15.2.2018 | 23:09
"Feigðin grimm um fjörið krefur..."
Ekki verður feigum forðað né ófeigum í hel komið. Þetta máltæki hefur oft sannast og gerir það enn, eins og dauðdagi indverskrar konu sem ók gókartbíl og flækti hár sitt í hjóli hans ber vitni um, og greint er frá á
Þetta minnir á hinn dramatíska og óvenjulega dauðdaga hinnar heimsfrægu danskonu Ísadoru Duncan árið 1927, þegar trefill, sem hún var með um hálsinn, flæktist í hjóli opins bíls, sem hún sat í.
Kalla má svona slys feigðarslys.
Dæmi um hið gagnstæða, að ófeigum hafi ekki verið í hel komið, er hin einstæða björgun Tómasar Verusonar úr snjóflóðinu skæða í Súðavik, þegar flóðið æddi í gegnum húsið, sem hann svaf í og þeytti honum út um glugga, sem flóðið hafði splundrað sekúndubroti áður, en á fluginu út úr húsinu, vafðist hann inn í vatnsrúm, sem kom einnig fljúgandi út úr húsi við hliðina og vafðist þannig utan um Tómas að það skýldi honum á þeim stað sem hann lenti.
Hann var því á lífi þegar björgunarsveitarmenn grófu hann upp úr flóðinu.
Enga stund ævinnar er nokkur maður algerlega óhultur, ekki einu sinni í hópi kirkjugesta við jarðarför.
Dæmi um það var jarðarför Davíðs Helgasonar, æskuvinr míns, sem varð bráðkvaddur í hjartaáfalli um aldur fram.
Þegar presturinn hugðist fara með moldunartextann, féll maður á fremsta bekk í kirkjunni fram fyrir sig í hjartaáfalli og stöðvaðist athöfnin í 20 mínútur meðan hlynnt var að manninum og sjúkrabíll kom til að flytja hann burtu.
Þetta var afar áhrifamikil stund sem orkaði sterkt á alla viðstadda og minnti á það, sem faðir minn heitinn hafði stundum á orði: "Enginn veit hver annan grefur."
Einnig á orð Shakespeares:
"Örlög, þið ráðið okkar næturstað.
Enginn má sköpum renna og best er það."
Á þessum 20 mínútum í kirkjunni varð til staka, sem síðar hefur orðið að hluta úr sálmi.
Stakan er svona:
"Feigðin grimm um fjörið krefur -
fátt er oft um svör.
Enginn veit hver annan grefur -
örlög ráða för."
Atvikið í kirkjunni var áhrifamikil áminning um það að þakka fyrir hvern ævidag og hverja stund sem við fáum að lifa.
Flækti hárið í go-kart bíl og lést | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.