9.1.2018 | 00:30
Þögn um hagkvæmar breytingar einkabílaflotans. "Kútur" er krútt.
Einkahesturinn og síðar einkabíllinn hafa verið stórt atriði í ameríska draumnum og íslenska draumnum.
Draumurinn lifir góðu lífi enn og er mjög skiljanlegur hjá þjóð sem að stórum hluta tiltölulega nýrík en býr í landi með rysjótt veðurfar og fimm stigum kaldari meðalhita um hádaginn á sumrin en næstu nágrannaþjóðir í Evrópu.
Á hinn bóginn blasir við, að það þurfi ekki endilega 1500 kíló af stáli til að flytja 100 kíló af mannakjöti í daglegu snatti um götur borgarinnar.
Þaðan af síður að hver einkabíll þurfi að meðaltali að vera 4,6 metra langur og 1,80 á breidd. hvað þá að hann þurfi að vera talsvert lengri, breiðari og þyngri.
Fjölmargir 4-5 sæta bílar eru metra styttri eða 3,6 metrar.
Síðustu vikur hef ég notast við rafbíl með engum útblæstri og engum eldsneytiskostnaði, sem er minnsti rafbíll landsins, aðeins 2,88 metra langur og samt er nóg rými fyrir tvær manneskjur í honum, sem sitja hlið við hlið og hafa ekki hugmynd hve þetta er lítill bíll nema að standa fyrir utan hann og sjá, að án aftursætis sparast hátt í tveir metrar af götu eða bílastæðisrými miðað við bíl á stærð Skoda Octavia.
Um leið og tveir svona stuttir bílar eru komnir í umferð á götunum í stað tveggja langra, búa þeir til pláss fyrir einum bíl fleiri á sömu vegalengd af malbiki.
Þetta vita Japanir og ívilna stórum bílum, sem eru styttri en 3,40 metrar að lengd en taka þó 4-5 í sæti.
Ef þeir gerðu það ekki væru umferðarmálin þar í landi orðin algerlega óleysanleg.
Auk litla rafbílsins hef ég notað áfram,eins og síðustu tvö ár,létt ofursparneytið hraðskreitt vespuhjól eða þá rafreiðhjól, sem ná ennþá lengra í sparnaði á rými á götunum, nánast algerum á þann hátt, að meðan ein manneskja ferðast á hjóli um um gatnakerfið, losar hann sem svarar rými fyrir einn bíl í staðinn.
Miklubrautarreikningsdæmi: 100 þúsund bílar á dag, helmingur þeirra 3,60 eða styttri = 50 kílómetrar af malbiki, sem verður autt í stað þess að vera þakið af bílum.
Umferðarvandamálin næstu áratugi kalla á fjölbreyttar aðgerðir til þess að þjóna sem best hagsmunum sem flestra með sem mestri hagkvæmni.
Það kallar á útvíkkaða hugsun með tilliti til allra þeirra möguleika sem finnast til þess að sem flest fólk komist leiðar sinnar á sem stystum tíma.
Var að skoða á netinu nýjan indverskan bíl, sem heitir Bajaj Qute, og á að kosta aðeins 2 þúsund dollara.
Indverskir bílar koma æ sterkari inn. Síðasta gerðin af Suzuki Alto sem seldust ágætlega hér og hafa reynst vel, var framleidd á Indlandi.
Bajaj Qute er aðeins 400 kíló en tekur fjóra þægilega í sæti, þótt hann sé aðeins 2,75 m langur og og 1,31 á breidd.
Galdurinn felst í nýrri hönnunarhugsun fyrir innanbæjarsnattið, lítil hjól, samt 12 tommu felgjur, og nógu hátt þak til þess að fólk í aftursætinum geti setið ofan á afturhjólaskálunum og litlu vélinni, og að í framsætunu sé svo hátt frá gólfi upp í sætin, að það sparist helt fet í fótaplássi á lengdina.
Eins strokks vélar hafa mikla kosti þegar þyngd farartækjanna er lítil. Þær taka svo lítið pláss, að ókunnugir eiga erfitt með að finna þær á sumum vespuhjólunum og eru afar léttar og einstaklega sparneytnar.
Vélhjólaframleiðendur heimsins framleiða nú eins strokks vélar, sem eru allt upp í 500 sem afkasta allt upp í 55 hestöfl. Úrvalið er stórkostlegt.
Qute eða "Kútur" er með eins strokks 217 cc vél, sem er aðeins 13 hestöfl en eyðir líka aðeins 2,9 lítrum á hundraðið!
Hámarkshraðinn á Kúti er að vísu aðeins 70 km/klst en það þarf ekki meira í borgarsnattinu og takmarkaður hraði er ákveðið öryggisatriði, sem til dæmis er tekið tilliti til í evrópskri löggjöf um 45 km/klst hjól og 125 cc hjól, en þessi 125 cc löggjöf hefur hin vegar því miður ekki skilað sér hingað til lands.
Bajaj Qute er skilgreindur sem "light quadracycle" eða létt yfirbyggt vélhjól á fjórum hjólum.
Kolefnislosun er aðeins 60 g á kílómetrann nær tvöfalt lægri en á umhverfismildustu bílunum hér, sem eru knúnir jarðefnaeldsneyti.
Ný viðfangsefni og nýjar aðstæður kalla í nýja hugsun.
Ef fólk vill rafbíl sem er aðeins 2,69 m langur en samt með fullt hús af öryggisstjörnum frá NCAP og býður upp á 130 km hraða, 100 km drægni og víðáttubrjálæðisrými fyrir tvo í sætum, liggur Smart EV beint við.
En þá þarf líka að borga sjö sinnum hærra verð en fyrir Baja Kút.
Ekki á leið í pólitík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ítalir eru með kerfi, og held ég Frakkar líka, þar sem hægt er að fá ansi litla bíla með tvígengisvélum undir sama kerfi og vespur. Þarf eki ökuleykfi á þá allra minnstu.
Þeir kosta frekar lítið.
Japösnku kei-bílarnir eru í sama stíl, mjög litlir.
Væri að mörgu liti sniðugt hér - þó þessi farartæki þyrftu að vera bundin niður í roki. (Nema rafbílarnir, sem eru andskoti þungir.) Sé það í annda, eins og trampólínin, fjúkandi um allt.
Held hinsvegar að reglugerðirnar sem við höfum taki fyrir svoleiðis lagað. Það er enginn fáanlegur til að borga 2.5 milljónir fyrir bíl sem er minni en Chevy Spark.
Svo er öryggið annað mál - dvergfarartækin eru ágæt innan borgarmarka á Ítalíu og í Japan, en hér? Bara á háannatíma. Þeir yrðu kramdir.
Ásgrímur Hartmannsson, 9.1.2018 kl. 04:27
Tvígengisvélarnar eru alveg að hverfa á markaði smærri hjóla, því að vegna mengunarreglna fá þær ekki að njóta kostanna, sem fylgir því að sprengja tvisvar oftar en fjórgengisvélarnar.
Ómar Ragnarsson, 9.1.2018 kl. 19:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.