26.1.2018 | 18:10
Þegar múrar þóttu tákn um gjaldþrot viðkomandi ríkja.
Tveir múrar, sem reistir voru á síðustu öld, þóttu smánarlegir og merki um gjaldþrot viðkomandi þjóðfélaga.
Sá frægasti og myndrænasti var Berlínarmúrinn, sem reistur var 1961 til þess að koma í veg fyrir að fólk flytti frá Austur-Þýskalandi til Vestur-Þýskalands.
Valdhafar í Austur-Þýskalandi, ríki, sem hafði verið stofnað á hernámssvæði Sovétmanna eftir stríðið, sáu fram á að áframhaldandi flótti fólks til vesturs jafngilti því að þjóðinni blæddi út hvað snerti það að geta viðhaldið innviðum landsins og atgerfi þjóðarinnar.
Vestrænum þjóðum þótti múrinn smánarlegur og tákn um gjaldþrot hins kommúniska þjóðfélags í Austur-Þýskalandi. John F. Kennedy Bandaríkjaforseti fór í heimsókn til Vestur-Berlínar og mælti fleyg orð: "Ich bin ein Berliner".
Og Ronald Reagan hélt þar líka ræðu og sagði: "Gorbatsjof, rífðu þennan múr niður!"
Í Suður-Afríku fylgdu hvítir valdhafar harðri aðskilnaðarstefnu, Apartheit, sem fólst í því að girða kynþætti af, og voru þeir "múrar" sem þar voru notaðir til þessa, fordæmdir í alþjóðasamfélaginu og Suður-Afríka sett í skammarkrók á Ólympíuleikum og alþjóðlegum íþróttamótum.
´Bandaríkjamenn voru fremstir í flokki meðal þeirra þjóða, sem fordæmdu aðskilnað og múra á síðustu öld.
En nú er öldin önnur, 21. öldin. Ísraelsmenn hafa reist múr til að skilja sig frá Palestínumönnum með velþóknun Bandaríkjamanna, og Donald Trump á enga ósk heitari en að reisa risamúr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Vill 25 milljarða dala vegna múrsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar.
Nú sem oft áður snýrð þú öllu á hvolf!
Minnugur mættir þú vera spakmælisins:
"Garður er grannasættir."
Þeir einir sem urðu gjaldþrota á falli þessa múrs
voru Austur-Þjóðverjar.
Þeir búa nú sem annars flokks borgarar í eigin landi
en Merkelkerlingin rekur einhverja verstu
helstefnu sem nokkur dæmi eru um í veraldarsögunni
gagnvart eigin löndum.
Þetta hafðist uppúr þessu fjandans brölti!
Áður gátu Austur-Þjóðverjar menntað börn sín
og bjuggu við menntakerfi sem stóð í öllum
greinum framar því í vesturhlutanum auk þess
sem tryggingar þeirra voru nær skotheldar
undir styrkri stjórn Sovétríkjanna.
Það er því mál að linni og Þjóðverjar geti
sagt sem Íslendingar forðum tíð:
Sovét-Ísland óskalandið: Hvenær kemur þú!
Húsari. (IP-tala skráð) 26.1.2018 kl. 20:20
Það er sannleikskorni í þessu, Húsari, hvað það varðar að margir söknuðu heilbrigðis- og menntakerfi kommúnista eftir að Austur-Þýskaland sameinaðist Vestur-Þýskalandi.
En þegar ég ók frá Davos til Kaupmannahafnar nokkrum árum eftir að múrinn féll og fór í gegnum Austur-Þýskaland blasti við hve illa kerfið hafði leikið leppríki Rússa, ónýtir og lélegir vegir og annað, sem var algerlega á skjön við velmegunina vestanmegin.
Rússar áttu gríðarlegra harma að hefna eftir hervirki Hitlers og þvinguðu leppa sína í Austur-Þýskalandi til að stefna að því að gera landið að einhliða og lítt iðnvæddu landbúnaðarlandi.
Dæmi, sem liggur á mínu þekkingarsviði, bílar, sögðu sína sögu. Á meðan Tékkar fengu að framleiða sæmilega nýtískulega, en þó illa smíðaða Skoda-bíla, var komið í veg fyrir eftir fremsta megni að Austur-Þjóðverjar fengu hráefni en neitt til þess að framleiða bíla.
Vegna skorts á stáli urðu þeir að bjarga sér með einföldu plasti, unnu úr úrgangsefnum, til þess að framleiða tákn landsins, Trabant, og nota gersamlega úreltar mengandi tvígengisvélar, löngu eftir að allar aðrar þjóðir voru hættar að nota þær.
Og um kúgunina, sem birtist í STASI, þarf ekki að fjölyrða.
En þeir, sem höfðu það verst í Vestur-Þýskalandi, höfðu sennilega lakari kjör en þeir, sem verst stóðu austantjalds. Hagur yfirgnæfandi meirihluta fólks vestan járntjalds var hins vegar margfalt betri.
Og auðvitað voru íþróttaafrek Austur-Þjóðverja afrek hjá aðeins 17 milljóna þjóð.
Ómar Ragnarsson, 26.1.2018 kl. 23:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.