"Við öndum öll að okkur sama loftinu..." Ræða Laxness; "..hærra plan."

Það er mikils virði að búið sé að nota nýjustu tækni til þess að heyra John F. Kennedy flytja ræðuna, sem hann ætlaði að flytja í Dallas 22. nóvember 1963. 

Síðasta merka ræðan, sem hann flutti áður en hann var myrtur er fyrir löngu orðin klassísk og hefur sama gildi í dag og þegar hún var flutt. 

Sú ræða var greinilega afrakstur hugleiðinga hans í kjölfar Kúbudeilunnar 1962 þegar heimurinn rambaði á barmi borgarastyrjaldar. 

Frægasta setning þeirrar ræðu er sennilega, sú sem hann sagði um þjóðir heims: 

"Við öndum öll að okkur sama andrúmsloftinu, við eigum öll afkomendur, sem okkur er annt um, og við erum öll dauðleg." 

 

Ég hef áður sagt hér á bloggsíðunni að hugsanlega muni sá tími koma, að ekki verði einasta hægt að láta látna menn flytja ræður, sem ekki voru varðveittar, á tilbúinni hjóðrás síðar meir, heldur einnig búa til myndrás af flutningnum. 

Sjáist hinn látni þá bæði og heyrist á tilbúnu myndrásinni. 

Einni eftirminnilegustu ræðu Halldórs Laxness, sem hann flutti, og jafnan var kennd við ummælin "er ekki hægt að lyfta þessari umræðu upp á örlítið hærra plan?" og spann hana reyndar af munni fram, var eytt skömmu síðar, bæði hljóðrás og myndrás. 

Myndupptökunni var eytt um 7-10 dögum síðar, af því að á þessum tíma voru tveggja tommu myndböndin, sem sjónvarpsstöðvar notuðu, svo óheyrilega dýr, hundruð þúsunda hvert, að það varð að endurnota þau með því að taka nýtt efni ofan í eldra og velja alveg sérstaklega gaumgæfilega það efni, sem geymt væri.

Í Sjónvarpinu var öll dagskráin tekin jafnóðum upp á einfalt hljóðband á þessum tíma, en þeim upptökum var að jafnaði eytt með því að taka nýtt efni ofan í það gamla nokkrum vikum eftir upptöku. 

Ég harma það alla tíð að hafa ekki á eigin vegum tekið upp umræðuþáttinn á einfalt segulband þann hluta umræðuþáttarins, þar sem Laxness brýndi sig á eftirminnilegan hátt og tók umræðuna í sínar hendur með myndugleika sínum. 

Ég hefði að vísu orðið að taka þetta upp utan við rútínukerfi Sjónvarpsins, sem vitanlega var erfitt í framkvæmd og var þess vegna ekki gert. 

Þess má geta sem dæmi um gildi þessarar orðræðu Laxness, að nú síðast undanfarna daga hefur staðið yfir nokkurs konar ritdeila í Fréttablaðinu um það sem Laxness kallaði "hið steingelda þras" helstu listamanna þjóðarinnar í Kalda stríðinu. 

Ég reyndi að bæta fyrir aðgerðarleysi mitt með því að leggja orð Laxness sérstaklega á minnið og varðveita þau þannig. 

Fór síðan með ræðukaflann í Kastljósi í orðastað Laxness og fékk þau viðbrögð hjá þeim, sem mundu hann sæmilega, að nokkuð rétt væri farið með hann. 

Í þessu tali í Kastljósi studdist ég ekki við blað og gleymdi því einni setningu Laxness um "hörmungar af mannavöldum". 

Þessi kafli umræðuþáttarins var að mínum dómi merkilegur vegna þess að í honum bjó Nóbelskáldið til nokkurs konar leikrit með fjórum rithöfundum, sem allir höfðu samið verk sem voru sett á svið. 

Urðu hinir þrír, Matthías Jóhannessen, Jónas Árnason og Gunnar Gunnarsson að leiksoppum Halldórs þessar mínútur sem Laxness tók á honum stóra sínum. 

Einhvern tíma í framtíðinni mun kannski renna upp sá dagur, að hægt verði að endurgera með notkun gervigreindustu fáanlegrar tölvu þessar eftirminnilegur mínútur í sjónvarpinu með skáldunum fjórum. 


mbl.is Kennedy flytur loks Dallas-ræðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Rússnesk vinkona mín hló mikið þegar ég sagði henni á Rauða torginu í Moskvu brandarann um mörlensku kommana þegar þeir á Klakanum hleyptu lofti úr dekkjum bíla sem fluttir höfðu verið inn frá Sovétríkjunum.

"Ah, rússneskt loft!" cool

Þorsteinn Briem, 16.3.2018 kl. 16:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband