16.1.2018 | 21:45
Einn Íslendingur var þó ekki "sendur heim."
Handbolti er flokkaíþrótt. Í slíkri íþróttagrein á örþjóð eins og við litla möguleika gegn þúsund sinnum fjölmennari þjóðum nema að viðkomandi íþrótt sé stunduð í tiltölulega fáum löndum og af fáum einstaklingum.
Þetta er líklega helsta ástæða þess að handbolti hefur orðið að eins konar þjóðaríþrótt hér á landi og náði ljóminn hámarki á Ólympíuleikunum í Seoul.
Þá vorum við svo heppnir að eiga einn leikmann, Ólaf Stefánsson,, sem gat á góðum dögum unnið úrslitaleiki á stórmótum fyrir lið sitt.
Ógleymanlegt var til dæmis að horfa á hann í úrslitaleik í Evrópukeppni, þar sem hann var allt í öllu hjá Þýskalandsmeisturunum Madgeburg, og gilti einu þótt andstæðingarnir gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að stöðva hann.
Þegar illa gengur, eins og á tveimur síðustu Evrópumeistaramótum, er það huggun harmi gegn, að sú íþrótt að vera handboltaþjálfari, er einstaklingsíþrótt. Aðalþjálfarinn er aðeins einn.
Þetta sannaðist í kvöld þegar hætta var á því að íslenska handboltaliðið yrði sent heim, en líka hætta á því að íslenskir handboltaþjálfarar erlendra landsliða yrðu sendir heim.
Hinir ógnarsterku Króatar sáu ekki til sólar gegn Svíum, ekki frekar en Íslendingar gegn Serbum síðustu 20 mínútur þess leiks.
En hvernig sem allt veltist, var ekki hægt að senda alla Íslendingna heim.
Fyrir leik kvöldsins var ljóst, að annað hvort yrði allt íslenska landsliðið sent heim eða íslenskur þjálfari Svía, sem sá til þess að hann og hans lið sendu okkur heim.
Og fyrir bragðið var þessi ágæti íslenski þjálfari ekki sendur heim, eins og ætlun íslenska liðsins var að gera.
Og íslenskir landsliðsþjálfarar eru það margir á svona mótum, að það er nærri ómögulegt að senda þá alla heim eftir milliriðlana.
Ef ég man rétt hætti Aron Kristjánsson eftir að íslenska liðið datt naumlega út hér um árið.
Hvað verður um Geir nú?
Svíar sendu Ísland heim af EM | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar,er ekki búið að ákveða framtíð Geirs hjá landsliðinu?
Kær kveðja frá Eyjum.
Helgi Þór Gunnarsson, 16.1.2018 kl. 22:03
Hann svaraði því óljóst í viðtali á RUV núna rétt áðan.
Ómar Ragnarsson, 16.1.2018 kl. 23:22
Sæll.
Smáleiðréttingar: Serbar hefðu farið heim en Svíar farið áfram með 0 stig í farteskinu. Silfrið vannst í Peking. Í Seúl gekk illa og var því m.a. kennt um að leikmönnum hundleiddist milli leikja.
Framtíð landsliðsins er björt allra næstu árin, en hvað gerist þegar rafmagnsvespukynslóðin kemur fram með slappa fótvöðva er umhugsunarefni.
Aðalsteinn Geirsson (IP-tala skráð) 17.1.2018 kl. 07:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.