Vetnið er líka á leiðinni.

Rafbílabyltingin, sem nú er að banka á dyrnar með tilkomu nýrra tvöfalt öflugri rafhlaðna og bættri hraðhleðslutækni, var hindruð og stöðvuð að mestu í 20 ár af öflugustu jarðefnaeldsneytisfyrirtækjum heims sem hafa byggt stöðu sína á beitingu yfirburða aðstöðu í krafti fjármagns og stærðar og ítaka hjá helstu valdastofnunum Bandaríkjanna. 

Þessi öfl berjast á hæl og hnakka fyrir því að snúa hverri þeirri tækniþróun til baka, sem getur komið í veg fyrir að hægt sé "að endurvekja mátt og dýrð Ameríku". 

En þessi "máttur og dýrð" felst að stórum hluta í því að beisla óánægju þeirra stétta og svæða, þar sem ný tækni og máttur menntunar verða til þess að fornir atvinnuhættir leggjast af. 

Þessi gagnbylting hefur að vísu út utan Bandaríkjanna og í einstökum Bandaríkjum, en fær nú nýja útrás í því að helsta ráðgjafalið og aðstoðarmannalið nýs Bandaríkjaforseta ræður lögum og lofum í stefnu hans, sem meðal annars felst í því að stöðva tækniframfarir á ýmsum sviðum, svo sem við smíði smærri farþegaþotna, og gefa veiðileyfi á örvæntingarfulla olíuleit við strendur Norður-Ameríku allt norður í Íshafið. 

Nissan Leaf er gott dæmi um það þegar stórframleiðandi veðjar á nýjan tæknihest og nær svo góðum árangri að keppinautarnir neyðast til að fylgja í kjölfarið. 

Þegar Renault Zoe kom fram með 40 kwst rafhlöðu, ógnaði það Leaf með sína 24 kwst rafhlöðu. 

En nú svarar Leaf með 60 kwst rafhlöðu til að draga Tesla uppi og fara fram úr að nýju vegna þess hve Leaf og fleiri svipaðir á leiðinni eru miklu ódýrari en Tesla. 

Tesla er dæmi um tæknilegt banarískt frumkvæði, sem hefur verið á ystu nöf með að halda velli en bjargast fyrir kærkomna samvinnu við gróin fyrirtæki. 

Nú hafa Toyota og Hyundai veðjað á notkun vetnis sem orkubera, og við hornið er vetnisbíll hjá Mercedes-Benz. Þetta eru dýrir bílar eins og oft vill verða um nýjungar. 

Vegna þess að um byrjun er að ræða hvað snertir vetnisvæðingu og að allt innviðakerfi varðandi hleðslu vantar, verður róður þessara fyrirtækja sennilega þungur til að byrja með, en möguleikarnir felast í langtum meiri drægni en hjá rafbílum og miklu hraðari hraðhleðslu, allt niður í 2 mínútur. 

Sjálfkeyrandi bílar mun ógna störfum margra, sem lifa á ástandi, sem er mannaflafrekara. 

En ef illa er staðið að því að endurmennta það fólk og veita nýja atvinnu, sem verða atvinnulega fyrir barðinu á tækniframförum, mun það skapa tækifæri fyrir skrumara til þess að beisla reiði þeirra sem kjósenda og komast til valda í krafti svipaðs fyrirbæris og þess að "endurvekja mátt og dýrð Ameríku."

 


mbl.is Baráttan um sjálfkeyrandi bíla harðnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Verður þú ekki á moti öllum virkjunum sem þarf til að standa undir þessum nýju orkugjöfum?

Jón Steinar Ragnarsson, 8.1.2018 kl. 11:41

2 identicon

Gallinn við vetni sem orkubera er hversu orkufrek framleiðsla þess er, það verður því miður alltof mikil rýrnun á raforku við það að hún sé notuð til að framkalla þau efnahvörf, sem þarf til að vinna vetni úr vatni.

Sorry Stína (IP-tala skráð) 8.1.2018 kl. 13:10

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Vetni hentar einmitt vel þeim sem hafa aðgang að endurnýjanlegum orkugjöfum eins og bráðnandi jöklum. En til þess þarf að virkja, eins og Jón Steinar bendir á. Japan hefur nú tekið alvöru langtímastefnu á vetnisvæðingu, svo að vænta má hraðrar framþróunar þeirra bíla. Þetta smellpassar á Ísland.

Ívar Pálsson, 8.1.2018 kl. 14:04

4 Smámynd: Halldór Jónsson

Þetta raus um að allir vilji sjálfkeyrandi bíla finnst mér furðulegt. Ég og áreiðanlega Ómar líka viljum fá að keyra sjálfir af því að við erum með bíladellu. Það er kannski þægilegt fyrir einhvern sem er búinn að smakka það að geta hringt á sjálfkeyrandi bíl eins og leigubíl. En ég myndi ekki kaupa mér sjálfkeyrandi bíl  nema maður geti stillt hann á sjálfan sig eftir vali. Flott að geta farið í gleðskap á bílnum og stillt hann svo á auto þegar maður fer heim og gefið lögguni langt nef.

Halldór Jónsson, 8.1.2018 kl. 14:42

5 Smámynd: Ívar Pálsson

Góð umfjöllun Financial Times um vetnisbílana og Japan.  https://www.ft.com/content/328df346-10cb-11e7-a88c-50ba212dce4d

Ívar Pálsson, 9.1.2018 kl. 00:21

6 Smámynd: Arnar Guðmundsson

Kosturinn við vetnið hlýtur að vera sá að það má nota sveiflugjarna orkuvirkjun eins og t.d. sjávarföll, vind og sól. Vetnið spillist ekki á fallaskiptum, sólleysi og logni.

Arnar Guðmundsson, 17.1.2018 kl. 22:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband