Drepsótt græðgi og valds peninganna. Godfather III.

"Follow the money", "rektu slóð peninganna" er stundum sagt í Bandaríkjunum þegar kanna þarf hneykslismál. Og hin hraðvaxandi drepsótt, sem nú geysar vestra af völdum ofneyslu á ópíóíða lyfjum, er sláandi dæmi um það. 

Það líkist um margt því þegar tóbaksframleiðendum tókst í krafti auðæfa sinna að tefja það um marga áratugi að brugðist yrði við því gríðarlega manntjóni og heilsutjóni sem tóbaksnotkun hefur valdið. 

Nýja drepsóttin, sem er í hröðum vexti og drepur meira en 50 þúsund Bandaríkjamenn á ári, væri ekki svona skæð nema vegna þess að það er peningar í spilinu, miklir peningar, sem hafa verið notaðir á mörgum sviðum, allt frá Bandaríkjaþingi og niður úr, til þess að vernda framleiðendur og aðra þá sem hagnast á sölu lyfsins Oxyconte og annarra ávanabindandi lyfja. 

Þetta er svonefnt læknadóp í sinni verstu mynd. Drepsóttin væri ekki svona skæð nema vegna þess að aðgerðirnar til þess að fela orsakir hennar voru margþættar, og ein þeirra var sú að nýta sér spillinguna meðal þingmanna vestra til þess að smokra í gegn frumvarpi sem rústaði lyfjaeftirliti Bandaríkjanna. 

En á það atriði hefur ekkert verið minnst í fréttum af málinu hér á landi. 

Fyrir tilviljun var ein hlið málsins á dagskrá í kvikmyndinni Godfather III, sem sýnd var í Sjónvarpinu í gærkvöldi, þar sem meginstefið var að glæpasamtök reyna að hvítþvo sig með því að koma starfsemi sinni sem mest yfir í góðgerðastarfsemi og löglegan rekstur. 

Í Godfather myndinni var reyndar starfsemi mafíósanna ólögleg í upphafi, en heilkennið "styrkir", "góðgerðastarfsemi" var hið sama og er hjá framleiðendum skæðasta ópíóíða lyfsins, OxyConte. 

Það fyrirtæki hefur að vísu verið með löglega starfsemi frá upphafi, en það minnir á, að  tóbaksframleiðslufyrirtækin á sínum tíma voru líka með fyllilega löglega starfsemi. 

"Löglegt en siðlaust" sagði Vilmundur Gylfason á sínum tíma, og siðleysið felst í því að frá upphafi hefur í raun ekki verið í gangi nein bitastæð könnun á ávanabindandi eðli OxyContin, heldur hefur því verið haldið fram frá upphafi að lyfið væri ekki ávanabindandi eða í það minnsta minna ávanabindandi en önnur lyf og fíkniefni. 

Nýja drepsóttin dynur yfir þegar búið er í tvo áratugi að fela eðli hins skæða lyfs með svipuðum ráðum og gert var varðandi eiginleika tóbaksins. 

Talsmenn tóbaksframleiðenda depluðu ekki auga þegar þeir sóru og sárt við lögðu fyrir framan þingnefnd vestra, að ekkert benti til þess að reykingar væru hið minnsta hættulegar. 

Það var ekki fyrr en tala látinna var komin upp í svimandi hæðir, sem baráttan gegn reykingunum fékk byr í seglin. 

Hagnaður fyrirtækisins sem framleiðir hið "skaðlausa" lyf nemur 3600 milljörðum króna á ári, eða meira en tvöfaldri þjóðarframleiðslu Íslands. 

Áhrifavaldar í málinu ná allt upp í Hæstarétt Bandaríkjanna og forsetaembættið, því að áratugum saman hefur það verið vandamál vestra að forsetarnir keppa að því að koma sínumm mönnum inn í réttinn og síðustu ár hafa forsetar Republikana haft vinninginn. 

Þingið þarf að samþykkja tillögu hvers forseta og í þinginu er meirihluti fyrir því að engin takmörk séu á þeim fjárframlögum, sem einstakir þingmenn megi þiggja í stuðning. 

Afleiðingarnar eru spilling, sem meðal annars veldur því, að einstakir þingmenn beita sér fyrir hagsmunum fjársterkra stórfyrirtækja í ríkjunum, sem þeir eru þingmenn fyrir. 

Tveir þingmenn, þar sem lyfjaframleiðsla var einna mest, lögðu fram frumvarp varðandi lyfjaeftirlit Bandaríkjanna, sem í raun hefur rústað eftirlitið og gert það máttlaust.

Vandinn er tvíþættur hvað varðar umfang neyslunnar: Framboð og eftirspurn. Hvort tveggja getur aukið hitt.  

En rót vandans er ekki aðeins sú, að ævinlega er eftirspurn eftir vímugjöfum, heldur líka sú gróðavon sem knýr framleiðendur og dreifendur efnanna áfram til að neyta allra bragða til að auka hagnað sinn og umsvif. 

Engin fjölskylda eða vinahópur er óhultur fyrir drepsótt vímuefnanna og allir hafa sögu að segja. 

Ég þekki dæmi frá fyrri tíð þegar meira en 20 mismunandi lyfjategundir fundust hjá hinum látna og þekki líka annað dæmi frá nútíðinni, þar sem sjúklingur með miklar kvalir stundar göngur með nokkurra klukkustunda millibili til þess að lina frekar bakverki á þann hátt heldur en að taka áhættuna á því að fara að taka inn hin sterku verkjalyf.

Það væri nær hjá framleiðendunum og öðrum, sem hagnast á umsvifunum í kringum dópið, að styrkja forvarnarstarf og leggja áherslu á skaðlegar hliðar neyslu lyfsins, heldur en að fela sem best hið raunverulega eðli þess eins og þeir hafa gert. 

En með slíku væru framleiðendurnir að ganga gegn beinum peningahagsmunum eigenda og hluthafa. 

Það er vel að Trump Bandaríkjaforseti hefur talað um að skera upp herör í þessu máli. En fróðlegt verður að vita hve langt hann telur sig geta gengið. 

Vill hann endurreisa getu lyfjaeftirlitsins?  Varla mun múr við landmærin að Mexíkó leysa þennan vanda. 

Og vafasamt er að hann vilji afnema það að fjársterkir aðilar geti með háum stuðningsframlögum í raun mútað þingmönnum á Bandaríkjaþingi. 

Því að hann og aðrir auðmenn hagsmuna að gæta varðandi þá leið til þrýstings á löggjafann. 

 


mbl.is Hagnast á kvölum annarra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Asnarnir lesa hann ÓRA,

ógn, hvað hann megnar að tóra.

Fjandinn er laus,

hann fordjarfar haus

á falslagaskáldinu stóra.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 21.1.2018 kl. 13:33

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Cui Bono, sögðu rómverjar. Þessi ameríski frasi byggir á honum. Hver hagnast? Yfirleytt útgangspunktur allra glæparannsókna, því glæpir eiga sér ávallt rót í því að einhver hagnist á honum,mfjárhagslega eða á annan hátt.

Jón Steinar Ragnarsson, 21.1.2018 kl. 18:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband