26.2.2018 | 18:59
Braggahverfin og Höfðaborgin í den, - hluti Breiðholtsins núna?
Skilgreiningin á gettóum í Danmörku, sem nú er lagt til að skuli hlíta öðrum refsilögum en aðrir borgarhlutar, er sú að atvinnuleysi, tekjur og menntunarstig séu fyrir neðan ákveðna prósentu.
Svo er að sjá, að samkvæmt þessum hugmyndum, sem sjá má að ýmsir á blogginu eru hrifnir af, muni ríkur og vel menntaður maður, sem hrindir gamalli konu og stelur af henni dýrum hlut í verslun, fá helmingi vægari refsidóm heldur en fátækur atvinnuleysingi í skilgreindu gettói fær fyrir sams konar afbrot.
Einstæð ómenntuð móðir í Breiðholtinu myndi fá tvöfalt þyngri dóm fyrir að stela veski eða síma af manni heldur en vel menntuð og langskólagengin kona.
Ég ólst í nokkur ár upp í Samtúni, en öðru megin við þá götu var svonefnd Höfðaborg, sem hýsti fátækt fólk.
Krakkarnir við götuna léku sér saman og það hefði verið fróðlegt að sjá, hvort foreldrar Sæma hefðu fengið tvöfalt þyngri refsidóma og foreldrar mínir fyrir sams konar brot, til dæmis tvöfalt þyngri dóm fyrir beita einhvern hótunum um líkamsmeiðingar heldur en foreldrar mínir fyrir það sama.
Eða ef við Sæmi hefðum báðir framið sams konar refisvert athæfi, sem unglingar í þessari götu, og þá hefði hann fengið tvöfalt þyngri dóm en ég.
Og hefði átt að dæma tvöfalt þyngri fyrir afbrot á gangstéttinni norðan megin við götuna heldur en sams konar afbrot á gangstéttinni sunnan megin.
Eða hvort Sæmi hefði á árum sínum sem lögreglumaður litið tvöfalt harðari augum á afbrot í braggahverfunum en á sams konar brot í fínu hverfunum.
Kunnuglegt viðhorf má sjá hjá þeim, sem mæla þessari mismunun bót, sem sé það, að ástandið í gettóunum í Danmörku sýni, að fjölmenningarfólk hafi gert heildstæða árás á samfélagið og að það verði að láta hart mæta hörðu.
Þetta hefur verið orðað hér á landi með setningunni "þetta eru nú engir kórdrengir" og var óspart notað í Geirfinns- og Guðmundarmálinu gagnvart ungu fólki, sem féll undir skilgreininguna utangarðfólk.
Og þá vaknar spurningin um það hvort hópur vel menntaðs og ágætlega stæðs fólk, sem hefði verið þvingað með harðræði til að játa á sig tvö morð, hefði fengið tvöfalt vægari dóma en sexmenningarnir.
Ekki þýðir að afgreiða þennan möguleika út af borðinu, því að ágætlega menntað og stætt fólk hefur í gegnum tíðina brotið af sér á þennan hátt.
Vilja þyngja refsingu fyrir brot í gettóum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"65. gr. Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. ..."
Stjórnarskrá Íslands
Þorsteinn Briem, 26.2.2018 kl. 19:38
Þyngd refsingar skv þessum dönsku tillögum er ekki bundin við íbúa hverfisins heldur aðeins hvar brotin eru framin. Þannig hefðir þú Ómar skv þessum tillögum fengið þyngri refsingu en Sæmi ef þú hefðir brotið af þér í Höfðaborginni en Sæmi í Samtúni.
Ásmundur (IP-tala skráð) 26.2.2018 kl. 23:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.