Athyglisverð sjónarmið í Morgunblaðsgrein.

Tvennt vekur athygli þegar rennt er yfir fjölmiðlana í dag og umræðuefnið er hið sama á báðum stöðum. 

Einhver mesti íþróttaafreksmaður okkar tíma segir frá því að hann hafi glímt við svo alvarlegt þunglyndi síðustu 17 ár, að hann hefði íhugað að taka eigið líf. 

Hann varð áttfaldur Ólympíumeistari 2008, sem er met, en engu að síður var ástand hans svona eftir leikana. 

Michael Phelps segir í ljósi sinnar reynslu, að þunglyndi af þessu tagi séu sjúkdómur, veikindi, sem fólk eigi ekki að skammast sín fyrir, en ekki veikleiki. 

Hann vill leggja sitt af mörkum til að hjálpa öðrum, sem glíma við svipað. Þetta er það sama og heyra má í fréttum hér heima af SÁA og aðstoð við fíkniefnasjúklinga." 

Sjálfur upplifði ég í nokkur misseri sem unglingur þunglyndi, sem færði mér skilning á eðli þessa fyrirbæris.   

En í Morgunblaðsgrein í dag kveður við annan tón. Frambjóðandi í leiðtogakjöri eins stjórnmálaflokksins í Reykjavík talar hreint út um það hverju hann muni breyta ef hann komist til valda og áhrifa: 

"Ég mun  hygla hinum duglegu..hef sagt að skattborgarinn eigi ekki að borga fyrir fólk í sjálfstortímingu og mun skera niður við trog í þessum málaflokki." 

Frambjóðandinn ítrekar þetta með því að segja:

"Reykjavík virðist stefna í að verða einhvers konar félagsleg ruslakista fyrir menn í sjálfstortímingu."

Ekki nóg með það heldur líka þetta: 

"Á minni vakt mun félagsleg aðstoð verða skorin við nögl. Væntanlega mun mannréttindaskrifstofa borgarinnar súpa hveljur, en óttist ekki, það mun verða mitt fyrsta verk að loka henni." 

Merkilegt er að maður, sem vill leiða Sjálfstæðisflokkinn í borginni til að efla fyrri mátt og dýrð hennar svo að notað sé orðalag frá útlendum stjórnmálamanni, skuli telja vænlegustu leiðina núna að ráðast gegn því sem þessi flokkur byggði þó meirihluta sinn á í marga áratugi, en það var að sinna sem best félagslegu hlutverki borgarinnar.  

En á okkar tímum spretta nú upp menn sem vilja afmá allar þær framfarir sem hafa orðið á sviði mannúðar, mannréttinda og félags- og heilbrigðismála á síðustu sjö áratugum og hverfa aftur til þess tíma þegar andlegir sjúkdómar voru taldir svo mikill aumingjaskapur, að það mátti annað hvort ekki tala um þá, -  eða að þeim sjúku var útskúfað, sem til dæmis áttu við áfengisvanda að stríða. 

Það er eins og þessir menn hafi ekki fylgst með framförum í þessum málum svo sem hjá SÁA þar sem sést af beinum útreikningum að ávinningurinn af starfinu hefur margborgað sig til baka við það að koma lífi sjúklinganna á réttan kjöl. 

Svipað er að segja um árangurinn af starfinu á hliðstæðum sviðum hjá ríki, borg og frjálsum félagasamtökum. 

Kannski er það aðalatriðið hjá þessum andstæðingum þess árangurs, sem náðst hefur í mannúðarstörfum, að það sé svo töff og hipp og kúl að stúta þeim.  

Ég man þá tíð þegar horfa mátti upp á margt afbragðs fólk verða áfengisfíkn að bráð, sem á okkar tímum hefði verið miklar líkur á að bjarga. 

Þetta fólk átti ekki möguleika, - átti hvorki aðgang að markvissri hjálp né að skilningi samfélagsins á eðli sjúkdóms þeirra. 

Vandi þunglyndissjúklinga er svipaðs eðlis og hvert mannslíf, sem bjargað er, er oftast margfalt meira virði peningalega en aðstoðin, sem veitt var. 

Af hverju nota ég lýsingarorðið "athyglisverð" um þessi sjónarmið frambjóðandans í fyrirsögn þessa pistils? 

Vegna þess að við verðum að veita athygli þeim straumum sem hafa birst síðustu ár og vilja þurrka út þær félagslegu framfarir og mannréttindi sem hafa áunnist síðan 1945. 

 


mbl.is „Ég vildi ekki vera á lífi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi frambjóðandi er bara notaður til að gera litla spillingar prinsinn hann Eyþór Arnalds líta betur út.  Væri nú samt óskandi fornaldarmaðurinn ynni sigur, hann er þó að minnsta kosti heiðalegur með sínar skoðanir

Einar (IP-tala skráð) 21.1.2018 kl. 17:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband