Stefnir í átök milli stjórnarflokkanna um vindorkugarðana?

Þrátt fyrir vinnslumet á raforku á síðasta ári, virðist þrýstingur á virkjanir fara vaxandi.

Nú hrúgast inn fyrirætlanir um vatnsaflsvirkjanir upp á 9,9 megavött hver af því að þá sleppa þær við að fara inn í rammaáætlun. 

Safnast þegar saman kemur, því að 20 slíkar virkjanir myndu veita afl á við stórvirkjunina Búrfellsvirkjun, eins og hún var í upphafi. 

En ásóknin í margföldun kemur fram víða.  

Þegar fréttist um allt að 130 megavatta vindorkugarð skammt norðaustan við Búðardal á dögunum benti Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra á það, að allt almennt regluverk og undirbúning á því sviði skorti hér á landi, þar á meðal um rammaáætlun um þær eins og vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir. 

Í fréttaumfjöllun á RUV kemur fram, að innan orkugeirans og hjá hinum stjórnarflokkunum séu skoðanir öndverðar í þessu efni, - andstaða gegn vegna þess, að ef fara ætti þá leið, myndi það þýða sex til átta ára töf á því að þessar virkjanir gætu komist hér á koppinn, og það væri alveg ótækt. 

Það má sem sagt engan tíma missa til þess að hægt sé að ná því markmiði, sem forstjóri Landsvirkjunar lýsti fyrir fjórum árum, að tvöfalda orkuframleiðsluna á áratug, svo að við framleiðum tíu sinnum meiri orku en við þurfum sjálf fyrir íslensk fyrirtæki og heimili. 

Þetta rímar alveg við frétt fyrir helgina þar sem talsmaður fiskeldisstöðva kveinaði mikið yfir því að töf á nýju regluverki fyrir fiskeldið myndi tefja illilega að setja niður stöðvar í allmörgum fjörðum. 

Það mun trufla fyrirætlanir um að tífalda sjókvíaeldið hér á landi á fáum árum, en þeir sem hafa viljað fara ögn hægar og af varúð í þessu efni og í því sem forstjóri Orku náttúrunnar kallaði nýlega "virkjanaæði" voru nýlega sakaðir um það í blaðagrein að "hafa um langan aldur barist með öllum tiltækum ráðum gegn framförum og mannlífi." 

 

 


mbl.is Met sett í framleiðslu á raforku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband