Auðveldast í bílskúrum.

Eftir rúmlega öld sem það hefur tekið bílinn og vegakerfið fyrir hann að þróast hér á landi, hugsum við kannski ekki út í það, hve það er mikið og flóki kerfi mannvirkja sem hefur risið til þess að koma eldsneyti á flota um það bil 200 þúsund bíla um allt land. 

Fróðlegt er til dæmis að lesa um það í fræðibókum um bílabyltinguna að hve mörgu var að hyggja og hve margt varð að byggja upp og framkvæma til þess að þessi einfalda athöfn, að hella bensíni eða dísilolíu á bílinn gæti hreinlega átt sér stað. 

Fróðlegt væri til dæmis að fá það metið í fjármunum, hvað skipaflotinn, hafnaraðstaðan, leiðslurnar, geymarnir og dreifikerfið kostar, auk allra bensínstöðvanna um allt land. 

Í ljósi þess hve miklu fátækara þjóðfélagið var á tímum uppbyggingar olíudreifikerfisins heldur en það er nú, ætti það ekki að vaxa okkur í augum að byggja upp orkudreifingarkerfi fyrir rafbílana. 

Nefna má nokkra kosti fram yfir olíudreifingarkerfið svo sem það að geta sett orkuna á heima hjá sér úr raforkudreifikerfi, sem þegar er fyrir hendi. 

Ég hleð rafreiðhjólið mitt í skrifstofuherbergi mínu og er svo heppinn að hafa fundið einfalda leið til að hlaða rafbílinn úr leiðslu frá geymslu minni í kjallara blokkarinnar, sem ég bý í, á eigin kostnað. 

Tazzari, hleðslustaður

Það hefur komið sér vel, hve lítið kríli þessi tveggja sæta rafbíll er, þannig að hann getur staðið á stað, þar sem hann tekur hvorki bílastæði né skagar inn á gönguleið á gangstétt.

Ekkert hefur verið átt við öryggin inni eða neitt, en ég byrja yfirleitt að hlaða eftir kvöldmat og hætti áður en allt fer í gang morguninn eftir. 

Sem sagt: Þegar rafmagnsnotkunin er minnst, og rafstraumurinn á bílinn er um eitt kílówatt, eða á við fimm 200 watta ljósaperur.  

Núna hafa tveir rafbílar dúkkað upp í 110 íbúða blokkaklasanum, en ljóst er að langt er í land í blokkunum hér í hverfinu að leysa orkuvanda rafbíla, því að í hönnun hverfisins virðist alls ekki hafa verið gert ráð fyrir rafbílum, jafnvel ekki neinum farartækjum nema einkabílum, ekki einu sinni reiðhjólum.

Fleira mætti nefna hvað snertir alls kyns lagaleg atriði og úrvinnslu meðal íbúanna í ótal fjölbýlishúsum landsins, svo sem það að ná fram lausn, sem samkomulag er um. 

Niu N-GTX rafhjól

Þess má geta, að nú eru að koma fram rafhjól með vespulagi, sem ná 45 og jafnvel 80 km hraða og eru með útskiptanlegum rafgeymum, en það gerbyltir öllum hleðslumálunum og færir þau inn á heimilin, í geymslurnar eða í bílskúrna. 

Hef í hyggju að setja hér inn mynd af rafhjólinu Niu N-GTX, sem er þegar komið á markað, og 80 km hraða gerðinni verður bætt við á þessu ári.  

Sú gerð á að geta komist upp í 180 km á hleðslu, sem þýðir í raun eitthvað yfir 100 km. Niu GTX farangur

Og þrátt fyrir rafgeymana er furðu gott farangursrými undir sætinu og möguleiki til að bæta farangurskassa aftan á. 

Næsta bylting á eftir svona hjóli gæti orðið lokaður örbíll með útskiptanlegum rafgeymum. 


mbl.is Hlaða bílana á mesta álagstíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ómar, forsendan fyrir rafbílum er auðvitað að við nýtum okkar "grænu" og vistvænu fallorku, en ef við verðum skikkuð til þess að senda hana út um  sæstreng (ACER)og kaupa til baka rándýra og óvistvæna kola- og kjarnorku, þé er hún brostin.
Hefði sjálf áhuga á rafbíl, sem myndi henta mér fyrir heimilissnattið, en legg ekki í þann kostnað sem þarf til ef ávinningurinn er enginn.
Svo má heldur ekki gleyma rafgeyminum sjálfum og efnum hans, sem gæti líka verið frágangssök.

Kolbrún Hilmars, 19.3.2018 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband