fleygiferð

ég stjórn þó hef á stýri,

en stundum verð

að hægja á mér um sinn,

því sjálfur meistarinn

hann Hjálmar er hér æðsti dómarinn.

 

 

Og mjög er þá í klípu,

því karlinn sá

af dogmatískri týpu

til mín sá

í gær, á götuhorni´

að geysast fram úr norn,

en standard hans er stífur, heldur forn:

 

 

"Á 20 og hálfum

þú hjóla mátt,

já, öllum heims í álfum

við ætlum brátt

að ganga af dauðum hér

þeim dárans bílaher,

og dýrlingur þá Dagur lýstur er!"

 

Gleðileg jól, ágæti Ómar, og allt þitt heimafólk!

Jón Valur Jensson, 25.12.2017 kl. 09:37

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk fyrir þetta og bestu óskir til þín og þinna. 

Þetta minnir mig á vísur sem ég söng 1960, byggðar að hluta til á lífsreynslu foreldra minna í fyrstu ökuferð þeirra út úr bænum,  og hljóðuðu svona: 

Ég berst á Fordi fráum

fram um veg

og fram úr Fiat smáum 

farta ég

og ég gef druslunni´inn!

Og ég gef druslunni" inn! 

Á harða, harða spretti hendist áfram 

fíni Fordinn minn. 

En í mér glamra tennur og um mig hrollur fer, 

er annað afturhjólið rennur

á undan mér! 

Að finna fjörtök stinn! 

Að finna fjörtök stinn, 

er hringsnýst, veltur, endastingst 

og klessukeyrist

Fordinn minn! 

Uh! Uh! 

Fordinn minn, uh! uh! 

Hvar er flotta, gamla fautakerrann 

Fordinn minn?

Hvar er skrauthúddið og hvar er skítbrettið?

Og því er skollans vélin komin upp i framsætið?

Ég er viss um að hún var þar ekki´í gær. 

Hvar eru þurrkurnar og heilu rúðurnar?

Og því er hjartað á mér hlaupið oní buxurnar?

Hvar er úrið mitt og hvar er þetta´og hitt

Hvers vegna sit ég hér á kafi oní forarpytt?

Ég er viss um að ég var hér ekki´í gær. 

Ómar Ragnarsson, 25.12.2017 kl. 16:10

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, gaman að þessu, Ómar, heilar þakkir fyrir það.

Þú hefur snemma kunnað að fara með rím og stuðla.

Jón Valur Jensson, 25.12.2017 kl. 23:07

4 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Þið eruð barasta ágætir, báðir tveir. Hvor á sinn hátt. 

 Hver er munurinn á  sjötíu kílóa manni og hundrað kílóa, í orkusparnaði, á rafhjóli?

 Góðar stundir, með jólakveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 26.12.2017 kl. 03:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband