9.1.2018 | 09:22
Janúar - mánuður vonarinnar.
"Ekki koma í janúar." Það voru ráð mín til frægs belgísks sjónvarpsmanns, sem fer oft erfiðar svaðilferðir við þáttagerð sína víða um heim, og vildi endilega vera hér við upphaf þorra og sjá hvernig Íslendingar taka á móti þorranum.
Það þurfti nokkur samtöl til að fá Belgann til að færa ferðalagið aftur í seinni hluta þorra, því að hann þurfti að melta nokkrar staðreyndir:
Að meðaltali er dýpsta lágþrýstisvæði heims suðvestur af Íslandi í janúar á sama tíma og næst hæsta háþrýstisvæði jarðar er fyrir norðvestan landið yfir Grænlandsjökli.
Afleiðing: Mesta rokrassgat á byggðu bóli á þessum árstíma.
Janúar er að vísu ekki alveg dimmasti mánuður ársins, en það munar ekki miklu.
Þetta er að jafnaði mesti umhleypingamánuðurinn og mesti rok-og óveðramánuðurinn.
Líka mikill slysamánuður á sjó, landi og í lofti. Í janúar 1959 fórust 30 íslenskir sjómenn á Halamiðum og í janúar 1995 fórust 14 í snjóflóðinu í Súðavík.
En kannski er það þess vegna sem janúar er samt mikilvægur, með Sólarkaffi Ísfirðinga og vonina og vissuna um að enda þótt þorrinn sé illræmdastur gömlu mánaðanna, mun sól fara hækkandi, dagana lengja og óveðrum að fækka.
Fyrsta óveðrið sem ég man eftir var í janúar 1950 þegar vélbáturinn Helgi fórst á Faxaskeri í Vestmannaeyjum með tíu mönnum.
Tveimur tókst að skríða upp á skerið en dóu þar úr vosbúð og kulda. Það voru 16 vindstig eins og þá var sagt.
Eftir þetta slys var sett upp björgunarskýli á skerinu, en enginn hefur þurft á því að halda til lífsbjargar í 67 ár.
Ef Helgi hefði ekki farist á skerinu væri þar sennilega ekkert skýli enn, því að menn væru að bíða eftir slysinu eins og sífellt er verið að gera hér á landi, áður en brugðist er við.
Minnst þúsund íslenskir sjómenn hafa farist í janúar, þeirra á meðal tengdafaðir minn heitinn í janúar 1950.
Hann var á besta aldri, aðeins 49 ára, og þetta var mikill missir fyrir tengdamóður mína og átta börn hans.
Alls fórust fimm í þessu sjóslysi og það var áfall fyrir Patreksfjörð.
En janúar er samt mánuður vonarinnar, von sem þarf sjaldan á eins mikilli umönnun að halda og þá.
Og þá má líka þakka fyrir það að á síðasta ári fórst enginn á sjó og enginn í lofti hér á landi.
Kolbrjálað veður í Norðlingaholti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.