4.1.2018 | 08:58
"...einn grænasti málmur í heimi..."
Í tengdri frétt á mbl.is er greint frá því að ein af forsendum hópmálsókn gegn United Silicon í Helguvík sé sú, að fyrirtækið hafi veitt villandi og rangar upplýsingar um starfsemina þegar það leitaði hófanna með að reisa verksmiðjuna.
Þetta er ekki eina dæmið um skipulega afvegaleiðingu og villandi auglýsingar á þessu sviði.
Yfir hátíðirnar horfðu og hlýddu landsmenn nær stanslaust á stórar og dýrar sjónvarpsauglýsingar álveranna þar sem beinskeyttur áróður um ágæti stóriðjunnar var spyrtur við mun styttri jóla- og nýársóskir.
Það er ekki beinlínis smekklegt að nota hreinræktaðan áróður um eigið ágæti undir yfirskini jóla- og nýjárskveðja.
Hvað myndu menn segja um auglýsingu bílaumboðs sem auglýsti:
"Við hjá Kötlu seljum einhverja allra bestu, hagkvæmustu, umhverfismildustu og best hönnuðu bíla, sem framleiddir eru í heiminum. Gleðileg jól."
Í auglýsingu Norðuráls var hamrað á síbylju um að álverið framleiddi "...einn grænasta málm í heimi."
Víst er ál umhverfismildara en stál, en takið eftir orðalaginu, "...einn grænasta málm í heimi.." en ekki "grænasta málm í heimi" eins og fyrrum heyrðist oft sagt.
Í þessu eina orði er fólginn ákveðinn varnagli, því að enda þótt í myndum af uppruna orkunnar, sem Norðurál notar í áróðursauglýsingu sinni, séu að mestu notaðar myndir af rennandi tæru vatni, er stór hluti orkunotkunar fyrirtækisins fólginn í kaupum á orku frá þeim gufuaflsvirkjunum á Íslandi, sem eru hvað fjærst því að flokkast undir sjálfbæra þróun og nýtingu á "hreinum og endurnýjanlegum orkugjöfum."
Þvert á móti var vaðið af stað í upphafi við hreina rányrkju þar sem orka virkjunarsvæðanna verður kláruð á nokkrum áratugum, er þegar byrjuð að dvína eins og sést bæði á tölum um afköst svæðanna og það, að þau hafa fallið niður um allt að 18 sentimetrum, svo að sjór er byrjaður að flæða inn í Staðarhverfi fyrir vestan Grindavík.
Í Noregi eru álver, sem nota eingöngu algerlega hreina og endurnýjanlega vatnsorku bergvatnsáa, sem ekki fylla heilu dalina upp af drullu eins og til dæmis Kárahnjúkavirkjun.
Einnig má huga að notkun orðsins "málmur" þegar talað er um "einn grænasta málm í heimi."
Með því er til dæmis gefið í skyn að ál sé alfa og omega nýtingar léttra, sterkra og umhverfismildra efna, til dæmis í flugvélaiðnaði.
En í þein iðnaði og víðar hefur álið fengið skæðan keppinaut þar sem eru svonefnd "koltrefjaefni" (composite) sem gefa mun meiri og varanlegri styrk til langframa en ál.
Notkun koltrefjaefna fer hraðvaxandi í flugvélum, og besta dæmið verða nýjar þotur, þar sem sterkasta vígi álsins í flugvélasmíði fram að þessu, vængirnir, verða úr slíkum efnum en ekki úr áli.
![]() |
Hópmálsókn undirbúin gegn United Silicon |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Því má við bæta að á Íslandi lætur áliðnaðurinn eins og umhverfisáhrifin felist eingöngu í bræðslu á súráli og "gleymir" áhrifum af framleiðslu súrálsins og gífurlegum umhverfisspjöllum sem fylgja báxítvinnslunni. Að ógleymdu ofbeldinu og valdníðslunni sem fólkið er beitt sem er svo óheppið að byggja námusvæðin. Þar er ekki verið að splæsa í heilsíðuauglýsingar og óska náunganum árs og friðar heldur kné látið fylgja kviði.
Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 4.1.2018 kl. 10:57
Það er vissulega rétt hjá þér Ómar, að koltrefjar eru á allan hátt mun betra efni til flugvélasmíði en ál. En hefur þú kynnt þér hvernig koltrefjar eru unnar, svo þær séu nothæfar til smíði?
Ég er ekki viss um að umhverfisáhrif framleiðslu hluta með koltrefjum séu betri en ef notast er við ál. Þó koltrefjarnar sjálfar séu nokkuð umhverfisvænar, er ekki sama sagt um það sem þarf til að gera þær byggingarhæfar. Til þess er notast við vökva sem framleiddir eru úr olíum (plast) ásamt ýmsum vafasömum efnum. Þau efni er stórhættuleg umhverfinu, bæði við framleiðslu þeirra og notkun.
Orkunotkun við framleiðslu koltrefja er nokkur. Hver fermeter að nýtanlegri koltrefjaplötu í flugvélasmíði þarfnast meiri orku til framleiðslu koltrefjanna einna, en sami fermeter af áli.
Þá eru koltrefjar, eftir að þær hafa verið mótaðar, ekki endurnýjanlegar, svona eins og álið.
Við bruna á koltrefjum losnar mikið af hættulegum gastegundum.
Koltrefjar eru hins vegar framtíðin, þrátt fyrir galla þess. Það er nefnilega ekki horft til þess þegar þróun á sér stað, heldur ræður þar alfarið hagræðing í framleiðslunni. Jafnvel þó koltrefjar séu á pari við asbest, í mengunarlegu tilliti og mun óvistvænni fyrir vistkerfið þegar allt er upp talið og jafnvel þó koltrefjar séu mun dýrari í framleiðslu en ál, mun þetta byggingarefni verða ofaná í framtíðinni, til bygginga farartækja, á landi, legi og í lofti. Því mun ráða hversu auðvelt er að meðhöndla og móta þetta efni.
Og jörðin verður fátækari.
Gunnar Heiðarsson, 4.1.2018 kl. 20:21
Það er rétt að um koltrefjarnar gildir svipað og um svo margt, að það er erfitt að afla sér þekkingar um allar hliðar framleiðslunnar og notkunarinnar á þessu efni.
Og það tekur oft fáránlega langan tíma til að laða fram allt sem vita þarf.
Walt Disney var til dæmis í skýjunum yfir tilkomu plastsins, svo hrifinn, að hann lét gera stóran skemmtigarð þar sem allt var úr plasti.
Meira en hálfri öld seinna renna svo upp fyrir mönnum svo herfileg áhrif af skefjalausri notkun á þessum efnum, að fólk verður orðlaust.
Ómar Ragnarsson, 4.1.2018 kl. 21:06
Blessaður nafni og takk fyrir þinn góða pistil.
Gunnar, þróun koltrefja er eins og hún er. Mjög líklegt að vankantar smíðist af með frekari notkun.
En nafni minn var alls ekki að fjalla um það ágæta efni, heldur falsaðar auglýsingar áliðnarins.
Og benti á að stundum er hin meinta hreina orka, ákaflega skítug, og kom með dæmi um að svo þyrfti alls ekki að vera.
Það er nefnilega þannig að þegar nafni minn verður of gamall, og arfleið hans verður kerfisvædd með einhverri styttu, að þá heldur enginn annar uppi vörn fyrir hina ósnertu náttúru. hún er aðeins ósnert þegar ekki er hagkvæmt að virkja hana, eða kostnaður við slaginn er ekki talinn þess virði miðað við ávinning af virkjun.
Nafni minn er óháður svona rökum sígræðginnar, og ef hann verður langlífur, til dæmis hundrað og tíu ára, þá á náttúran vörn í honum.
En hann þarf samt hjálp, og við eigum að hjálpa honum.
Þar með hjálpum við þeim arfi sem börnin okkar erfa.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 4.1.2018 kl. 22:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.