Friðarbandalag sem getur mistekist að vera alltaf til friðs.

Margt fór um huga manns árin 1948 og 1949, þegar Kalda stríðið magnaðist, NATO var stofnað í skugga mestu óeirða hér á landi á okkar tímum, og Sovétríkin urðu kjarnorkuveldi. Upp var að alast ung kynslóð, sem yrði hin fyrsta í sögunni til þess að verða við því búin að verða gereytt í logum kjarnorkustyrjaldar. 

Enn í dag fara því hugleiðingar á kreik, þegar unnin eru skemmdarverk á minnismerki á Íslandi, sem er eitt NATO-ríkjanna. 

Þótt NATO væri hernaðarbandalag þegar það var stofnað 1949, var því lýst yfir að það væri stofnað til að tryggja frið í Evrópu og væri því friðarbandalag. 

Ég er nógu gamall til þess að muna eftir andrúmsloftinu hér á landi og í öðrum ríkjum Vestur-Evrópu þegar Berlínardeilan og loftbrúin til Berlínar voru helstu fréttir hvers dags og hættan á hernaðarátökum milli Sovétríkjanna og Vesturveldanna var næstum áþreifanleg í loftinu. 

Bandaríkjamenn fluttu herlið sitt að mestu í burtu í stríðslok en söfnuðu kjarnorkusprengjum í staðinn sem tryggingu fyrir því, að ef Stalín gengi of langt í notkun herafla Sovétríkjanna og færi yfir línuna sem hann og Churchill höfðu dregið frá suðri til norðurs um þvera álfu, yrði þessum ca 50-80 kjarnorkusprengjum varpað á valdar borgir í Sovétríkjunum. 

De facto hernám Tékkóslóvakíu vakti ugg, því að það ríki hafði verið með lýðræðislega stjórn á vestrænan mælikvarða. 

Ekki þarf þó annað en að líta á Evrópukort til að sjá, að á þeim tíma lá landið eins og sverðsfleygur frá landamærum Vestur-Þýskalands alla leið austur að Úkraínu og var því afar mikilvægt hernaðarlega. 

Ætlun Stalíns með því að gera landið að leppríki Sovétríkjanna var að það yrði hluti af risavöxnum "stuðpúða" milli Vesturveldanna og Sovétríkjanna. 

Vesturveldin gátu enga rönd reist við innlimun Tékkóslóvakíu í þennan "stuðpúða", því að á korti Churchills og Stalíns hafði landið lent á "áhrifasvæði" Sovétríkjanna. 

Á sama hátt hreyfði Stalín ekki litla fingur til þess að aðstoða uppreisn kommúnista í Grikklandi. 

Kort Stalíns og Churchills gilti allan Kalda stríðs tímann, "járntjaldið" sem Churchill nefndi svo í frægri ræðu í Fulton háskóla vestra, var áþreifanleg staðreynd allt til 1989 og Rússar komustu upp með að bæla niður andspyrnu í Austur-Berlín 17. júní 1953, Ungverjalandi 1956, Tékkóslóvakíku 1968 og um stundarsakir í Póllandi 1980. 

Því er þetta rifjað hér upp að listaverkið Tuttugu logar við Hótel Sögu var að vissu leyti afleggjari þeirrar friðarhugsunar, sem fór um lönd við lok Kalda stríðsins. 

Ári eftir að listaverkið var gert, réðust nokkrar NATO-þjóðir inn í Írak og lýstu íslenskir ráðamenn yfir því að Íslendingar styddu þá hernaðaraðgerð heils hugar. 

Ekki var það nú samt gert í mínu nafni og margra annarra Íslendinga. 

Við lok Kalda stríðsins varð til munnlegt samkomulag Bakers utanríkisráðherra Bandaríkjanna við Gorbatsjof um að nágrannaríki Rússlands í vestri yrðu eins konar ný gerð af friðsamlegum "stuðpúða" milli Rússlands og Vestur-Evrópu. 

Eystrasaltsríkin og önnur fyrrverandi leppríki Sovétríkjanna litu hins vegar á aðild sína að NATO sem nauðsynlega tryggingu fyrir sjálfstæði aínu gagnvart hinum stóra nágranna sínum í austri. 

Færð voru rök fyrir hernaðaríhlutun NATO í deilurnar við upplausn Júgóslavíu sem aðgerð til að tryggja réttlátan frið þar um slóðir. 

Í framhaldinu héldu menn að svipaður árangur kynni að nást með hernaðaríhlutun í Líbíu 2011, sem við Íslendingar studdum eins og aðrar NATO-þjóðir.

Þar að auki hafa öflug NATO-ríki beitt hervaldi í Írak 1991 og 2003, veitt uppreisnarmönnum "Arabíska vorsins" hernaðarlegan stuðning frá 2011 og fallist var á skilgreiningu Bandaríkjamanna á hryðjuverkaárásunum á New York og Washington á þann veg að árás utan frá á eitt NATO ríki félli undir það ákvæði NATO-sáttmálans, að árás á eitt ríki NATO teldist árás á þau öll og yrði því svarað með því að ráðast inn í Afganistan. 

Núverandi Bandaríkjaforseti lagði áherslu á það í kosningabaráttu sinni 2016 að íhlutun Bandaíkjamanna í Írak 2003 hefði þvert ofan í yfirlýsingar um tilgang hennar skapað ófriðarbál í Írak og Sýrlandi, sem enn sér ekki fyrir endann á. 

Með öðrum orðum: Friðarbandalagið NATO ætti erfitt með að vera alltaf til friðs.

Ísland er aðildarríki að NATO og skemmdarverk á listaverki, sem er helgað ákveðnu friðsemdartímabili í sögu þess hernaðarbandalags, er því ein af afleiðingum andrúmsloftsins, sem nú ríkir í alþjóðastjórnmálum og í stríðsrekstri einstakra NATO-þjóða eða hernaðaraðgerðum í nafni allra bandalagsþjóðanna. 

Helst ætti að halda listaverkum og íþróttum utan við stjórnmál, en "svona er Ísland í dag" og "svona eru NATO og heimsstjórnmálin í dag."  


mbl.is Telur að verkið verði aldrei til friðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ísland tekur til að mynda þátt í viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi og íslenski forsætisráðherrann yrði að athlægi í veröldinni ef hann héldi því fram að Ísland hafi verið hlutlaust ríki eftir að það fékk aðild að NATO, þar sem Ísland var stofnfélagi.

27.9.2014:

"Fyrr um daginn tók Gunnar Bragi [Sveinsson utanríkisráðherra] þátt í ráðherrafundi aðildarríkja Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) um öryggishorfur í álfunni.

Á fundinum sagði Gunnar Bragi að innlimun Krímskaga í Rússland ógni öryggi í Evrópu.

Vísaði hann til þess að Helsinki yfirlýsingin sem er grundvöllur starfsemi ÖSE feli í sér ákveðin grundvallargildi í samskiptum aðildarríkjanna, meðal annars að virða beri sjálfstæði ríkja og fullveldi landamæra þeirra og að ekki skuli beita hernaðarafli í deilumálum.

Sagði hann grundvallaratriði að öll aðildarríki ÖSE virði þessar skuldbindingar og alþjóðalög."

Utanríkisráðuneytið - Málefni Úkraínu rædd í New York

Þorsteinn Briem, 26.3.2018 kl. 13:39

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Herskip frá öðrum Evrópuríkjum koma reglulega til Íslands.

"Fastafloti Atlantshafsbandalagsins, Standing Naval Force Atlantic, kemur í kurteisisheimsókn til Reykjavíkur 24.-27. apríl næstkomandi. Í flotanum eru átta herskip frá sjö aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins, Bretlandi, Kanada, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Hollandi, Noregi og Spáni.


Íslandsheimsókn fastaflotans er liður í reglubundnum heimsóknum hans til aðildarríkja bandalagsins, en fastaflotinn heimsótti Ísland síðast í ágúst 1996.


Yfirmaður fastaflotans er þýski flotaforinginn Gottfried A.W. Hoch."


Fastafloti Atlantshagsbandalagsins heimsækir Reykjavík


Ísland og Danmörk eru stofnfélagar í NATO
og Landhelgisgæslan og danski sjóherinn eru í miklu samstarfi hér á Norður-Atlantshafi.

"Landhelgisgæslan og danski flotinn hafa um árabil átt í góðu samstarfi, einkum á sviði eftirlits- og öryggismála. Í janúar 2007 var undirritaður samningur um nánara samstarf milli Landhelgisgæslunnar og danska flotans er varðar leit, eftirlit og björgun á Norður- Atlantshafi og hefur samkomulagið styrkt samband þjóðanna á þessum sviðum.

Samstarf Íslendinga og Dana er afar mikilvægt fyrir öryggi við Íslandsstrendur sem og vegna fyrirsjáanlegra breytingar á siglingaleiðum um Norður-Íshafið.
"

Landhelgisgæsla Íslands

Þorsteinn Briem, 26.3.2018 kl. 13:40

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Ísland og Noregur undirrituðu í apríl 2007 tvíhliða rammasamkomulag um samstarf á sviði öryggismála, varnarmála, viðbúnaðar og leitar og björgunar.

Þann sama dag undirrituðu Ísland og Danmörk yfirlýsingu um samstarf ríkjanna um öryggis- og varnarmál og almannavarnir. Í samkomulaginu og yfirlýsingunni er vísað til aðildar Íslands, Noregs og Danmerkur að NATO og þeirra skuldbindinga sem af því leiða.

Tilgangur samkomulagsins og yfirlýsingarinnar er að staðfesta sameiginlega hagsmuni og framtíðarsýn ríkjanna varðandi öryggismál á Norður-Atlantshafi. Unnið er að útfærslu einstakra verkefna. Ísland gengur til þessa samstarfs með það að markmiði að leggja sitt af mörkum til sameiginlegs öryggis, eins og aðrar þjóðir."

 

 

 

     

     

       

       

        Þorsteinn Briem, 26.3.2018 kl. 13:42

        4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

        Mér vitanlega hefur engum dottið í hug að nokkurt aðildarríki NATO sé í hópi hlutlausra ríkja. 

        Ómar Ragnarsson, 26.3.2018 kl. 15:55

        Bæta við athugasemd

        Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

        Innskráning

        Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

        Hafðu samband