Einu sinni voru innanlandsflugvellirnir margir.

Agnar Koefoed-Hansen var stórmerkilegur afreksmaður á marga lund meðan hans naut við. 

Hann var fyrsti og eini Íslendingurinn sem kornungur sökkti sér ofan í flugmál erlendis fyrir stríð, flaug sem atvinnuflugmaður hjá Lufthansa víða um Norður-Evrópu og einnig í innanlandsflugi í Noregi, komst í persónuleg kynni við innsta hring ráðamanna í Þýskalandi, en ráðlagði íslensku ríkisstjórninni engu að síður sem flugmálaráðunautur hennar, að hafna alfarið beiðni Hitlers um aðstöðu handa Þjóðverjum fyrir millilendingar í flugi þeirra yfir Atlantshaf. 

Þetta vakti heimsathygli á þeim tíma sem engar þjóðir þorðu annað en að gefa eitthvað eftir varðandi þrýsting Hitlers á ýmsum sviðum. 

Eftir stríð varð Agnar fyrsti íslenski flugmálastjórinn og tókst með því að nýta sér einstaka persónutöfra að fá því til leiðar komið að Íslendingar hrepptu lungann af Norður-Atlantshafinu sem flugstjórnarsvið í millilandaflugi og hafa æ síðan haft mikið upp úr því fjárhagslega. 

Flugvellir á Íslandi ( Icelandic aerodromes) urðu tvöfalt til þrefalt fleiri en þeir eru nú, - að vísu flestir malavellir í byrjun - en þó nothæfir fyrir flugvélar af mörgum stærðum í innanlandsflugi. 

Þetta gerðist á þeim tímum, þegar þjóðartekjur og allar aðstæður voru miklu verri og minni en nú er. 

En nú virðist öldin vera önnur. Þótt þjóðartekjur hafi margfaldast og ferðamönnum fjölgað tuttugufalt eða meira með 500 milljarða króna innkomu í þjóðarbúið á ári, eru umræðan og aðgerðir markaðar því að "loka flugvöllum" og draga stórlega saman á því sviði. BISA úr na

Það er meira að segja fjárskortur vegna einfaldrar völtunar á malarvöllum á vorin og tilhneiging til að loka enn fleiri þeirra en gert hefur verið. 

Lítið dæmi úr eigin ranni: Til þess að viðhalda eina stóra flugvellinum (aerodrome) á hálendinu í þágu flugöryggis þarf ég að borga hinu opinbera gjöld, - ekki öfugt. Nálægt því  flugvallarstæði drapst á báðum hreyflum Fokkers 2007, en til allrar hamingju tókst að koma öðrum hreyflinum í gang og nota hann út til að ná til Egilsstaða. Í framhaldi af því ákvað ég að útbúa þetta náttúrugerða flugvallarstæði þannig, að það hlyti alþjóðlega skráningu og viðurkenningu með stöfunum BISA, (Sauðárflugvöllur). 

Á sama tíma þurfti Isavia að hafa talsvert fyrir því að leggja niður ýmsa flugvelli, til dæmis eina flugvöllinn í heilum landsfjórðungi, Patreksfjarðarflugvelli, þar sem væru möguleikar til að gera flugvöll að þeim eina í fjórðungnum, sem býður upp á flug allan sólarhringinn. 

Já, mitt í öllu gróðærinu er hún Snorrabúð stekkur. DSC00668

P. S.  Í athugasemd er beðið um nánari upplýsingar um völlinn og brautakerfi hans. Hér er rissmynd af brautakerfinu, en völlurinn sést líka á mynd á Google Earth, sem tekin var 2006 þegar brautirnar voru aðeins þrjár, 15-20 metra breiðar og völlurinn á byrjunarstigi og ekki skráður. 


mbl.is Gætu þurft að loka flugvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bara svona fyrir forvitnissakir (sé ekki svarið í textanum að ofan) hefurðu tiltækar lengdir þessara flugbrauta sem þú hefur haldið við þarna uppfrá?

Er þetta svæði ekki í úrkomuskugga stórjökulsins, þannig að þarna geti verið lendingarmöguleiki þegar aðrir möguleikar eru ekki fyrir hendi?

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 17.1.2018 kl. 12:45

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Heldur betur. Ef þú ferð inn á vef sem ber heitið "Icelandic aerodromes" er yfirlit á forsíðunni sem tilgreinir hvaða íslenskum flugvöllum flugmenn hafa "flett oftast upp" ( "most searched") Þar er röðin þessi: 1. Sauðárflugvöllur  2. Keflavíkurflugvöllur. 3. Reykjavíkurflugvöllur. 

Í upplýsingum um flugvöllinn er völlurinn skilgreindur sem einkaflugvöllur af því að ríkið tímdi ekki að merkja hann og valta, en þó er hann jafn viðurkenndur og skráður og flugvellir Icavia og ég skráður sem ábyrgðarmaður og umsjónarmaður. 

Af þeims sökum fæ ég stundum fyrirspurnir sem sýna ástæðurnar fyrir því: 

1. Hann er annar stærsti flugvöllur landsins hvað snertir heildarlengd flugbrauta, alls 4,7 km, og er þar að auki mjög nálægt aðkomuflugleiðinni frá Evrópu og í fluglínu yfir Norður-Atlantshaf. 

2. Aðeins þrjá kílómetra frá vellinum, á hæðinni hægra megin við brautarendann fjærst á myndinni hér á síðunni, er veðurathugunarstöðin "Brúaröræfi" sem sýnir veðrið, sem mjög oft er þannig, að flugvöllurinn er einmitt í úrkomuskugga jökulsins og oft með fín sjónflugsskilyrði þegar flugvellirnir á Austfjörðum, Suðausturlandi og Suðurlandi eru lokaðir. 

3. Fyrirspyrjendur spyrja stundum um lendingargjöld! 

Í einstaka tilfelli sést þeim yfir að völlurinn er malarvöllur! En þrátt fyrir það gætu vélar eins og Fokker F50 og Dash 8 (Bombardier) notað hann, jafnvel Lockheed Hercules og Boeing Globemaster C17 risa flutningaþota Bandaríkjahers. 

Flugvélar Mýflugs og Twin Otter fara létt með að nota hann. 

Völlurinn er næsti flugvöllur við eitt öflugasta eldfjallasvæði Íslands og aðeins er 10 mínútna flug frá honum að nýja Holuhrauninu. 

Brautirnar eru þessar og í öllum tilfellum er um nettólengd að ræða og því eru 120 metrar samtals dregnir frá á lengstu brautunum, en 60 metrar á styttri brautunum, þótt brautarendarnir séu hluti af brautunum.  

03-21   740 x 20 m   800 m brúttó

06-24  1180 x 30    1300    "

10-18   880 x 30    1000    " 

13-31   660 x 20     720    "

18-36   640 x 20     800    "                                                          740 x 20     800    "

Braut 18 er skráð 100 metrum lengri en 36 fyrir lendingu vegna smá bungu nyrst á henni. 

Á Google Earth sést flugvöllurinn á mynd, sem var tekin 2006 áður en Hjalladal var sökkt. Þá var völlurinn hvorki skráður né viðurkenndur og brautirnar bara þrjár og 15-20 metra breiðar. 

Skelli kannski einni eða tveimur myndum inn á bloggpistilinn nú síðdegis. 

Ómar Ragnarsson, 17.1.2018 kl. 15:13

3 identicon

Takk fyrir þessar greinargóðu upplýsingar. Eru það ekki Kverkfjöll, sem ber mest á þarna í fjarskanum?  Stefna breiðustu brautarinnar hef ég á tilfinningunni að sé nokkurn veginn (ónákvæmt) SV/NA ? 

En þarna sýnist manni aðflugið vera einstaklega hreint og hindranalaust. Líklega hefur Jóhannes heitinn Snorrason haft m.a. þennan stað í huga þegar hann talaði um að nokkrir staðir á hálendinu væru æskilegir sem neyðarflugbrautir sem þrautavari.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 17.1.2018 kl. 20:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband