Einokun er ekki góð.

Saga einokunar, algerrar eða ígildis hennar, á flugsamgöngum við Ísafjörð, er orðin 65 ára gömul. 

Á fyrstu árum flugsins var lent þar á Catalina flugbátum og samkeppni ríkti. 

En í kjölfar tveggja stórslysa á DC-3 flugvélum Flugfélagsins var ákveðið að skipta flugleiðunum innanlands upp á milli Flugfélags Íslands og Loftleiða. 

Þótt báðar flugvélarnar, sem fórust, hefðu verið í eigu Flugfélagsins fékk það mun meira í sinn hlut í skiptingunni, þar á meðal leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar. 

Að vísu hafði millilandaflugvélin Geysir í eigu Loftleiða, farist á Vatnajökli án mannskaða, en það kom innanlandsfluginu ekki meira við en svo, að fyrirkomulag millilandaflugsins hélst óbreytt. 

Loftleiðir hættu innanlandsfluginu, félaginu var í raun bolað út úr. 

1996 var einokunin afnumin og í nokkra mánuði ríkti samkeppni í innanlandsfluginu. 

Íslandsflug hóf flug til Ísafjarðar og bauð helmingi lægra fargjald en Flugfélagið. 

En leikurinn var ójafn. Flugfélagið lækkaði sín fjargjöld um helming og nýtti sér skjólið undir pilsfaldi margfalt stærra flugfélags, sem hafði einokun á millilandaflugi íslenskra flugfélaga og gat staðist pressu tapreksturs innanlandsflugsins mun lengur en Íslandsflug og drap samkeppnina af sér. 

Íslandsflug auglýsti með tveggja vikna fyrirvara að það gæfist upp, og brá þá svo við að fólk  mótmælti brotthvarfi Íslandsflugs hástöfum og byrjaði að þyrpast um borð í flugvélar þess! 

En auðvitað var það of seint og kom það sér sérstaklega illa að Dornier vélar Íslandsflugs skyldu hverfa af vettvangi, því þær voru eins og sniðnar fyrir hinar erfiðu aðstæður við Ísafjarðarflugvöll og gátu flogið hringi í kringum Fokkerana í Skutulsfirði.   

Þegar ljóst var að búið var að drepa innanlandsflug Íslandsflugs, hækkaði Flugfélagið fargjaldið að sjálsögðu tvöfalt í skjóli þeirrar einokunar sem það hefur notið síðan. 

Hins vegar var einokun Icelandair í millilandaflugi rofin með flugi Iceland Express 2003 og ávöxtinn af afnámi einokunar á íslensku áætlunarflugi til annarra landa má sjá í því að hægt sé að fara fyrir minni pening frá Reykjavík til Brussel en til Egilsstaða. 

 


mbl.is Vissu ekki að fluginu hefði verið aflýst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband