Glöggt er íslenska gestsaugað.

Ég hitti nýlega Íslending, sem hefur búið í Noregi í fjölmörg ár, en er nýfluttur heim og sagðist vera að venja sig við ýmsar sérkennilegar venjur í umferðinni hér á landi. 

Hann kvaðst undrast, að engu væri líkara en að aðeins hér á landi væri skylt að skoða eldri bíla árlega.  Þótt í Noregi væri víða svipað veðurlag og hér, til dæmis á Vesturströndinni, þar sem rigndi meira en hér, væri þessi tími tvö ár þar og það talið nægja. 

Það hlyti að vera mikill aukakostnaður fólginn í því að skoða á að giska hátt í hundrað þúsund bíla tvöfalt oftar en þörf væri á. 

Síðan væri furðulegt hve okkur væri fjarlæg meginreglan um forgang bíla hvað varðaði stöðu þeirra í umferðinni; sá sem framar væri; hefði forgang. 

Þetta lýsti sér til dæmis þannig hér á landi, að oft væri það svo, að ef einhver bílstjóri ætlaði að skipta um akrein, til dæmis að flytja sig af ytri akrein yfir á innri vegna þrengingar vegar, væri honum meinað um það, jafnvel með því að auka hraðann og koma í veg fyrir akreinaskiptingu.

Og kostulegt fannst honum að sjá, hve svokallað "tannhjól" eða "rennilás" væri okkur oft gersamlega framandi, þetta einfalda atriði að umferð, sem sameinast af tveimur akreinum í eina, rynni saman einn bíll á móti hverjum einum bíl líkt og tennur í tannhjólum. 

Hann sagði að í Noregi gilti sú regla, að sá bíll sem væri framar í hringtorgum hefði forgang, og að hann hefði orðið undrandi á þeirri ringulreið sem oft væri hjá okkur í akstri á hringtorgum. 

Tregða okkar til að gefa stefnuljós fannst honum líka sérstaklega undarleg, og merkilegt, hve slíkt tillitsleysi, sem bitnaði á svo mörgum, væri algengt, jafnvel frekar regla en undantekning í sumum tilfellum.  

 


mbl.is Viðamiklar breytingar á umferðarlögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það stendur ekkert í þessum sjölum sem hlekkirnir vísa á nema eitthvað óviðkomandi samsull, sem engum kemur við nema embættismönnum. Ég hafði vonazt eftir að það stæði eitthvað um hvaða breytingar verði gerðar í sambandi vð akstur í hringtorgum. Ég vona að breytingarnar verði þannig að alþjóðareglur, sem ég hef lengi barizt fyrir, muni gilda framvegis í staðinn fyrir þessar bjánalegu séríslenzku reglur sem hafa aldrei virkað og sem hefði átt að breyta fyrir 70 árum síðan.

Í 2ja akreina hringtorgum hérlendis er alltaf umferðaröngþveiti og árekstarhætta því að það er boðið upp á svínun (bílar æða inn í hringtogin í staðinn fyrir að bíða eftir að umferð er farin hjá) og síðan eru bílarnir stöðvaðir í hringtorgunum sem skapar enn meiri árekstrarhættu. Alþjóðareglur, sem eru í gildi í Danmörku, Bretlandi og Noregi og eiginlega öllum löndum sem ég þekki til (nema hér á landi), eru þveröfugar við íslenzku reglurnar og þar er engin ringulreið.

Einu sinni fyrir langa löngu giltu í Danmörku svipaðar reglur og hér á landi. Það gafst svo illa að Danir fóru hamförum og lögðu hreinlega niður öll tveggja akreina hringtorg og settu umferðarljós í staðinn. Síðan mörgum árum seinna voru aftur lögð hringtorg víðs vegar í landinu, enda voru þá innleiddar alþjóðareglurnar sem hafa gefizt mjög vel. En bjánarnir á Samgöngustofu (og öllum fyrirrennurum þessarar stofnunar) sem eiga sök á þessu, sjá ekki hvað íslenzku sérreglurnar eru vitlausar. Steininn tekur út þegar maður les þversagnakenndu reglurnar á vefsíðunni þeirra, það er hreinlega verið að bjóða upp á umferðarþvögu og árekstra.

Margir íslenzkir ökumenn eru tillitslausir eins og Ómar skrifar, gefa aldrei stefnuljós og svína sífellt fyrir aðra, sem er óþolandi. En öngþveitin í hringtorgunum eiga íslenzkir ökumenn enga sök á, hana á Samgöngustofa og allir samgönguráðherrar sl. 7 áratugi.

Svo að nú, 70 árum of seint (en betra er seint en aldrei) verður farið að breyta þessum reglum til batnaðar. Vona ég, annar mun ég skrifa harðorðað bréf til nefndarinnar í minni umsögn.

Pétur D. (IP-tala skráð) 19.1.2018 kl. 18:45

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

 Ég er ekki hissa að þú skulir lenda í vandræðum í hringtorgum á Íslandi, Pétur D. Lærðu umferðarreglurnar og þá mun þér farnast betur.

Áður en þú kemur að hringtorgi, sérðu þríhyrnt merki á gulum fleti með rauðum borða á jöðrunum. Þetta merki er í flokki A- Viðvörunarmerkja. Oddur merkisins vísar niður og er það eina viðvörunarmerkið sem er þannig. Merkið heitir biðskyldumerki sem þýðir að skylt er að bíða og veita öðrum forgang. 

Slysa og tjónatíðni í islenskum hringtorgum er afar lág og þau eru tiltölulega skilvirk. Víðast erlendis, þó ekki alveg alls staðar,  gilda aðrar reglur um hringtor, þ.e. að innri hringur þar hefur ekki forgang eins og hér. Vandamál sem af erlendu reglunum getur hlotist, sérstaklega í umferðarþungum hringtorgum, er leyst með öðruvísi hönnun á hringtorgunum og skýrum akgreinalínum sem beina umferðinni um hringtorgið. Þá er valin tiltekin akgrein í hringtorginu m.t.t. þess hvar þú ætlar út úr því.

Gangi þér vel.

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.1.2018 kl. 00:15

3 identicon

Gunnar, ég hef kynnt mér íslenzku reglurnar um akstur í hringtorgum og þær eru bjánalegar eins og ég hef sagt áður. Biðskyldan er einskis virði ef það er ætlast til með merkingunum að engir nemi staðar en í staðinn álpist út í hringtorgið og stöðvist þar til að hleypa bíl framhjá úr innri hringnum sem hefði átt að vera vikið fyrir við gatnamótin.

Og ég ætla að biðja þig um að vera ekki að tala niður til mín. Augsýnilega ert það þú sem ekki skilur hvað þessar reglur hér á Íslandi eru þversagnakenndar og vitlausar í alla staði. Sennilega hefur þú, ólíkt mér, aldrei ekið bíl í útlöndum og hefur þess vegna enga reynslu af því hvernig reglur eiga að vera.

Þó að það séu fátíðir árekstrar vegna þess að bílarnir hægja yfirleitt á sér, hef ég oft og iðulega séð atvik þar sem bílarnir eru hársbreidd frá því að rekast á hvorn annan. Það eru bara aular sem finnst þetta vera í lagi.

Pétur D. (IP-tala skráð) 20.1.2018 kl. 20:43

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Að ég tali niður til þín er kaldhæðni hjá mér og ekki að ástæðulausu. Það er augljóst af báðum athugasemdum þínum að þú ert ekki með umferðarreglurnar á hreinu. "Biðskyldan er einskis virði" segir allt sem segja þarf.

Ég hef mikla reynslu af akstri erlendis og ég er ökukennari.

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.1.2018 kl. 00:14

5 identicon

Ekki snúa út úr, Gunnar. Þú ert að gefa í skyn að ég álíti að biðskyldur væru einskis virði, sem er þvæla. Lestu það sem ég skrifaði. Ég skrifaði (í styttra máli) að biðskyldan væri einskis virði ef ekki er ætlazt til að farið sé eftir henni, því að reglurnar og merkingarnar leyfa bílunum að vaða út í hringtorgið í veg fyrir þá bíla sem eru þar fyrir, í staðinn fyrir að virða biðskylduna og stöðva bílinn áður en farið er út í hringtorgið, ef það er umferð að koma frá vinstri, eins og ætti að vera, en enginn á Íslandi fylgir því. Nema kannski ég, til mikkillar gremju fyrir þá bílstjóra fyrir aftan sem skilja ekki að ég virði alltaf biðskyldu þótt þeir geri það aldrei sjálfir.

Á þessari mynd sést hvernig aka á í tveggja-akreina hringtorgum skv. alþjóðareglum. Í Bretlandi gilda sömu reglur, en þar er bara farið réttsælis.

http://www.bentbay.dk/biler/rundk%C3%B8rsel.jpg

Pétur D. (IP-tala skráð) 21.1.2018 kl. 11:54

6 identicon

Og ef þessar bjánalegu reglur væru ekki nógu skaðlegar, þá er bætt gráu ofan á svart með því að hafa flöskuhálsa á frákeyrslunum. Versta dæmið af þó nokkrum er frákeyrslan frá Melatorgi framhjá Háskólanum, sem einhver hlýtur að hafa fengið kjúklingaheilaverðlaunin fyrir að hanna. Auðvelt er að fjarlægja þennan flöskuháls, en það krefst að einhver í skipulagsdeild borgarinnar og vegagerðinni byrji að hugsa.

Pétur D. (IP-tala skráð) 21.1.2018 kl. 12:10

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

 "því að reglurnar og merkingarnar leyfa bílunum að vaða út í hringtorgið í veg fyrir þá bíla sem eru þar fyrir"...

Úff, þú ert gjörsamlega úti á túni og stórhættulegur í umferðinni og ættir í raun alls ekki að hafa ökuréttindi..

Gunnar Th. Gunnarsson, 21.1.2018 kl. 14:00

8 identicon

Ég? Stórhættulegur? Af því að ég er að gagnrýna að biðskylda sé ekki virt við hringtorg? Þú ert gjörsamlega staurblindur, Gunnar, eins og allir sem skjóta sendiboðann í stað þess að viðurkenna að það séu vandamál. Og ad hominem í bezta stíl. Hefurðu aldrei tekið eftir merkingunum við hringtorgin? Í staðinn fyrir biðlínu þvert yfir aðkeyrsluveginn þar sem er biðskylda, þá liggur akreinalína beint út í hringtorgið.

En það er ekki furða þótt þú bullir svona, enda íslenzkur ökukennari, þeir lélegustu í Evrópu að mínu mati og þeir sem bera ábyrgð á því að íslenzkir ökumenn eru sífellt að svína fyrir aðra.

Annað dæmi: Dóttir mín fór í ökutima hjá ökukennara tengdum ökuskóla og var féflett, því að kennarinn neitaði að kenna henni neitt fyrstu tíu tímana til þess að hann gæti grætt meira á fleiri tímum en hún hefði þurft. Algjört hneyksli. Ég komst að þessu þegar ég ætlaði að fara með henni í æfingaakstur.

Og nú nenni ég ekki að ræða þetta við þig lengur, þú ert of vitlaus til að skilja neitt.

Pétur D. (IP-tala skráð) 22.1.2018 kl. 17:07

9 identicon

Ég vil taka það fram að ég hef ekkert út á gatnakerfið á Höfuðborgarsvæðinu að setja, fyrir utan hringtorgin, þar sem verður að gera úrbætur (byrja á að kynna nýjar alþjóðareglur og breyta merkingum í samræmi við það). Sérstaklega eru hægribeygjur (framhjá ljósum) alveg ómissandi. Þær sér maður varla í Danmörku né Noregi.

Pétur D. (IP-tala skráð) 22.1.2018 kl. 17:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband