Kaffæringarþöggun varðandi rányrkju og óþef hér.

Mál manns í Sibley í Iowa í Bandaríkjunum getur vonandi fengið fordæmisgildi, ekki aðeins þar í landi, heldur líka víðar. 

Málið fjallar um það að leyfilegt sé að nefna óþægilegar staðreyndir í umhverfismálum án þess að eiga hættu á málssókn frá yfirvöldum, sem bera ábyrgð á þessum staðreyndum. 

En yfirvöld geta líka losað sig við óþægilegar upplýsingar á annan og hljóðlátari hátt. 

Svipað mál hefur að vísu ekki komið upp hér varðandi málssókn á hendur málshefjanda, en engu að síður ríkir ákveðin kaffæringarþöggun varðandi tvö umhverfismál hér á Reykjanesskaganum, sem virðist árangursríkari fyrir yfirvöld en beinar málssóknir. Auglýsing LV (2) 

Annað málið og það stærra felst í því að í gangi eru stanslausar yfirlýsingar okkar Íslendinga um það sem kallast "100% sjálfbær og endurnýjanleg nýting á hreinni íslenskri orku."

Erlendir ferðamenn komast ekki í gegnum Leifsstöð, hvorki á leið inn í landið né á leið út úr því nema að berja augum risaljósmynd með fullyrðingu af þessu tagi. 

Að vísu fjallar myndin aðeins um starfsemi Landsvirkjunar, þannig að jarðvarmavirkjanir annarra orkufyrirtækja eru ekki beinlínis taldar með, enda er í rekstri þeirra um að ræða stórfelldustu rányrkju á orkuvinnslusvæðum hér á landi yst á Reykjanesskaga og á Hellisheiðarsvæðinu. Auglýsing Landsvirkjun

En þessi risamynd er táknræn fyrir þá aðferð sem notuð er og þar er beinlínis fullyrt, að "Ísland sé land hinnar endurnýjanlegu orku." 

"Á Íslandi framleiðum við alla okkar raforku með nýtingu endurnýjanlegra orkulinda, vatnsafli, jarðvarmaafli og vindorku." 

Jarðvarmasvæðin, eitt þeirra í aðeins nokkurra kílómetra fjarlægð frá Leifsstöð, síga hratt vegna oftöku orku sem þegar hefur valdið orkufalli sem mun á endanum valda orkuþurrð.

Sjór gengur þegar á land á sígandi ströndinni við Staðarhverfi vestan við Grindavík.

Mælingar sýna sig upp á allt að 18 sentimetra á fáum árum, bæði á Hellisheiði og yst á Reykjanesskaga. 

En fyrir hvert skipti sem þessi staðreynd er nefnd og nefndar harðar tölur um landssig og orkufall er síbyljan um sjálfbæra þróun og hreina og endurnýjanlega orku nefnd þúsund sinnum.

Þegar hlutfallið er milli staðreyna og ósannra fullyrðinga er 1:1000 varðandi endurtekningu á borð við þá sem heilsar erlendum gestum í Leifsstöð er náð fram fyrirbæri, sem nefna má kaffæringarþöggun. 

Óþægilegar staðreyndir eru kaffærðar og þeim drekkt. 

Með lagni er síðan fengið vottorð frá Norðurlandaráði í formi umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs til handa Reykjavík. 

Það þarf nefnilega vissa lagni til þess að komast framhjá því að nefna í forsendum fyrir veitingu slíkra verðlauna óloft sem enn leggur frá virkjunum á Hellisheiði og loft í Reykjavík, sem fer iðulega yfir heilsuverndarmörk, eins og hefur gerst að undanförnu. 

Að vísu er rétt að geta þess að stórmerk og virðingarverð viðleitni er í gangi varðandi niðurdælingu brennisteinsvetnis og annars útblásturs, en annað gildir hvað snertir það að fela rányrkjuna, sem að sjálfsögðu er stórt umhverfismál. Auglýsing LV (2)     

Tvíbirting efri myndarinnar gerðist að vísu óvart hér á siðunni vegna tæknilegra mistaka, en hugsanlegt væri að endurtaka birtinguna og textann þúsund sinnum, ef rými gæfist, til þess að myndgera þessa kaffæringarþöggun. 

Hún nær síðan hæðum þegar farið er að saka síðuhöfund um að stunda sjálfur síbylju með því að hafa nefnt þetta ótal sinnum frá í því í fyrsta pistlinum á þessari bloggsíðu 2007. 

Samt langt frá þúsund sinnum. 

Þá er búið að snúa þessu alveg við og síðuhöfundur orðinn sekur um áróður og þráhyggju. 

Einu mögulegu viðbrögð hans við því að málinu sé snúið svona á haus er að nefna þessa snöru í hengds manns húsi eins sjaldan og hann telur sig geta. Þannig að hlutföllin verði áfram 1:1000. 

Og þar með er hringnum lokað og kaffæringarþöggunin svínvirkar. 


mbl.is Í fullum rétti til að tala um ógeðfellda lykt í bænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bandarísk stjórnarskrármál eru sjaldan fordæmisgefandi í öðrum löndum.

Málið fjallar ekki um það að leyfilegt sé að nefna óþægilegar staðreyndir í umhverfismálum án þess að eiga hættu á málssókn frá yfirvöldum, sem bera ábyrgð á þessum staðreyndum eins og þú heldur fram. Málið fjallar um það að samkvæmt stjórnarskrá bandaríkjanna sé leyfilegt að gagnrýna stjórnvöld án þess að eiga hættu á málssókn frá þeim, og gagnrýnin þarf ekki að byggja á staðreyndum.

Stjórnarskrá bandaríkjanna tryggir samkvæmt úrskurðinum þegnunum rétt til að segja hvað sem er og halda fram hverju sem er um stjórnvöld. Ósannur áróður og þráhyggja, síbylja og rangfærslur eru heimilar þegar þeim er beint gegn bandarískum stjórnvöldum af bandarískum þegnum. Hvort ósannur áróður og þráhyggja, síbylja og rangfærslur gegn stjórnvöldum séu æskilegar og ættu að vera heimilar hér án ábyrgðar er svo annað mál. Það var ekki að finna í tillögum stjórnlagaráðs. En oftast dæmir þannig málflutningur sig sjálfur og stjórnvöld þurfa lítið að skipta sér af ruglinu og stjórnvöld eru aldrei þeir sem tapa.

Hábeinn (IP-tala skráð) 31.3.2018 kl. 03:37

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"...getur vonandi fengið fordæmisgildi...". Lengra er nú ekki gengið hjá mér, og það hlýtur að vera krafa í opinberri umræðu að fullyrðingar eigi sér einhverja stoð. Í bandaríska tilfellinu að um ólykt sé að ræða, sem nógu margir vitni um. 

Annars er fólk afar misjafnt fyrir lykt. Ég finn ekki brennisteinsþefinn, sem aðir finna hér í Reykjavík. 

Mágkona mín, sem á heima fyrir vestan, telur hann mjög mikinn, en hún hefur ekki vanist honum heima hjá sér. 

Ég hef fært fram staðreyndir um nefnda rányrkju og loftmengun, sem hægt er að finna í margvíslegum upplýsingum frá yfirvöldum og stofnunum og hefur ekki verið mótmælt af þeim, heldur er þeim ekkert flaggað. 

Ómar Ragnarsson, 31.3.2018 kl. 11:36

3 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Sæl og blessaður, Ómar Ragnarsson, og bloggarar.

Þetta er athygli verð umræða.

Hér áður, höfðum við laugar í Laugardal og fullt af laugum og sprungum úti um allar grundir.

Þessar laugar og sprungur hleyptu gasinu út í andrúmsloftið, allstaðar, og varð það til þess að gasið þynntist strax og fólkið vandist þessum styrk af gasi í andrúmsloftinu.

Núna, hefur heita vatnið sigið niður, og gasið kemur helst upp um borholurnar.

Hvort að meira af gasi kemur upp nú um stundir, veit engin.

Þessi tæming á heita vatninu, er aðeins vinnslu aðferð, og við munum læra á ferlið eftir því sem tímar líða.

framhald: 

https://jonasg-egi.blog.is/blog/jonasg-egi/entry/2213967/

Egilsstaðir, 31.03.2018  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 31.3.2018 kl. 17:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband