Sem betur fer eru alvöru jeppar enn til, en því miður flestir dýrir.

Sem betur fer eru enn til bílaframleiðendur sem bjóða upp á raunverulega jeppa en ekki gervijeppa eins og nú eru hvað vinsælastir. 

Smám saman hefur jeppum með heilar hásingar fækkað, og nú er eitt af síðustu vígunum fallið, Mercedes-Benz G jeppinn, sem kominn er með sjálfstæða fjöðrun að framan. 

En samt áfram alvöru jeppi. 

Heilar hásingar eru að vísu með meiri "ófjaðraða" þyngd en sjálfstæð fjöðrun, og það telst galli, en kosturinn er hins vegar sá, að veghæðin er alltaf sú sama á hásingunum, gagnstætt því sem er á flestum "gervijeppunum" sem geta sigið alveg niður undir jörð ef þeir eru hlaðnir og dúa upp og niður á ójöfnum vegum. 

Fyrir nokkrum árum var listi yfir alvöru jeppa með háu og lágu drifi og heilum hásingum að framan og aftan ennþá sæmilega langur: Jeep Wrangler, Land Rover defender, Nissan Patrol, Mercedes Benz G, Suzuki Jimny, en nú eru Wrangler og Jimny einir eftir, eftir að Nissan Patrol og Land Rover defender fengu hægt andlát. Suzuki Jimny´06 Helgu norðan v. Hrafntinnusker

Ef miðað er við stærð, gerð og verð er það Suzuki Jimny sem er í raun líkastur upprunalega Willys jeppanum hvað snertir þyngd og stærð. Hann er með gormafjöðrun og er ódýrasti alvöru jeppinn á markaðnum. 

Helga átti svona jeppa í nokkur ár og þarna er hún á honum í kvikmyndunarferð fyrir myndina "Akstur í óbyggðum" á leið niður frá Hrafntinnuskeri með útsýni upp á miðhálendið ef vel er að gætt. 

Patrolinn og Defenderinn voru með afar mjúka gormafjöðrun og því sjónarsviptir að þeim. 

Eldri gerðin af langa Patrolnum á 44 eða 38 tommu dekkjum getur verið drauma jöklajeppi litla mannsins vegna þess hve langt er og breitt á milli hjólanna og hve vel hann fer með ökumanninn í öldóttu færi á jöklum. Range, Vitara, Fox jöklajeppar

Kemur sér vel fyrir bakflæðissjúklinga. 

Ég fann ekki slíkan 2004 þegar ég leitaði og datt niður á það næst besta, örlítið lengda Range Rover 1973 árgerð á 38 tommum með Nissan Laurel dísilvél fyrir 220 þúsund kall. 

Kalla hann "Kötlujeppann". 

Meðal jeppa með sjálfstæðri fjöðrun að framan og heilli hásingu að aftan og háu og lágu drifi má nefna, Toyota Land cruiser, FT cruiser, Hilux, Mercedes Benz G, Ssanyong Rexton og, - haldið þið ykkur nú, - Lada Taiga (Lada sport).

Síðast nefndi rússneski smájeppinn er enn framleiddur þótt til stæði að drepa hann fyrir rúmum 20 árum, og kostar skít á priki, en er grófgerður og smábilanagjarn (eitthvað laust og dettur af svo sem pedalar og hurðahúnar) og eyðslufrekari en þörf er á.  Lada Niva og Friðþjófur

Ég átti einn slíkan í nokkur ár og hafði mjög gaman af því. Bílaleigan Geysir hafði flutt nokkra inn og ég greip einn í verkefni mín um stundarsakir. Alltaf fór hann í gang, maður komst allan fjandann á honum og aldrei var hann stopp vegna bilunar þótt smáhlutir losnuðu.  

Þessir bílar hafa verið seldir víða um lönd alla tíð og voru með tímamóta hönnun 1977. 

Þess má geta að Rexton er ódýrasti alvöru fullvaxni jeppinn á íslenskum markaði. 

Tveir "gervijeppar" hafa nokkra sérstöðu með það að hafa extra lágan fyrsta gír, sem getur verið mjög mikilvægt í torfærum og gefa þessum bílum færi á að vera eins konar blendingar. Fiat Panda cross 4x4

Þetta eru Fiat Panda cross 4x4   og Dacia Duster, báðir tiltölulega ódýrir og sparneytnir. Fiatinn mætti vera með ca 2ja sentimetra meiri veghæð að framan en hann hefur, en á móti kemur, að cross-gerðin er með ágætum hlífðarpönnum að framan og aftan. 

Fyrir lítinn pening er boðið upp á stærri dekk og smá hækkun á fjöðrun fyrir Dacia Duster hjá BL og getur hann þá farið undir stjórn lunkings bílstjóra að slást í för með alvöru jeppum á jeppaslóðum hálendisins líkt og Lada Taiga, þökk sé lága fyrsta gírnum. Suzuki Ignis

Enn er ótalinn mjög athyglisverður aldrifsbíll, sem er Suzuki Ignis. Sá bíll er með heila hásingu að aftan og því lítil vandræði varðandi það að hann sígi hlaðinn niður að jörðu að aftanverðu. Hann er með betra set fyrir fjóra fullvaxna frammi í og aftur í en miklu stærri bílar, jafnvel Land Rover Discovery, fimm sinnum dýrari bíll! 

Hann mætti hins vegar vera með aðeins meiri veghæð að framan og vera með lægri 1. gír. 

Hvað snertir verð, léttleika og sparneytni í gegnum hátækni hönnun er þessi ódýrasti aldrifsbíll á markaðnum hrein snilld.  

En líklega er Land Rover Discovery toppurinn ef allt er mælt og eigandinn nógu ríkur. Hingað til hefur til dæmis 50 sentimetra árdýpt (hámarksdýpt á vatni sem ekið er í) þótt afbragð, en Discovery er með 70 sentimetra árdýpt. 


mbl.is Drífand góður Land Cruiser 150
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðan daginn Held að í upptalninguna vanti Suzuki Jimny heilar housingar og gormar. UAZ patriot fæst ekki hérlendis en þessi rússi er á heilum housingum gormum og er til í ymsum útfærslum. Kostar nýr í russiá innan við 2 iskr millur minnir mig, hosu/hækju frambúnaðurinn er alltof dýr í viðhaldi og við kvæmurAlgengt að bíll sem búið er að aka ca 130 þús km sé meðónýtar spindilkúlur og öxulhosur það er viðgerð uppá 150- 200 þús en hosingabíll getur vel komist í 200þús km + á viðhaldss 

kv Gust

agust (IP-tala skráð) 18.3.2018 kl. 10:42

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það tekur ákveðinn tíma að breyta bloggpistlum og ég var raunar búinn að fatta þetta með Jimnyinn og setja mynd honum áður en athugasemd þín kom. Takk samt fyrir ábendinguna. 

Ómar Ragnarsson, 18.3.2018 kl. 11:32

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

UAZ er enn til að mestu óbreyttur í grunninn frá dögum GAZ 69, en er ekki boðinn í Vestur-Evrópu. Lada Taiga kostar álíka mikið í Þýskalandi og Toyota Aygo. 

Ómar Ragnarsson, 18.3.2018 kl. 11:37

4 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Ómar, skoðaðu síðuna www.madeinrussia.cz

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 18.3.2018 kl. 12:54

5 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Tėkkarnir bjóða fjölda russneskra bila með eu 6 vèlum

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 18.3.2018 kl. 12:56

6 identicon

Hefðbundin skilgreining á jeppa er að vera á hásingum að framan og aftan, með drif á öllum hjólum og háu og lágu drifi. Þeim fækkar óðum, sem þetta uppfylla.

Páll Bragason (IP-tala skráð) 18.3.2018 kl. 15:05

7 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Jeppar eru dýrir af tolla-ástæðum.  Ef það snjóar á þig, ertu ríkir, heldur ríkið.

Eins og bent er á sleppa menn best með Suzuki Jimni & Dacia - betri bílakaup eru með þá síðarnefndu með 1600 *bensín* vél á afar viðráðanlegu verði.  Mest freistandi kaup sem ég hef séð það - held samt það séu óttalegir balar.

Fólk er nefnilega ekkert að kaupa þessa óldsmóbíla fyrir torfæru-eiginleika.

Fólk vill bíl sem er þægilegt að setjast inní, og sitja í.

Semsagt: Rav4.

Persónulega myndi ég frekar mæla með Skoda Kodiak eða Hondu CRV - betri bílar.  Þægilegri, meiri gæða-tilfinning.

Eða ef menn þurfa að jeppast: Nissan Navarra.  Stórlega allt of dýrir - kosta í Evrópulandi ~3.5-4, hér allt af 5 milljónum.

Færð reyndar afar þægilegan bíl sem er gott að sitja í og keyra.

En: ég segi aftur: oldsmóbílarnir seljast fyrir þægindi, ekki jöklaferðir.

Ásgrímur Hartmannsson, 18.3.2018 kl. 19:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband