Þrígreining valdsins - einn stærsti vandi lýðræðisríkja.

Það er einn stærsti vandi lýðræðisríkja að viðhalda þrígreiningu valdsins á þann hátt að jafnvægi ríki á milli hinna þriggja þátta. 

Hvað löggjafarvaldið áhrærir gildir fulltrúalýðræði þar sem þegnarnir kjósa þingmenn til þess að setja lögin. 

Best er að kosningin sé bein, það er, að kjósandinn velji endanlega einstaklingana, sem bjóða sig fram, í kjörklefanum. 

Þetta er gert í nokkrum ríkjum á mismunandi veg og þyrfti að komast á hér á landi. 

Með þingbundinni ríkisstjórn er meirihluta þingmanna fært vald til að skipa í hana. Að því leyti er framkvæmdavaldið háð þinginu, en hins vegar hefur valdið samt færst ansi mikið frá þinginu í praxis, þannig að oft á tíðum virkar þingið eins og afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið, og ofan á það bætist, að vald sérfræðinga og embættismanna er oft heldur mikið. 

Erfiðast er að viðhalda sjálfstæði dómskerfisins, mest vegna þess að einhver þarf að velja þar fólk til starfa. 

Vegna þess að endanlegar lyktir mála verða oft útkljáðar fyrir dómstólum, hefur þetta þriðja vald afar mikið vægi og ef það er framkvæmdavaldið, sem velur fólk til starfa, dregur það oft úr nauðsynlegu aðhaldi, sem dómstólar veita. 

Gott dæmi eru Bandaríkin, þar sem forsetar reyna að velja helst hæstaréttardómara, sem eru hallir undir viðkomandi stjórnmálaflokk. 

Mikilvægið sést á því, að úrskurður Hæstaréttar BNA þess efnis, að engin takmörk skuli gera á fjárframlögum til þingmanna, hefur þegar valdið vaxandi spillingu meðal þeirra og ert fjársterkum aðilum kleyft að hafa óeðlilega mikil áhrif á lagasetningu og valdið því, að þingmenn eyða flestir meiri tíma í að sinna þessum velgjörðarmönnum sínum en þingstörfunum. 

Óheppilegar afleiðingar af þessu má sjá í vaxandi mæli vestra. 

Jakob Möller, formaður margumtalaðrar hæfnisnefndar, hefur nefnt það sem víti til varnaðar að fyrrum hafi komið fyrir að dómsmálaráðherrar nýttu sér vald sitt í einstaka tilfellum til þess að ganga fram hjá hæfustu umsækjendum um dómarastörf á nokkuð áberandi hátt og að nota verði aðferð, sem minnkar hættuna á óeðlilegu pólitísku inngripi. 

En það er ekki auðvelt að komast hjá því að í einstaka tilfellum verði valið umdeilanlegt og matsaðferðirnar líka, rétt eins og öll mannanna verk.  

Þetta er og verður eilífðarvandi. Víðast í öðrum löndum er reynt að búa til kerfi, sem tryggir sem best valddreifingu, aðhald og ákveðið eftirlit (checks and balances), en seint verður þetta fullkomið. 


mbl.is Fleiri ósammála Hæstarétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband