27.1.2018 | 00:43
Þegar rafmagnið datt út og það bjargaði vonlausri sýningu.
Þegar Hekla gaus 17. ágúst 1980 stóð svo illa á, að Sumargleðin var með auglýsta sýningu og dansleik á Hótel Sögu um kvöldið, þá fyrstu í Reykjavík í sögu hennar, þegar eldgosið og Rafmagnsveita Reykjavíkur tóku völdin.
Salurinn var troðfullur og á tíunda tímanum um kvöldið áttu herlegheitin að hefjast.
En ég var illa fjarri góðu gamni vegna eldgossins og ekki væntanlegur, sem var hið versta mál, því að ég átti að vera á sviðinu meirihluta sýningartímans.
Vegna fréttaferðar fyrir Sjónvarpið austur að Heklu bæði í lofti og á landi var ég enn austur við Heklurætur þegar dagskráin átti að hefjast á tíunda tímanum, alveg upptekinn við að sinna kvikmyndatökum og fréttaflutningi meðan fjallið gaus sem óðast.
Nú blasti við eitt af uppáhalds kjörorðum okkar Ragga, "að klóra í bakkann", en spurningin var bara, hvernig í ósköpunum það yrði mögulegt.
En þá gerðist alveg ótrúleg tilviljun, sem reddaði málunum og kannski er þessi tilviljun einsdæmi:
Rafmagnið datt út af öllum Vesturbænum, og allt slokknaði í Súlnasalnum, ljós, hljómflutningstæki, hátalarakerfi og rafknúin hljóðfæri.
Sólin var að setjast, það dimmdi óðum, og engin leið að byrja skemmtunina!
Bassi, gítar, kordóvox og hljómborð, allt var þetta ónothæft án rafmagns.
Hljómsveitarmenn og skemmtikrafar sáust ekki einu sinni.
Fólkið varð að hírast í myrkrinu, sem datt á, og bíða eftir að rafmagnið kæmist aftur á.
Fjarvera mín skipti ekki nokkru máli og út um gluggana sá fólkið í salnum aðeins myrkvuð húsin í kring.
Ég var að vísu ekki kominn þegar rafmagnið kom loksins, seint og um síðir, en ég kom þó nógu tímanlega til þess að hægt væri að flytja alla dagskrána og bjarga kvöldinu í horn, "klóra í bakkann."
Björgvin Franz gleymdi að mæta í leikhúsið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.